ByggðaListinn - Agnar H. Gunnarsson skrifar

Það vorar. Það er eitthvað unaðslegt við vorið, vorið er tími draumanna, þegar mannfólkið og öll náttúran vaknar til nýrra daga, nýrra möguleika. Nú er meira að segja kosningavor, sem er möguleikavor, möguleika til að breyta og gera eitthvað nýtt. Við hér í nýju sveitarfélagi í Skagafirði, þessu yndislega héraði okkar, kjósum í fyrsta skipti öll í sama sveitarfélagi og þá er um að gera að vanda sig.

ByggðaListinn er listi sem ekki er raðað á eftir flokkslínum, heldur er á honum fólk á öllu hinu pólitíska litrófi. Stefna ByggðaListans er að gera gott hérað enn betra. Sumt hefur verið vel gert og fyrir það ber að þakka, en alltaf má gera betur.

ByggðaListinn vill sýna aðgætni í framkvæmdum sveitarfélagsins. Undanfarin kjörtímabil reistu menn sér hurðarás um öxl og framkvæmdir fóru langt fram yfir það sem tekjur leyfðu. ByggðaListinn vill stöðva varasama skuldasöfnun og hefjast handa við að lækka skuldir. Héraðið býr yfir möguleikum til að tryggja byggð og fjárhagslegan grundvöll.

Hlúa þarf að ferðaþjónustu en þar eru margir möguleikar vannýttir. Hvetja þarf fólk til að stunda lífrænan búskap en þeim fer æ fjölgandi sem kjósa þann lífsstíl. Þar eru miklir framtíðarmöguleikar með nýjum áherslum í umhverfismálum.

Nú á sauðfjárbúskapur undir högg að sækja og er eins og fólk geri sér almennt ekki ljóst að hann er helsta trygging landsmanna fyrir fæðuöryggi. Þar geta og eiga sveitarfélög að taka frumkvæði. Á vettvangi Samtaka sveitarfélaga eiga sveitarfélög að leggjast á árar með sauðfjárbændum til að tryggja búsetu sem víðast á landinu.

ByggðaListinn vill hlúa að menningu, söng kóra, leiklist og því öðru sem auðgar mannlífið og gerir héraðið byggilegra öllum. Grundvöllur fyrir gróandi mannlífi eru góðir leikskólar og grunnskólar. Undanfarin ár hafa risið myndarlegar byggingar fyrir börnin, t.d á Hofsósi og á Sauðárkróki, og er það vel, og nú er tímabært, - og þótt fyrr hefði verið - að hefjast handa við að leysa leikskólamál í Varmahlíð.

ByggðaListinn tekur undir tillögur Vegagerðarinnar um nauðsyn jarðganga undir Öxnadalsheiði. Með þeirri framkvæmd verður öryggi okkar allra á ferðalögum tryggt, en sérlega þeirra, sem sækja þurfa læknisþjónustu og meðferðir til Akureyrar að ekki sé minnst á fæðandi konur. Þegar jarðgöng hafa bæst við vegakerfið þar sem Skagafjörður er snjóléttastur, verður tryggt að nánast alltaf megi komast til Akureyrar.

Áhersla á samskonar Tröllaskagagöng er óraunhæf og verður ekki til annars en að seinka því að raunhæfur möguleiki opnist með jarðgöngum um Öxnadalsheiði. Tröllaskagagöng yrðu alltof löng og vegur bæði að þeim og frá þeim á þjóðvegi um snjóþung svæði og m.a. þess vegna yrðu þau margfalt dýrari en göng undir Öxnadalsheiði.

ByggðaListinn er tilbúinn í meirihlutasamstarf. Þar ráða málefni, en listinn er að öðru leyti óbundinn.

Um leið og ég óska öllum Skagfirðingum, hvar á lista sem þeir standa, gleðilegs sumars, hvet ég fólk til að nýta kosningaréttinn, því að það tryggir að lýðræðið lifi.

Nú er einmitt ástæða til að hvetja fólk til að fagna lýðræðinu.

Agnar á Miklabæ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir