Árangursrík skólaganga með okkar besta fólki

Leikskólinn er einn af hornsteinum samfélagsins og hefur margbreytilegu hlutverki að gegna. Hann er menntastofnun, þjónustustofnun og fjölmennur vinnustaður. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar er grunnurinn lagður að öllu frekara námi og menntunarhlutverk hans því óumdeilt. Starfshættir, áherslur og markmið hvers skóla eru vel ígrundaðar og grundvallast af lögum, reglugerðum og námskrám sem mynda leiðbeinandi ramma utan um starfið.

Í leikskólum skal velferð og hagur barna vera leiðarljós í öllu starfi og skal þeim búið hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Barn er í kringum átta klukkustundir á dag í leikskóla. Áhrifin sem leikskóli hefur á þroska og líðan barns eru því gríðarleg. Þetta eru mikilvægustu mótunarárin í lífi einstaklings og þarna eigum við að staðsetja okkar besta fólk - fagfólk sem býr yfir þekkingu og reynslu af því að vinna með börnum. Eitt stærsta verkefni sveitarfélaga hlýtur því að vera að fjölga leikskólakennurum og öðrum þroska- og uppeldismenntuðum starfsmönnum og að því ætti Sveitarfélagið Skagafjörður að stefna.

Árangursrík skólaganga hefst í leikskóla og þörf er á nýrri hugsun, nýju verðmætamati þar sem leikskólastigið er metið að verðleikum. Það er mikið áhyggjuefni hversu illa gengur að manna leikskólana. Leikskólakennarar eru metnaðarfullur hópur sem sinnir störfum sínum af alúð en því miður fer starfandi leikskólakennurum stöðugt fækkandi. Í áraraðir hefur mannekla verið viðvarandi vandamál í leikskólum landsins og við sem samfélag höfum horft aðgerðalaus upp á þessa þróun. Álagið er mikið, launin lág og starfsaðstæður oft óviðunandi. Margt starfsfólk gefst því upp og ræður sig annað. Há starfsmannavelta á leikskólum er mikið áhyggjuefni því hún bitnar fyrst og fremst á börnunum sem þurfa festu og öryggi og eiga erfitt með sífelldar mannabreytingar. Há starfsmannavelta hefur einnig neikvæð áhrif á starfsumhverfið því að í stað þess að vinna jafnt og þétt að því að byggja upp starfið fer öll orka starfsmanna í að halda hlutunum gangandi og kenna nýju fólki grundvallaratriði.

„Lítill sveigjanleiki varðandi vinnutíma, aukið álag vegna ónógrar afleysingar, löng viðvera og of mörg börn á deildum.“ Eru dæmi um þætti sem starfsfólk leikskóla setur út á. Starfsfólk er langþreytt á starfsaðstæðum, á manneklu og skorti á leikskólakennurum en á sama tíma stolt yfir því starfi sem fram fer þegar unnið er með börnum. Leikskólinn sem vinnustaður er nefnilega bráðskemmtilegur og starf í leikskóla er fjölbreytt, skemmtilegt og ekki síst gefandi. Í þessu samhengi má benda á að eftir að farið var að gefa út eitt leyfisbréf fyrir kennarastéttina hefur leikskólastigið þurft að keppa við grunnskólastigið um hæfa kennara. Leikskólakennarar hafa ekki fært sig yfir í grunnskólann eða í önnur störf vegna launa, heldur vegna þess að þeir eru að sækjast eftir betra starfsumhverfi og jafnvel vinnutíma.

Vinnuaðstæður eru ólíkar á milli skólastiga og þar hallar verulega á leikskólann. Ef vinnuaðstæður, vinnutími, skólaár og vinnutímaskilgreiningar yrðu færðar í átt að grunnskólanum efa ég ekki að það hefði stórkostleg áhrif. Bæði myndu margir leikskólakennarar snúa til baka og með betri launum og bættu starfsumhverfi myndi þeim fjölga verulega sem vildu sækja sér kennsluréttindi og starfa á leikskólastigi.

Eitt af því sem skiptir einnig höfuðmáli er að við hugum að rýminu sem við ætlum börnum til leiks og starfa. Það segir sig sjálft að auknum fjölda barna á deildum fylgir aukið áreiti. Að mínu mati ætti að fækka börnum inni á deildum og auka þar með leikrýmið og minnka áreitið og hávaðann. Börn dvelja stóran hluta dags í leikskólanum og því er gríðarlega mikilvægt að huga betur að þessum þáttum. Það skiptir miklu máli að vinna að því að gera leikskólana að því umhverfi sem krafist er hjá fyrsta skólastigi. Veita börnum öruggt og skapandi umhverfi, bjóða upp á áhugavert og metnaðarfullt námsumhverfi og bæta starfsumhverfi kennara. Í þessu samhengi myndi ég vilja mæta meiri skilningi hjá sveitarfélaginu á starfsaðstæðum leikskólakennara og úrbætur þeim tengdar.

Það er nauðsynlegt að efla leikskólana innan frá, styrkja kerfið í heild sinni og bæta starfsumhverfi. Einnig þarf að auka sveigjanleika fyrir starfsfólk leikskóla og hlusta betur eftir óskum um sumarfrí og hlutastörf. Jafnframt mætti hafa meira samráð við starfsmenn leikskóla við hönnun og byggingu leikskóladeilda. Þá tel ég mikilvægt að leikskólarnir í sveitarfélaginu séu undir sama hatti og starfsstöðvarnar starfi í takt. Eins mætti hafa í huga að umbuna sérstaklega því starfsfólki sem stendur sig vel. Öflugt leikskólakerfi með háu hlutfalli leikskólakennara, lágri starfsmannaveltu og ánægðu starfsfólki yrði ómetanlegt fyrir skagfirskt samfélag. Þegar upp er staðið er nefnilega vart til skemmtilegra starf!

Pálína Hildur Sigurðardóttir leikskólakennari
skipar 8. sæti ByggðaLista fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir