Kvennafrídagur 24. okt. 2025 | Sigríður Garðarsdóttir skrifar
Í gær, föstudaginn 24. október 2025, voru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.Talið er að um 50 þúsund manns hafi mætt á Austurvöll í gær til að krefjast jafnréttis og það gerðu konur einnig um allt land. Í Miðgarði í Varmahlíð komu konur saman og þar flutti Sigríður Garðars í Miðhúsun erindi sem hún gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta.
- - - - -
Ágætu gestir, ég óska okkur öllum til hamingju með daginn. Ég ætla ekki að tala á fræðilegu nótunum núna – ætlunin er að líta aðeins um öxl.
Það er oft fróðlegt og hollt sjáfinu að líta til baka, skoða það liðna með gleraugum nútímans. Ég stóð í þessum sömu sporum, frammi fyrir hópi kvenna í Miðgarði fyrir 15 árum síðan, hvað sagði ég þá, hvað hugsaði ég þá. Er ég enn sama sinnis og þá. Heimurinn breytist svo hratt að eldri konur hafa ekki undan að meðtaka.
Í dag er stundin - núið - ég ætla samt að huga aðeins að uppvexti mínum.
Ég er alin upp af móður sem var afar sterkur og sjálfstæður persónuleiki. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en áratugum seinna að hún var í rauninni fyrsta rauðsokkan sem ég kynntist.
Hún sinnti sínum daglegu störfum af dugnaði og atorkusemi og var ótrúlega víðsýn kona, en hún fór alltaf sínar eigin leiðir þegar svo bar við og sagði skoðun sína umbúðalaust við hvern sem var ef henni var ofboðið. Hún átti marga vini af öllum stéttum og aldri. Áður en hún giftist pabba var hún búin að kaupa jörð, Neðra- Ás, árið 1942. Þar hóf hún byggingu íbúðarhúss og útihúsa. Keypti Willisjeppa með nágranna sínum, Pétri í Efra-Ási, K-101, og tók bílpróf. Á þessum árum hafði hún mikinn styrk af bróður sínum Kára. Meðan hún var í kennaranámi í Reykjavík vann hún á barnaheimili sem hefur líklega verið eins konar starfsnám, þar voru m.a. munaðarleysingar og börn einstæðra mæðra. Þar tengdist hún litlum dreng sterkum böndum svo að þegar hún heldur norður í land eftir að hafa lokið náminu er hún búin að ákveða að ættleiða drenginn, ein og óstudd, sem og varð. Þegar aldurinn færðist yfir og fæturnir tóku að bila keypti hún sér fjórhjól, hún varð að komast í skógarlundinn til að huga að ungplöntunum og svo í berjamóinn dásamlega. Barnabörnin voru afar stolt af ömmunni sem átti fjórhjól sem hún lánaði þeim stundum – en með skilyrðum.
- - - - -
Kvennafrídagurinn 24. okt 1975 og aðdragandi hans er mér minnistæður. Mikil og ólgandi umræða var í þjóðfélaginu. Fannst hverjum sitt um uppátækið, mótmælendur voru þó aðallega karlar en einnig konur.
Björg Einarsdóttir segir svo í grein í Húsfreyjunni 1986. „Hugmyndin um að konur sameinuðust um að leggja niður vinnu samtímis barst hingað erlendis frá. Hér á landi tók hún breytingum og aðlagaðist aðstæðum. Alkunna er og oft haft á orði að fátt sé jafn óstöðvandi og hugmynd sem kviknar á kjörtíma hjá fólki sem hefur kjark og hin æskilegustu skilyrði til að hrinda henni í framkvæmd“.
Konur tókust hart á um það hvort kalla skyldi atburðinn kvennaverkfall eða eitthvað annað. Valborg Bentsdóttir sagði á stórum fundi þegar samstaðan um að konur leggðu niður vinnu þann 24. október 1975 var um það bil að bresta. „Ef það er orðið verkfall sem þið eruð hræddar við þá skulum við bara kalla verkfallið frí.“
Og það varð; eitt allsherjar ógleymanlegt frí og fréttin af því þegar allflestar konur landins tóku sér frí til að koma saman, er nú 50 árum seinna, stórviðburður.
- - - - -
Helga heitin Kristjánsdóttir á Silfrastöðum var þá formaður Kvenfélagsins. Hún var mikil baráttukona fyrir réttindum kvenna og barðist fyrir því að konur tækju þátt í félagsstörfum. Hún og nokkrar aðrar konur ákváðu að hafa samveru í Héðinsminni og bjóða til fagnaðarins öllum konum í sveitinni. Efasemdarraddir heyrðust meðal karla og sumra kvenna – afhverju þurfa þær frí, ekki fáum við frí – en aðrir töldu þetta sjálfsagt. Ekki man ég hvort einhver eða hvaða tímasetning var á boðinu. Hafði Helga samband við mig og ýtti á mig að koma. Var ég efins, fannst að slík samkoma væri ekki alveg fyrir mig en það var öllum konum boðið svo að ég sló til. Svo sagði maður ógjarnan nei við Helgu á Silfrastöðum.
Við Jónsi bjuggun þá í Tungukoti en vorum með annan fótinn í Miðhúsum, vorum að undirbúa húsbyggingu þar. Þegar dagurinn rennur upp förum við út í Miðhús því ég ætlaði að taka tengdamóður mína með í fjörið. Þá var enn á lífi sómamaðurinn Jón Gíslason, ömmubróðir Jónsa [manns Sigríðar] fæddur 1893. Var hann í rauninni eins konar afi minn en slíkum hafði ég ekki kynnst fyrr því þeir réttu voru dánir er ég komst á legg.
Þegar gamli maðurinn áttar sig á því að ég ætla ekki að taka ungbarnið með mér, en Guðrún Helga dóttir mín var þá tveggja og hálfsmánaðar gömul, sérlega vært og meðfærilegt barn, heldur skilja hana eftir heima hjá þeim körlunum leist honum ekki á blikuna. Að hans áliti voru þeir gjörsamlega ófærir um að líta eftir ungbarni. Hann kallaði mig á eintal fram í þvottahús, ræddi þar áhyggjur sínar af velferð „litlu konunnar“ eins og hann kallaði hana alltaf og reyndi að hafa mig ofan af þessari vitleysu. Honum fannst e.t.v. einhver von um að Jónsi gæti litið eftir barninu stutta stund en Gísli tengdafaðir minn, það var ekki inni í myndinni. Þegar þarna var komið sögu var Gísli orðinn fimm barna faðir. Taldi Gamli Jón að barnið myndi e.t.v. bíða varanlegan skaða af þessu ósköpum.
Ég gerði lítið úr áhyggjum gamla mannsins og við tengdamæðgur kvöddum og fórum í Héðinsminni og þar áttum við góðan dag með konum úr sveitinni og vorum ekkert að flýta okkur heim.
Margt var þar rætt og mikið hlegið. Sumar konurnar voru fylgjendur Rauðsokkanna og urðu seinna Kvennalistakonur, aðrar komu til að eiga skemmtilegan dag með kynsystrum sínum og allt þar á milli. Ekki man ég til þess að nein sérstök dagskrá væri en maður er manns gaman og góðgæti á borðum.
Þegar við komum heim var barnið sælt og rólegt hjá föðurnum en ég tel það víst að Gamli Jón hafi haft á henni vökult auga allan þann dag. Aldrei minntist hann á þetta við mig síðar en hafði alltaf mikið dálæti á litlu konunni. Ég veit að nafni hans hækkaði mjög í áliti hjá gamla manninum fyrir að standa sig í þessari erfiðu stöðu.
- - - - -
Í fundargerðum Kvenfélagsins er ekki minnst einu orði á þessa samkomu. Ef til vill hefur ekki verið samkomulag um að halda hana í nafni Kvenfélagsins eða þá að forsprakkarnir hafa viljað halda þessu tvennu aðskildu, það er fallið í gleymskunnar dá.
Mörg voru málefnin þá sem konur þurftu og urðu að berjast fyrir. Margt hefur breytst til hins betra en erum við komnar á sléttan sjó?
Hvernig er umræðan í dag, hvað blasir við ungu stúlkunum okkar, barnabörnunum okkar, barnabarnabörnunum? Baráttumálin eru enn til staðar, bara af öðrum toga.
Fyrirmyndir ungra stúlkna og ungra drengja í dag virðast stundum vera undarleg myndbönd á Tik Tok. Þú átt að nota þessa hluti á þennan hátt og vera svona og hinsegin til að vera tæk/ur í hópinn, annars ertu „púkó“ eða hvaða önnur orð eru notuð í dag til að lýsa útskúfun.
Ungar konur í dag eru vel menntaðar, duglegar og klárar en eigi að síður finnst sumum það ekki nóg. Hvernig og hvenær er nóg – nóg?
Hvað getum við sagt við ungu stúlkurnar, konurnar okkar, hvernig getum við styrkt þær og metið að verðleikum?
Við erum komnar svo miklu, miklu lengra en 1975. Að ekki sé minnst á stóra daginn 14. júní 1915 þegar íslenskar konur 40 ára og eldri fengu langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Amma mín Soffía, framsóknarkonan sjálf, sagði mér ekki að kjósa Framsóknarflokkinn. Hún sagði við mig að ég ætti að muna það að nýta ávallt kosningaréttinn mínn, hann var gömlu konunni svo mikilvægur.
Þökkum formæðrum okkar baráttuna sem þær háðu fyrir okkar hönd en tökum ekki stöðu okkar í dag sem sjálfsögðum hlut. Gleðjumst yfir því sem við höfum en munum að það að gefa slaka er undanhald.
Og stelpur, munið, aldrei að þegja þegar ykkur finnst þið hafa eitthvað til málanna að leggja.
Takk fyrir.
Sigríður Garðarsdóttir
