Dreifing Skagfirðingabókar dregst fram á haustið

Skagfirðingabók ársins 2020 kom úr prentun í byrjun apríl sl. en vegna ástandsins í þjóðfélaginu var ákveðið að dreifa henni ekki fyrr en í haust, væntanlega í byrjun september, enda kemur ekki önnur bók frá félaginu á þessu ári. Ritstjórn bókarinnar biður áskrifendur og velunnara bókarinnar að hafa biðlund og afsaka þessa töf sem til er orðin vegna óviðráðanlegra orsaka. Í 10. tbl. Feykis var viðtal við Hjalta Pálsson, ritstjóra Skagfirðingabókar þar sem hann sagði frá þessari tímamótaútgáfu en bókin mun vera sú 40. í röðinni.

Sögufélag Skagfirðinga með tímamótaútgáfu

Fertugasta Skagfirðingabók á leið í prent

Í næsta mánuði mun 40. hefti Skagfirðingabókar væntanlega líta dagsins ljós en útgáfa hennar hófst árið 1966. Í upphafi voru það þrír hugsjónamenn úr Skagafirði sem komu útgáfunni af stað, Kristmundur, Bjarnason, Sigurjón Björnsson og Hannes Pétursson sem síðar eftirlétu Sögufélagi Skagfirðinga þann kaleik að gefa út fjölbreyttan sögulegan fróðleik úr Skagafirði. Eðlilega hafa fallið úr nokkur ár en sem betur fer er enn verið að hjakka í þessu, eins og Hjalti Pálsson, einn ritstjórnarmanna, orðar það. Með honum í ritnefnd eru Sigurjón Páll Ísaksson og Sölvi Sveinsson.

Hjalti Pálsson og Óli Arnar Brynjarsson, uppsetjari, leggja lokahönd á 40. Skagfirðingabók. Mynd: PF.Alls eru tíu greinar í bókinni að þessu sinni en hefð er fyrir því að vera með eitt aðalefni í hverju riti, gjarna grein um þekktan Skagfirðing, og að þessu sinni fær Guðjón Ingimundarson þann heiður. „Guðjón var þekktur maður hér á Sauðárkróki, Strandamaður sem fluttist norður í Skagafjörð og gerði góða hluti í íþróttamálum og gjörbreytti öllu íþróttastarfi. Hann var einnig mikið í félagsmálum,“ segir Hjalti aðspurður um efni bókarinnar.

Af öðru efni segir Hjalti ritið vera sérstakt að því leyti að í því eru tvær afmælisgreinar, ef hægt er að segja svo og kannski um frægustu listamenn sem Skagfirðingar hafa átt eða telja sig eiga. Annar þeirra er Albert Thorvaldsen, sem var af skagfirsku faðerni, hugsanlega fæddur í Skagafirði segir Hjalti og bætir við að það sé þó ekki vitað með vissu. „Fæðing hans er a.m.k. ekki skráð í kirkjubækur Kaupmannahafnar sem eru til frá þessum tíma. Albert er fæddur í nóvember 1770 þannig að hann á 250 ára afmæli á þessu ári. Það er náttúrulega búið að skrifa heilmikið um hann og hans list en það sem kemur algjörlega nýtt og í opna skjöldu í þessari grein er að árið 1972 var kaupmaður í Reykjavík, áhugamaður um myntsöfnun, sem tengdist Skagafirði óbeinlínis þannig að hann átti dóttur sem var gift Andra Ísakssyni frá Ingveldarstöðum í Hjaltadal, sonur Ísaks þess sem Ísaksskóli er kenndur við. Andri er dáinn fyrir alllöngu síðan en bróðir hans, Sigurjón Ísaksson, skrifaði greinina.

Sigurjón Sigurðsson kaupmaður lét slá peninga í minningu Alberts Thorvaldsen og átti að miða við árið 1970 þegar 200 ár voru frá fæðingardegi hans en peningarnir komu ekki út fyrr en 1972. Hann lét slá 300 koparpeninga, 100 silfurpeninga og tvo gullpeninga. Síðan gaf hann Sögufélagi Skagfirðinga eitt sett af þessum peningum, einn gullpening, annan af tveimur, einn silfur- og tvo bronspeninga. Það eru myndir af þessum peningum í greininni en þeir eru geymdir í bankahólfi hér á Sauðárkróki. Engir smá hlunkar, t.d. er þyngdin á gullpeningnum 635 grömm. Það er gott betur en hálft kíló af hreinu gulli og bara tveir slíkir peningar til í heiminum,“ segir Hjalti. Hinn gullpeningurinn er geymdur í myntsafni Seðlabanka Íslands.

„Peningarnir eru slegnir í myntsláttu í Frakklandi og bara gullið sjálft er milljóna virði og aðeins tveir gullpeningar til af þessari stærð í minningu Alberts Thorvaldsen. Það væri fróðlegt að láta meta þá til verðs ef hægt væri.“

Albert, eða Bertel, Thorvaldsen var þekktasti myndhöggvari Norðurlanda á 19. öldinni, átti danska móður, Karen Degnes, en íslenskan föður, Gottskálk Þorvaldsson, ættaðan frá Miklabæ í Skagafirði þar sem faðir hans var prestur. Thorvaldsensafnið í Kaupmannahöfn er byggt utan um verk Alberts. En hann gleymdi ekki uppruna sínum og sendi til Íslands skírnarfont með áletrun: „Til föðurlands míns Íslands“ „Það segir ekki nákvæmlega hvert fonturinn átti að fara en Skagfirðingar töldu að hann ætti að fara til Miklabæjarkirkju vegna þess að afi hans var prestur þar. En hann fór svo aldrei lengra en til Reykjavíkur. Biskup taldi að fonturinn ætti að fara í Dómkirkjuna og þar er hann og kannski ágætt með tilliti til þess að Miklabæjarkirkja brann síðar til ösku árið 1973,“ útskýrir Hjalti.

Hafði ekki vald á þrívíddinni
Hinn listamaðurinn sem sem skrifað er um, í Skagfirðingabókinni góðu, á 200 ára afmæli, fæddist að Fjalli í Sléttuhlíð árið 1820 og hét Sölvi Helgason. Hjalti telur að hann sé jafnvel frægasti Slétthlíðingur fyrr og síðar. „Fjall er nú löngu komið í eyði. Foreldrar hans fluttu seinna með hann í Keldur en þar missti hann föður sinn. Sölvi fór snemma á flæking, kominn til vandalausra fyrir fermingu og lífshlaup hans varð afar sérkennilegt. Það er eins með hann og Thorvaldsen að margt hefur verið skrifað um hann en þarna kemur ýmislegt fram sem ekki hefur áður verið sagt frá,“ útskýrir Hjalti og á þar við forvitnilegar sögur og kafla sem sýna stílfæri Sölva, m.a. um viðskipti hans við sveitunga og mjög harkalegar umsagnir um fólk, illvilja þess og heimsku. „Hann talar einnig um ógnarstóran skáp eða bókhlöðu sem eigi að byggja utan um öll hans listaverk, söfn, bækur og handrit.

Þetta er afskaplega ruglingslegur texti og Sölvi karlinn hefur verið á undarlegu geðrófi þegar hann var að semja þetta, sundurlaust mjög. Þessi kafli um „bókaskápinn“ er birtur stafrétt, nákvæmlega eins og Sölvi skrifaði. Menn geta þá velt því fyrir sér hvernig hann hafi talað en hann skrifar miklu nær framburði heldur en við gerum núna. Hann segir t.d. „honumm „með tveimur m-um en ekki „honum“. „Ekki“ ritar hann „ekkji“ og mörg orð önnur eru sérkennilega stafsett. Sölvi var svo sem ekki heill á geði en það var í honum mikið listamannseðli.“

„Svo er annað í þessu,“ heldur Hjalti áfram. „Þekktasta myndin sem til af Sölva er varðveitt í Davíðshúsi á Akureyri. Að mínum dómi hefur Sölvi ekki getað teiknað þá mynd vegna þess að hann hafði ekki vald á því að teikna þrívídd og þessi mynd sker sig mjög frá öðrum mannamyndum hans. Þótt hann væri meistari blómaflúrsins eru allar andlitsmyndir hans viðvaningslega teiknaðar eins og krakki hafi gert. Hann hefur ekki gert þessa mynd, það er einhver annar,“ segir Hjalti og bendir á annan mikinn listamann, Sigurð Guðmundsson málara, sem kemur þarna við sögu.

„Þegar Sigurður er um eða innan við fermingu kemur Sölvi á heimilið þar sem foreldrar hans búa, og dvelst þar um tíma, og strákurinn teiknar af honum mynd. Sölvi náttúrlega fussar yfir því að strákhvolpur sé að teikna mynd af slíkum snillingi og spekingi sem honum. Svo er ekki meira með það en þegar Sölvi fer nokkrum dögum seinna þá kallar hann strákinn til sín, sem verður hræddur og heldur að hann ætli að lúskra á sér fyrir ósvífnina. En þá var erindið að biðja hann að gefa sér myndina, sem hann gerði.

Þessa sögn hef ég frá Árna Árnasyni frá Kálfsstöðum en Una amma hans sagði honum. Una þessi var systurdóttir Sigurðar málara svo þetta er fjölskyldusögn. Maður veit svo sem ekki hvað Sigurður gat gert þegar hann var 13–14 ára gamall, hvort hann hefur raunverulega teiknað þessa andlitsmynd Sölva en Sölvi síðan teiknað blómaskreytingar inn á hana. Þetta er eina andlitsmyndin kennd Sölva sem gerð er með þessum hætti en Sölvi hafði ekki þessa tækni á valdi sínu,“ fullyrðir Hjalti og sannfærir blaðamann algjörlega að sú tilgáta sé rétt.

Eins og sjá má af framansögðu er fullt tilefni til að hlakka til útgáfudags nýjustu Skagfirðingabókar sem áætlað er að komi út um miðjan apríl. Þeir sem vilja gerast áskrifendur að bókinni geta haft samband í síma 4536261 eða með því að senda tölvuskeyti í netfangið: saga@skagafjordur.is.
Feykir hvetur alla til að gerst áskrifendur en þeir eru grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að halda þessari starfsemi úti.

 

Sölvi Helgason eða Sólon Íslandus

Helgur maður eða flækingshundur?

Sölvi Helgason var flakkari, listamaður og heimspekingur á Íslandi á 19. öld. Hann missti foreldra sína ungur, var vistaður á mörgum bæjum og fór svo að flakka um landið og var dæmdur nokkrum sinnum fyrir flakk, fölsun á reisupassa eða vegabréfi og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og var í þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Til eru yfir hundrað myndir eftir Sölva og þó nokkuð af handritum.

Eins og fram kemur í viðtalinu við Hjalta hefur margt verið ritað um ævi Sölva Helgasonar og Þá er hið þekkta dægurlag Magnúsar Eiríkssonar um Sölva sígilt. Í einu erindinu spyr skáldið:

Varstu helgur maður
eða latur flækingshundur?
Varstu sendur til að vekja nýja von?
Hvað var það minn kæri
sem þú vildir okkur segja,
þú frægi, skrýtni Sölvi Helgason?

Á Wikipedia má finna eftirfarandi um Sölva en heimildirnar eru að mestu fengnar úr ævisögu um hann sem rithöfundurinn Jón Óskar gaf út 1984: Sölvi Helgason (listamaður á hrakningi). Davíð Stefánsson, frá Fagraskógi, skrifaði einnig þekkta sögu um Sólon Íslandus sem fjallar um ævi Sölva Helgasonar:

Sölvi Helgason fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð við austanverðan Skagafjörð 16. ágúst árið 1820. Daginn eftir var hann fluttur til skírnar að næsta kirkjustað, Felli. Foreldrar Sölva voru Helgi Guðmundsson og Ingiríður Gísladóttir, ungir fátækir bændur sem fluttu oft á milli bæja. Þau áttu fyrir eina dóttur, Guðrúnu.

Þegar Sölvi var fjögurra ára missti hann föður sinn. Hann bjó ekki hjá móður sinni frá sex ára aldri heldur var vistaður á hinum og þessum bænum á svæðinu. Móðir hans dó svo þegar Sölvi var fjórtán ára.

Munnmælasögur segja Sölva snemma hafa verið ófyrirleitinn og óþægan en sýnt nokkur merki um gáfur. Einnig eru til sögur um að hann hafi hlotið illa meðferð sem barn og nokkuð harkalegt uppeldi.

Björn Þórðarson hreppstjóri á Ystahóli lét ferma Sölva 16 ára gamlan. 18 ára er hann síðan sendur að Möðruvöllum í Hörgárdal til Bjarna Thorarensen skálds og amtmanns. Þar er hann í það minnsta í eitt ár áður en hann fer austur í Þingeyjar- og Múlasýslur. Þaðan fór hann svo að flakka um landið.

20 vandarhögg fyrir flakk
Í október árið 1843 var Sölvi tekinn fastur í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Reglur um vistarskyldu voru í gildi og því mátti ekki ferðast um nema með leyfi frá sýslumanni; reisupassa eða vegabréf. Vegabréfið sem Sölvi var með þótti nokkuð torkennilegt þar sem í því var upptalning á ótrúlegum mannkostum Sölva, auk þess sem nafn sýslumannsins, sem skrifaði undir, var vitlaust skrifað. Sölvi viðurkenndi að hafa falsað passann. Sölvi var svo dæmdur 8. mars 1845 fyrir falskan reisupassa og flakk. Refsing hans var 40 vandarhögg og að vera undir eftirliti yfirvalda í ár. Refsingin var svo milduð í hæstarétti niður í 27 vandarhögg og 8 mánaða gæslu.

Í mars 1850 var Sölvi aftur tekinn fastur fyrir stuld á bókum og buxnagarmi. Hann var svo dæmdur til að hljóta 20 vandarhögg fyrir flakk og lausamennsku þar sem ekki tókst að sanna á hann stuldinn. 1854 var Sölvi enn dæmdur, nú til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn, fyrir að virða ekki vistarband og að hafa sennilega stolið hinu og þessu, aðallega bókum. Árið 1858 kom hann aftur til Íslands og er sendur aftur í sveit sína. Þegar hann ræddi um dvöl sína í Danmörku seinna lét hann eins og hann hefði verið þar sem frjáls maður og hlotið mikinn frama.

Sölvi hélt áfram að flakka um landið. Hann eignaðist dótturina Stefaníu Kristínu með Júlíönu Sveinbjörnsdóttur, sem var niðursetningur, fötluð og talin vitskert. Afkomendur þeirra eru til, bæði hér á landi og í Ameríku.

Sölvi kvaðst sjálfur vera frábær sláttumaður en eitthvað fer misjöfnum sögum af sannleiksgildi þess. Á fyrri hluta ævi sinnar vann hann fyrir sér, í það minnsta á sumrin en skrifaði eða málaði á veturna. Árið 1864 vann Sölvi ásamt fleirum við vegabætur á Vatnsskarði og árið 1867 gerði hann langan vegarkafla þar að mestu leyti einn. Árið 1870 var hann dæmdur til að þola 3x27 vandarhögg fyrir flakk og þjófnað. Sölvi dó 27. nóvember 1895 í Sléttuhlíð.

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2010

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir