Vont veður í kortunum

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna veðurs fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendi í kvöld og fram yfir miðnættið og gul viðvörun gildir fyrir Höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og Norðurland eystra á morgun 26. nóv. frá hádegi og fram á föstudagsmorgun. Spáð er vaxandi suðaustanátt og að það þykkni upp, 18-25 m/s og snjókomu eða slyddu með köflum í kvöld og hlýnar, en sunnan 20-28 um miðnætti og úrkomuminna. Suðvestan 10-18 og él í fyrramálið, en 18-23 eftir hádegi og kólnar. Heldur hvassara annað kvöld.

Í athugasemd veðurfræðings segir að suðaustan stormur eða rok verði um landið vestanvert í kvöld og nótt með snjókomu eða slyddu og síðar slyddu eða rigningu. Dúrar í fyrramálið, en suðvestan stormur eða rok með mjög hvössum og dimmum éljum á morgun, en hægari og úrkomuminna austantil á landinu. Hlýnar um tíma, en kólnar síðan aftur þegar líður á morgundaginn.

Viðvörunarstig var hækkað upp í appelsínugult fyrir tvö spásvæði, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendið og segir á vedur.is að ástæðan sé sú að útlit er fyrir að vindstyrkur verði meiri en upphafleg spá gerði ráð fyrir.

„Dálítil óvissa er um hversu hratt hlýnar, en það hefur áhrif á hvaða úrkomutegund verður á láglendi. Á fjallvegum, einkum á vestanverðu landinu verður ekki eins hlýtt svo að bæði má reikna með að úrkoma fari seinna yfir í rigningu í kvöld eða nótt og eins kólnar fyrr þar á morgun svo að öll úrkoma fellur þar sem él á morgun. Æskilegt er að fólk kynni sér veðurspár vel og ani ekki út í óvissuna, því útlit er á að élin verði bæði dimm og mjög hvöss.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir