Aðsent - Valdleysi þolenda gagnvart samfélagi og kerfum sem eru gegnsýrð af þöggun og gerendameðvirkni.

Erla Einarsdóttir
Mynd af FB
Erla Einarsdóttir Mynd af FB

Erla Einarsdóttir skrifar:

Hér ætla ég að taka aðeins 3 dæmi af ótalmörgum “meintum” kynferðisbrotum úr skagfirskum samtíma. Athugið að dæmin eru mjög einfaldaðar frásagnir af raunverulegri reynslu þolenda og aðeins til þess ætlaðar að gefa almenningi hugmynd um hvernig þessi mál koma þolendum og aktívistum fyrir sjónir.

Dæmi 1.

Fótboltamaður brýtur kynferðislega á a.m.k. 12 stúlkum, 2 þeirra kæra hann fyrir nauðgun en málin eru felld niður þar sem þau “þykja ekki líkleg til sakfellingar”. Fótboltadeild Tindastóls ræður hann til að stjórna barna- og unglingastarfi með það í huga að “bæta ímynd félagsins”.

Ung kona sem hefur áreitt a.m.k. 3 þolendur fótboltamannsins beitir sér fyrir því að maðurinn verði tekinn aftur í lið Tindastóls og gerist svo formaður fótboltadeildarinnar.

Afleiðingarnar á þolendur mannsins eru alvarlegar. Andlegar afleiðingar og líkamlegar, tímabundin örorka hjá sumum, vinnutap, dýr sálfræðiaðstoð o.s.frv.

Margir af þolendum fótboltamannsins flytja burt úr firðinum, í einhverjum tilfellum flytur öll stórfjölskyldan í burtu.

Hópur þolendanna ásamt 2 aktívistum eru kallaðir á fund yfirstjórnar Tindastóls sem vill fá upplýsingar um málið vegna aktívisma tengdum Druslugöngunni í Reykjavík 2021. Fundurinn er góður, þolendum finnst loksins hlustað á sig en hafa svo ekkert heyrt meira frá Tindastóli nú rúmum átta mánuðum síðar. Engin afsökunarbeiðni hefur heldur borist þolendum frá áðurnefndum formanni fótboltadeildarinnar vegna málsins.

Þolendur sem enn búa í bænum, sumar með börn sem eru komin á aldur til að taka þátt í íþróttastarfi, segjast aldrei munu koma nálægt neinu starfi innan fótboltadeildar Tindastóls með sínar fjölskyldur á meðan staðan er svona og sár og alvarleg mál óuppgerð gagnvart deildinni. Hið sama á við um marga aðra þolendur kynferðisbrota í Skagafirði og jafnvel vini þeirra og fjölskyldur líka.

Er þetta ásættanlegur fórnarkostnaður?

Dæmi 2.

Unglingur nauðgar 13 ára stúlku í grunnskólanum þar sem þau bæði stunda nám. Stúlkan fer í rannsóknarviðtal í Barnahúsi, eftir viðtalið segir sérfræðingurinn sem tók viðtalið að hann meti stúlkuna 100% trúverðuga og enginn vafi leiki á því í sínum huga að stúlkan sé að segja sannleikann. Unglingurinn er ósakhæfur sökum aldurs og málið ekki kært til lögreglu að ráði barnaverndaryfirvalda. Stúlkan grátbiður um að hann sé færður í annan skóla, bæjaryfirvöld segja að það megi ekki, það sé brot á hans mannréttindum. Þegar spurt er um hennar mannréttindi verður lítið um svör. Stúlkan er drusluskömmuð og úthrópuð, af börnum og fullorðnum íbúum Skagafjarðar. Þó margir standi með henni gera þeir það flestir óopinberlega. Langflestir eru “hlutlausir” og gagnast því gerandanum með þögn sinni.

Stúlkan veikist alvarlega vegna kvíða, áfallastreitu, hugbrigðaröskunar, vefjagigtar og þunglyndis. Henni er útskúfað af vinunum með tímanum. Hún á erfitt með að sinna námi og síðar vinnu vegna veikindanna sem ágerast stöðugt. Hún hættir að geta stundað íþróttirnar sem hún elskaði. 18 ára flýr hún burt úr bænum, óvinnufær, veik, þarfnast mikillar endurhæfingar til að eiga möguleika á eðlilegu lífi í framtíðinni.

Er þetta ásættanlegur fórnarkostnaður?

Dæmi 3.

Lögreglumaður á sextugsaldri nauðgar 19 ára ungri konu. Hún kærir en málið er fellt niður þrátt fyrir áverka, vitni að ástandi hennar strax eftir atburðinn og þrátt að hafa sent sms sem í stóð “hjálp” á meðan hann braut á henni. Gömul saga og ný í okkar “stórkostlega” dómskerfi. Konan upplifir drusluskömmun og útskúfun frá samfélaginu, jafnvel fjölskyldumeðlimir hennar snúa við henni baki, kalla hana lygara. Konan endar með að flýja bæinn og síðan landið, því miður ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta sem sér enga aðra kosti eftir svona framkomu samfélags gegn þolanda kynferðisbrots. Á meðan starfar maðurinn ennþá sem lögreglumaður.

Lögreglumaðurinn kærir konuna fyrir rangar sakargiftir því réttarkerfið okkar býður meintum gerendum upp á þann valmöguleika þrátt fyrir að engar sannanir liggi fyrir að um lygar sé að ræða. Lögreglan hótar að handtaka hana á Þorláksmessu því hún komst ekki í skýrslutöku á einum degi þrátt fyrir að hafa komist alla aðra daga. Hún var þarna ólétt af fyrsta barni sínu og meðgangan flokkuð sem meðganga undir eftirliti. Lögfræðingur konunnar stoppar þetta af sem betur fer. Málið er auðvitað fellt niður.

Konan veikist, hún fær kvíða, áfallastreitu, vefjagigt og fleira.

Er þetta ásættanlegur fórnarkostnaður?

Þegar við sem skipulögðum þessa fyrstu Druslugöngu á Sauðárkróki höfum að leitað eftir aðstoð og stuðningi hefur okkur allsstaðar verið vel tekið og fólk virst ánægt með að LOKSINS sé haldin Drusluganga í Skagafirði enda sé heldur betur kominn tími til. Öll hvatningin og meðbyrinn sem við höfum fundið fyrir hefur komið okkur mjög á óvart, sem er náttúrulega sorglegt og segir sína sögu af því hvernig þolendur upplifa viðbrögðin í okkar nærsamfélagi þegar þeir opna sig um kynferðisbrot sem þeir hafa orðið fyrir. Málið er það að við heyrum langmest frá gerendameðvirkum einstaklingum og hópum og hatursorðræðan er sú orðræða sem við sjáum mest og heyrist hæst. Hvers vegna er það? Við vitum jú innst inni að það er fullt af indælu fólki í Skagafirði sem er að reyna að gera vel. Málið er að það eru afar fáir af þeim sem trúa þolendum og standa með þeim sem láta í sér heyra innan hópa, á vinnustöðum, á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum o.s.frv. Fólk kemur oftast til okkar og hvíslar stuðningi sínum að okkur, sendir okkur rafrænan einkapóst eða bara þegir og það er því miður algengast því það er svo óþægilegt að nota röddina sína til að tjá sig um svona “erfið” málefni. Svo ekkert misskiljist skal það sagt að við erum að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir allan stuðning sem okkur er sýndur. Svo er náttúrulega stærsti hópurinn, þeir sem eru “hlutlausir”. Hlutleysi í kynferðisbrotamálum er hins vegar ekki til. Hlutleysi og þögn gagnast ALLTAF gerandanum, ALDREI þolandanum.

Fjöldamargar rannsóknir hafa verið gerðar um allan heim um sannleiksgildi ásakana um kynferðisbrot og segja þær okkur að á bilinu 95-98% þeirra reynist sannar. Það heyrir hins vegar til undantekninga að gerandi játi sök. Þetta á við í öllum tegundum afbrota, ekki aðeins kynferðisbrotum.

Ef okkur finnst ekki í lagi að við séum aftur og aftur og endalaust að missa gott fólk og jafnvel heilu fjölskyldurnar úr fallega firðinum okkar vegna þess að þau geta ekki hugsað sér að búa í samfélagi sem styður þau ekki heldur skammar þau og útskúfar þeim eftir að manneskja sem þar býr hefur brotið á þeim kynferðislega, hvað er þá til ráða? Hvað getum við gert? Hvað getum ég og þú sem íbúar í Skagafirði gert til að reyna að laga þetta ástand,? Þetta ástand sem er hreinlega dauðans alvara, ég tala þar því miður af þekkingu og reynslu.

Það er ótalmargt sem þyrfti að bæta og breyta og við þessari spurningu er ekki eitt einfalt svar. Ýmislegt er það þó sem við getum öll gert, sem við getum öll ákveðið að byrja að breyta hjá okkur sjálfum strax í dag til að gera samfélagið okkar betra fyrir okkur öll.

Númer 1-2 og 3:

TRÚUM ÞOLENDUM, ALLTAF, SKILYRÐISLAUST.

Það eru yfirgnæfandi líkur á að þolandinn sé að segja sannleikann og það eru yfirgnæfandi líkur á því að gerandinn sé að ljúga. Það er einfaldlega staðreynd sem rannsóknir hafa sýnt aftur og aftur.

KREFJUMST ÞESS AÐ GERANDINN VÍKI ÚR ALMANNARÝMI SEM ÞOLANDI ÞARF AÐ HAFA AÐGANG AÐ.

Þolandinn hefur ekkert til saka unnið og á ekki að þurfa að hrökklast úr starfi og leik vegna þess að það að vera stöðugt nálægt geranda eða eiga stöðugt á hættu að rekast á hann gerir þolanda veikan. Gerandinn hins vegar tók ákvörðun um að brjóta á þolanda og það er ekkert nema eðlilegt hann þurfi að taka afleiðingunum af gjörðum sínum.

NOTUM RÖDDINA OKKAR. STYÐJUM ÞOLENDUR MEÐ AÐ LÍKA VIÐ SKRIFA STUÐNINGSYFIRLÝSINGAR VIÐ UMRÆÐUR OG FRÁSAGNIR ÞOLENDA Á SAMFÉLAGSMIÐLUM. STYÐJUM ÞOLENDUR Í ORÐI Í VINAHÓPUM, Á VINNUSTÖÐUM OG ALLSSTAÐAR ÞAR SEM VERIÐ ER AÐ RÆÐA ÞESSI MÁL.

ÞORUM AÐ SEGJA, ALLSSTAÐAR OG ALLTAF:

ÉG TRÚI ÞOLENDUM OG ÉG STEND MEÐ ÞEIM!!

Þessi ræða var skrifuð og flutt af undirritaðri við fyrstu Druslugönguna á Sauðárkróki þann 23. júlí 2022.

Erla Einarsdóttir
Listakona og Aktívisti gegn nauðgunarmenningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir