Best eru jólalögin sungin af börnum – þau kalla fram allt það besta í okkur / PÁLÍNA FANNEY

Jóla Tón-lystinni að þessu sinni svarar Pálína Fanney Skúladóttir frá Laugarbakka en hún starfar sem organisti og kórstjóri. Pálína er fædd á Fljótsdalshéraði viku áður en Bítlarnir hófu upptökur á plötu sinni, Help.

Spurð út í tengsl við Norðurland vestra segir hún: „Ég á engar ættir að rekja hingað í Húnavatnssýslur né í Skagafjörð. Hef samt búið eitt ár í Varmahlíð ´90 - ´91 og þykir síðan mjög vænt um Skagafjörð og finn alltaf fyrir notalegri tengingu þangað. Ég hef búið 16 ár í Húnaþingi vestra og ekki laust við að ég sé orðinn þó nokkur Húnvetningur þó ræturnar séu fyrir austan.“ Aðalhljóðfæri Pálínu er kirkjuorgel en hún spilar líka á píanó og lærði söng, kórstjórn og fleira sem snýr að kirkjutónlistarnámi.

Helstu tónlistarafrek: Úff, þetta er frekar erfitt og stórt orð. Ég hef starfað meira og minna sem organisti síðan ég var um tvítugt og einnig í alls konar kennslu tengdri tónlist. Ég held að við organistar séum oft annað hvort meiri orgelleikarar eða kórstjórar – ég nýt þess að vera kórstjóri. Kór er eins og hljóðfæri sem þú getur leikið á. Það er ekki leiðinlegt að spila á lifandi hljóðfæri. Mín tónlistarafrek liggja í kórastarfinu. Ég er mjög stolt af því að hafa kór sem heldur tónleika og fer í ferðalög og er tilbúinn að syngja allt sem ég rétti þeim. Það er ekki nóg að hafa tónlistarþekkingu til að stjórna kór, þú þarft að hafa mikla hæfileika í mannlegum samskiptum til að samhljómurinn verði góður og „hljóðfærið“ njóti sín.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Miserere Mei Deus eftir Gregorio Allegri – King´s College Choir

Uppáhalds tónlistartímabil? Renesans tímabilið sem er tímabilið á undan barrokk tímabilinu. En samt erfitt að gera uppá milli Renesanstónlistar og barrokktónlistar. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Kórtónlist og raddaður söngur fær mig alltaf til að sperra eyrun.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þinu heimili? Bara allt sem var í útvarpinu. Það var ekki plötuspilari heima. Óskalög sjúklinga og Óskalög sjómanna eru minnisstæðir þættir og lög unga fólksins. Ég var eitthvað um 12 ára þegar ég sat um að hlusta á kirkjutónlistarþátt sem var á sunnudagsmorgnum í útvarpinu milli 9:00 og 10:00 – kannski er hann ennþá í gangi. Þetta voru frábærir þættir og þarna kynntist ég einmitt góðri kórtónlist, mjög oft voru spilaðar t.d. Bach kantötur. Bach er auðvitað efst á toppnum, alltaf!

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég hreinlega man það ekki, það voru einhverjar klassískar plötur. Man t.d. eftir dásamlegri plötu með Tapiola barnakórnum fræga frá Finnlandi. Kórinn var með tónleika í Langholtskirkju og ég keypti plötuna þar og spilaði hana endalaust. Því miður á ég þessa plötu ekki í dag.

Hvaða græjur varstu þá með? Plötuspilra en þá er ég líka orðin 18 ára

Hvaða tónlist hlustar þú helst á í jólaundirbúningnum? Ég á fullt af jóladiskum, einn sá elsti er jóladiskur með Mahalia Jackson. Hann er í 1. sæti. Eddukórinn og Þrjú á palli koma með dásamlega þjóðlegan anda, Borgardætur og KK og Ellen fá líka að hljóma, sérstaklega þegar ég er að þrífa eða baka eða í öðru jólastússi. Annars eru fallegir kórdiskar með jólalögum hátt skrifaðir hjá mér. Svo er gaman að finna nýtt efni á netinu, oftast verður kórtónlist þar fyrir valinu.

Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegr þú varst nýkomin með bílpróf? Ég hoppaði eiginlega yfir þetta tímabil að vera unglingur... en ég man samt eftir að hafa verið að hlusta á Bee Gees og Meat Loaf en það var samt líklega áður en ég fékk bílpróf. Núna á ég það alveg til að stilla hátt í bílnum, stundum er það Queen eða Mótettukórinn og ýmislegt þar á milli.

Hvert var uppáhalds jólalag unglingsáranna? Mary´s Boy Child og fleiri Boney M lög.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það er ekkert utanaðkomandi sem getur eyðilagt fyrir mér daginn J

Hvenær má byrja að spila jólalögin? Mér finnst að útvarpsstöðvarnar ættu að miða við 1. sunnudag í aðventu, spila eitt og eitt lag en spara hátíðlegustu lögin til jólanna eða a.m.k. eiga eitthvað eftir þegar jólin eru rétt að koma. Mér finnst t.d. ekki passa að auglýsa jólahlaðborð í september og láta hljóma undir auglýsingunni Ó, helga nótt.

Uppáhalds jólalagið? Hátíð fer að höndum ein!

Hvert er fyrsta jólalagið sem þú manst eftir að hafa heyrt? Það gæti verið Bráðum koma blessuð jólin, ég lærði það a.m.k. mjög snemma. Fyrsti sálmurinn sem ég lærði var örugglega Í Betlehem er barn oss fætt.

Hvernig eru jólalögin best? Sungin af börnum – þau kalla fram allt það besta í okkur.

Þú vaknar í rólegheitum á jóladagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég vil vera í ÞÖGN. Búin að spila við þrjár messur kvöldið áður og er í leið í tvær þennan dag – stundum er þögnin besta tónlistin.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mig hefur alltaf dreymt um að fara til London og vera í nokkra daga og velja um alls konar kirkjutónleika í öllum þessum stóru flottu kirkjum.  Ég hef ekki hugmynd um hver mundi nenna að koma með mér í svona ferð.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég hef bara aldrei velt þessari spurningu fyrir mér...að dreyma um að vera einhver önnur…held ég sé of sátt við sjálfa mig eins og ég er J

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er ekki til nein besta plata, en bestu plöturnar verða til þegar listamenn ná að skapa frá hjartanu og snerta þannig við hjörtu þeirra sem hlusta. Þá verða til töfrar og listaverkið fær að blómstra. Þetta á við alla listsköpun.

Hvenær eru jólin komin? 24. 12 kl. 18:00 – það er svo okkar að taka á móti þeim með gleði og opnu hjarta.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Ok, skal gera mitt besta, þetta er blanda af jógatónlist, klassískri tónlist og alls konar...
Carry Me: Peter Kater /Snatam Kaur
On Your Shore / Enya
Skrifaður diskur (ekki enn kominn út) / Ásgeir Trausti
Follow the Sun / Xavier Rudd.
Come let go / Xavier Rudd
Delicate / Damien Rice
Jesus Christ the Apple Tree / Choir af King´s College, Cambridge
Great Spirit og fleiri lög / Nahko
I am the light of my soul / Sirgun Kaur/Sat Darshan Singh
När det lider mot jul / Solvieg Ågrens kammakör

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir