Álagning fasteignagjalda í Sveitarfélaginu Skagafirði - Högni Elfar skrifar

Á heimasíðu sveitarfélagsins er frétt um að álagningu fasteignagjalda 2019 sé lokið og að einstaklingar og lögaðilar geti nú nálgast álagningaseðla í íbúagáttinni á heimasíðu sveitarfélagsins. Því má gera ráð fyrir að einhverjir séu búnir að nálgast álagningaseðlana til að gera samanburð á milli ára. Þetta árið er líklegt að íbúar í firðinum séu misglaðir við samanburðinn og líklegt að búseta viðkomandi ráði kætinni.

Á 147. fundi Umhverfis- og samgöngunefndar sem haldinn var þann 15. nóvember 2018 kom tillaga frá þeim flokkum sem eru í meirihlutasamstarfi. Hún snérist um að koma í veg fyrir krónutöluhækkun fasteignagjalda hjá íbúum, en fyrirliggjandi var hækkun fasteignamats sem að óbreyttu myndi þýða hækkun gjalda. Hugmynd meirihlutaflokkanna var að lækka skyldi fráveitugjald þannig að ekki færu fleiri krónur úr vasa íbúanna en áður var. Þar sem undirritaður var staddur á þessum fundi sem varamaður áheyrnarfulltrúa sá ég mig knúinn til að lýsa áhyggjum af því að þessi aðgerð kæmi ekki jafnt niður á öllum íbúum, en þar sem fólk í dreifbýli ber sjálft fullan kostnað af sínum fráveitumálum er ekki lagt fráveitugjald á það af hendi sveitarfélagsins. Þar með væri þessi aðgerð ekki til þess fallin að halda aftur af krónutöluhækkun í dreifbýli.

Eftir umræðu var tillaga meirihlutans samþykkt af kosningabærum fulltrúum. Ég bað um að málið yrði skoðað betur fyrir næsta fund nefndarinnar með það að leiðarljósi að komið yrði í veg fyrir þessa mismunun af hálfu sveitarfélagsins. Í því ljósi að vel var tekið í beiðni mína sá ég ekki ástæðu til að leggja fram bókun um málið. Á næsta fundi nefndarinnar kom í ljós að ekki var vilji til þess hjá meirihlutaflokkunum að leiðrétta ofangreinda mismunun sem áður hafði verið samþykkt, heldur var borin fram sú eftiráskýring að í raun og veru væri bara verið að leiðrétta of háa álagningu fráveitugjaldanna og þar sem íbúar í dreifbýli greiddu ekki slík gjöld væri ekkert hægt að gera fyrir þá. Ekki dettur mér í hug að mótmæla lækkun álagningarinnar, en ég tel að þetta sé mál sem eigi erindi við almenning og er það ástæðan fyrir þessum skrifum mínum.

Ég vil taka það sérstaklega fram að með þessum greinarstúfi er ég ekki að setja út á nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd sem er skipuð aldeilis fyrirmyndar fólki, heldur er það ákvörðunin um mismununina sem greinilega er tekin annarsstaðar en á fundi nefndarinnar sem sætir gagnrýni af minni hálfu.
Staðan hjá mér er sú að fasteignagjöld á mínum bæ hækka í ár um 20.734 kr. sem samsvarar um 7,05 % og við því er ekkert annað að gera en að borga og brosa.

Góðar stundir.
Högni Elfar Gylfason
Varamaður áheyrnarfulltrúa Byggðalistans í Umhverfis- og samgöngunefnd

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir