Breytingar í samræmi við óskir landbúnaðarins

Einar K Guðfinnsson

Matvælafrumvarpið svo kallaða er mikið rætt og það að vonum. Eðlilega eru um það skiptar skoðanir. Það var fyrst flutt haustið 2007 af minni hálf og endurflutt nú fyrir áramótin, með talsverðum breytingum sem tóku fyrst og síðast mið af þeirri gagnrýni sem bændur höfðu sett fram. Ég fullyrði að þær breytingar koma mjög til móts við athugasemdir bænda og raunar er hægt að sýna fram á að í ýmsum liðum var jafnvel gengið lengra en farið var fram á til þess að verja stöðu landbúnaðarins.

 

Það þarf ekki að koma á óvart. Frá fyrsta degi lýsti ég þeim vilja mínum að gera lögin þannig úr garði að landbúnaðurinn gæti við unað. Tel ég að ekkert sé í vegi fyrir því að leita enn frekari leiða í þeim efnum og er sannarlega reiðubúinn til að leggja allri slíkri viðleitni lið.

Margt þarf að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd og til þess að átta sig á þessu flókna og umrædda máli þarf að gera sér grein fyrir forsögunni.

Fárra kosta völ
Forveri minn í stóli landbúnaðarráðherra sem seint verður sakaður um að vilja ekki bændum allt hið besta stóð í rauninni frammi fyrir því að eiga ekki annan kost en að vinna að undirbúningi þess máls. Þegar ég kom í landbúnaðarráðuneytið hafði undirbúningur þess staðið árum saman. Einfaldlega vegna þess að allir þeir sem að málinu komu sáu að engir aðrir kostir væru fyrir hendi, en að taka upp þessa löggjöf.

Ég leit því á það sem mitt hlutverk að búa frumvarpið þannig úr garði að það ógnaði ekki afkomu bænda né tilvist landbúnaðarins. Þar skipti mestu að við reyndum að reisa allar þær girðingar sem við gætum og standa vörð um að við  tollvernd sem við hefðum  yrði ekki hróflað. Á það var mjög þrýst að lækka tolla á innfluttum landbúnaðarvörum; einkum hvíta kjötinu. Ég lagðist eindregið gegn öllum slíkum áformum.

Þess var óskað af hálfu landbúnaðarins og fleiri aðila að málið yrði ekki afgreitt vorið 2008. Á það féllst ég og þar með gafst okkur kostur á að fara betur yfir málin – og alltaf með það eitt í huga að treysta sem allra best varnirnar fyrir landbúnaðinn. Það frumvarp sem nú liggur fyrir er afrakstur þeirrar vinnu.

Mjög mikið tillit tekið til athugasemda landbúnaðarins
Í viðtali við Harald Benediktsson formann Bændasamtakanna  í síðasta Bændablaði segir hann einmitt að ljóst sé að tekið hafi verið tillit til mjög margra þeirra athugasemda sem Bændasamtökin settu fram  í umsögn sinni um frumvarpið, en aðrar standi út af.

Orðrétt segir formaður Bændasamtakanna: „Þó enn standi nokkur ágreiningsefni eftir teljum við að með tillögum sem undirbúnar voru í fyrri umsögn um fyrirkomulag innflutnings á hráu kjöti, með tilstyrk 13. greinar EES-samningsins, megi sníða frumvarpið að því að þolanlegt verði. Það ætti ekkert að vera því tilfyrirstöðu að Alþingi ljúki málinu á yfirstandandi þingi.“

 

Með skírskotun til þessa er það mín skoðun að það sé  alveg ljóst að á þeim grundvelli sé hægt að ná breiðri sátt um þetta mál og tryggja hagsmuni bænda og landbúnaðarins. Það væri vitaskuld mikið fagnaðarefni og er til marks að sú samráðsleið sem ég kaus við meðferð þessa máls sé að skila tilskyldum árangri.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir