Áskorendapenninn/Benedikt Blöndal Lárusson/Af margs konar menningu

Benedikt Blöndal Lárusson. Aðsend mynd
Benedikt Blöndal Lárusson. Aðsend mynd

Svo er kominn allt í einu 17. júní og það rignir ekki, að vísu var þoka í gærkvöldi og úði, fyrir gróðurinn og þá sem eru með astma eins og ég. Hátíðarhöldin voru hér á Blönduósi með sama sniði og í fyrra, hitteðfyrra og jafnvel lengra aftur, stutt og hefðbundin. Nú var 75 ára afmæli lýðveldisins og það hefði verið vel við hæfi að gefa svolítið í, en sami háttur var hafður á og 1. desember í fyrra á afmæli fullveldisins, sem sagt ekkert á héraðsvísu.

Auðvitað eru menningarnefndir í Austur- Húnavatnssýslu en þær eru ásamt með öðrum málefnum og það eru þau, sem skipta meira máli. Það væri þægilegt fyrir marga, ef ráðinn yrði viðburðarstjóri á vegum sveitarfélaganna. Til hans gætu allir leitað ef skipuleggja þyrfti og aðstoða við viðburði af einhverjum toga og ekki væri verra ef honum dytti eitthvað sjálfum í hug. Menningarmálanefnd Blönduósbæjar virðist hafa haft það eina verkefni nú og undanfarin ár, að ráða einhvern til að setja upp dagskrá fyrir Húnavöku, sem síðan 2006, er orðin bæjarhátíð Blönduóss, en mörgum öðrum sýslubúum finnst sér lítið koma það við. Það á eftir að koma í ljós hvernig tekst til nú þetta árið, en nokkur undanfarin ár hafa sett saman dagskrá, ágæt systkin af góðum ættum m.a. úr Vatnsdalnum, Grímstungukyni og tekist vel.

Nú um helgina voru Smábæjarleikarnir í fótbolta hér á íþróttavellinum. Mörg lið mættu og allt fór vel fram, þökk sé UMF. Hvöt og öllum öðrum sjálfboðaliðum sem eiga heiður skilið. Ég hef fylgst með þessum leikum í mörg ár, mínir krakkar voru í fótboltanum og nú barnabörnin, tveir afastrákar og báðir í sama liði, sem var miklu þægilegra fyrir mig. Báðir stóðu sig eins og hetjur. Fótboltaleik fylgir feikna dramatík og leiklist. Ef einhver meiðir sig, þarf að gera sem allra mest úr því. Sárþjáðir á svip hníga menn til jarðar af minnsta tilefni og jafnvel þótt enginn meiðist engjast sumir sundur og saman ef komið er við þá. Þegar dómarinn hefur flautað og dæmt eitthvað, er staðið á fætur og spretturinn tekinn. Þessar lýsingar eiga ekki við á Smábæjarleikunum þar sem yngra fólk spilar, þar er annað upp á teningnum. Ég sá einu sinni á leikunum, að einn snáði rakst illa á annan sem datt og fór að gráta. Leikurinn var stöðvaður og leikmaðurinn borinn út af. Ekki voru nægilega margir varamenn, svo hann þurfti fljótlega að fara inná aftur. En þar sem hann hafði ekki jafnað sig nóg, fór hann organdi inn á völlinn og hélt áfram leik. Þetta var harka og góður íþróttaandi. Ég minntist á leiklist í fótboltanum. Í Húnaþingi vestra er alvöru leiklist, settar upp metnaðarfullar sýningar og það svo að þau voru með athyglisverðustu sýningu áhugaleikfélaga á landinu og því var þeim boðið í Þjóðleikhúsið og sýndu tvær sýningar við fínar undirtektir. Glæsilega gert – til hamingju.

Ég tek undir það sem Nöldri skrifar í pistlinum á Húnahorninu þann 15. júní hversu lítið var fjallað um Prjónagleðina sem var hér um hvítasunnuna. Þarna kom fólk, um 80 manns, víða af landinu og frá útlöndum. Þarna voru sýningar, námskeið, fyrirlestrar o.m.fl. Þetta er magnað fyrirbæri drifið áfram af Jóhönnu á Akri, sem hlaut í dag 17. júní riddarakross, fyrir störf í þágu safna og menningar í heimabyggð. Hjartanlega til hamingju kæra Jóhanna.

Að greinast með krabbamein er dauðans alvara. Sem betur fer lifa fjölmargir góðu lífi, sem fengið hafa meinið og farið í meðferð, geisla og eða lyfjagjafir, en alltof margir lifa ekki af. Fyrir sjúklinga og aðstandendur er þetta mikið álag, andlega og líkamlega hvort sem gengur vel eða illa. Konan mín hún Svala greindist með krabbamein 2015, fór í aðgerð, geislameðferð og lyfjagjöf en greindist aftur fyrir ári, þá voru gerðar tvær aðgerðir. Þá tóku við lyfjagjafir á tveggja til þriggja vikna bili á Akureyri í átta mánuði og nú er meinið horfið, segir læknirinn. Ég hef séð t.d. á Facebook að fólk er hvatt til að gerast Ljósavinir. Á síðunni var reitur sem maður gat valið hve mikið maður vildi borga í félagið. Félagið Ljósið er ekki með starfsemi á Norðurlandi vestra svo ég viti til, svo langt er að sækja í það. Aðstoðin er eflaust mjög góð. En við eigum stóra fjölskyldu, vini, frændfólk, börn, tengdabörn og barnabörn.    – Þau eru okkar ljós.-

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir