Áskorun að læra eitthvað nýtt - Nýliðar í golfi - Helgi Freyr Margeirsson

Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og mun Feykir birta viðtöl í næstu blöðum. Helgi Freyr Margeirsson ríður á vaðið en hann er þekktur úr körfunni fyrir að raða niður þristum. Því biðu kylfingar spenntir eftir að sjá hvort framhald yrði á þristaröðinni. Helgi hlær að þessu en útilokar ekki að þristunum fjölgi en hann segist hafa spilað töluvert í sumar.

Hvernig var svo að ganga í GSS?
„Þetta var nánast náttúrulegt skref fyrir mig því ég hef gaman að því að skora á sjálfan mig og læra eitthvað nýtt. Ekki skemmdi fyrir að þetta getur verið mikið fjölskyldusport og hvetur til útiveru sem er öllum holl.“

Var eitthvað sem kom á óvart?
„Já, hvað mér finnst golfið raunverulega skemmtilegt þó að mér gangi stundum bölvanlega, en maður verður að horfa til þess jákvæða og það eru alltaf einhver högg inn á milli sem bæta upp fyrir allt það sem var ómögulegt,“ segir Helgi brosandi og bætir við: „Ég hefði viljað vera búinn að fara af stað fyrr, allavega að sækja námskeið til að vera aðeins kominn af stað. En þetta er frábært fjölskyldusport. Annað er að við hér í Skagafirði eigum alveg ótrúlega flottan völl sem er öfundsverður og ekki skemmir fyrir að maður getur skotist upp á völl og tekið tvær, þrjár, holur í hádegishléinu á góðviðrisdegi, það er nánast ómögulegt á öðrum völlum.“  Hvað stendur svo upp úr í golfinu eftir sumarið?

„Öll góðu höggin í sumar sem á einhvern ótrúlegan hátt fara nákvæmlega eins og maður hafði hugsað sér að þau ættu að gera, eða þannig. Annars var líka mjög gaman að vinna núverandi og vonandi áframhaldandi formann GSS í litlu móti í sumar, gegn öllum líkum, ætli það sé ekki hápunkturinn“ segir Helgi Freyr glottandi í lokin.

@Kristján Bjarni Halldórsson

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir