„Drepist kúgunarvaldið!“ - Norðurreið Skagfirðinga

Vallalaug í Vallhólmi. Um aldaraðir þingstaður þriggja hreppa, Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps og Akrahrepps.
Vallalaug í Vallhólmi. Um aldaraðir þingstaður þriggja hreppa, Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps og Akrahrepps.

Um þessar mundir eru liðin 170 ár frá því að bændur í Skagafirði komu saman til fundar á Kalláreyrum í Gönguskörðum og ræddu m.a. umdeild mál valdstjórnarinnar sem ekki þóttu sanngjörn. Varð úr að hálfum mánuði síðar reið stór hópur Skagfirðinga að Möðruvöllum í Hörgárdal og báðu Grím Jónsson amtmann að segja af sér embætti. Hann var við slæma heilsu og lést tveimur vikum síðar, 63 ára að aldri.

Í Skagfirskum annál Kristmundar Bjarnasonar er greint frá þessum atburðum sem gerðust árið 1849 en þar stendur:

Fyrri hluta vetrar ákváðu nokkrir Skagfirðingar að boða til fundar til að ræða ýmis héraðsmál. Hinn 5. maí komu um 60 Skagfirðingar saman á Kalláreyrum, steinsnar frá Heiðarseli (Dalsá) í Gönguskörðum. Fundarstjóri var Jón Samsonarson alþingismaður. Meðal fundarmanna voru margir helztu forustumenn Skagfirðinga vestan Héraðsvatna, nágrannar þeirra, bændur og búalið: Gísli Konráðsson sagnaritari og hreppstjóri frá Húsabakka og Indriði sonur hans, Þorbergur Jónsson hreppstjóri á Dúki, Sigurður Guðmundsson fyrrum hreppstjóri á Heiði í Gönguskörðum, Bjarni Bjarnason á Meyjarlandi, Egill Gottskálksson á Völlum, Sigvaldi Jónsson skáld frá Syðra-Vallholti, Jónas Jónsson hreppstjóri á Syðra-Vatni, Sölvi Guðmundsson hreppstjóri í Skarði, Gunnar Gunnarsson hreppstjóri á Skíðastöðum í Laxárdal og Sveinn Símonarson í Efranesi í sömu sveit.

Fundurinn átti að fara leynt og rík áherzla á lögð. Fyrst var rætt um væntanlegt jarðamat, tíundir til presta og kirkna, en aðalmál fundarins og það, sem síðast var rætt, var óánægja með valdstjórnina, einkum festu, sem komið var á klausturjarðir, og umboðsstjórn Einars Stefánssonar á Reynistað, svo og ,,ýmis vandkvæði“, er þeir töldu sig verða fyrir af hálfu stjórnarinnar eða Gríms amtmanns Jónssonar á Möðruvöllum.

Ákveðið var að blása til annars fundar síðar til að ræða amtmannsmálin. Sá fundur var haldinn við Vallalaug, hinn forna þingstað, 22. maí. Talið var, að þar kæmu saman um 160 manns, og má nærri geta, að margur ungur maðurinn fór til þess fundar sér til skemmtunar, aðrir af þægð við húsbændur, og var síðar látið opinberlega að því liggja af sumum. Hitt er þó jafnvíst, að alvara bjó að baki hjá forustumönnum og ýmsum öðrum. Á Vallarlaugarfundi var ákveðið að ríða norður að Möðruvöllum og ,,afbiðja“ amtmanninn.

Raunar kom síðar í ljós, að forustumenn hefðu ákveðið á Kallárfundi eða litlu síðar, að þessi för yrði farin. Meginástæðu hennar töldu forsprakkar þá, ,,að Grímur amtmaður hafði boðið að byggja allar klausturjarðir á uppboðsfundum og skyldi sá einn fá þær leigðar, er mesta byði landskyld og flest kúgildi vildi taka.“ Er Jón Samsonarson hafði ,,mælt fyrir bóninni“, snöruðust ýmsir hinna yngri fundarmanna á bak hestum sínum, sviptu þeim um völlinn, létu ófriðlega og hrópuðu: ,,Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!“

Gísli Konráðsson sagnaritari og hreppstjóri.

Meðan þessu fór fram, sat Gísli Konráðsson við skriftir og samdi svohljóðandi orðsendingu til amtmanns, næðu þeir ekki fundi hans: ,,Þessir fáu gestir, sem nú að þessu sinni heimsækja þetta hús, eru eitt lítið sýnishorn af þeim stóra mannflokki, sem að miklu leyti hefir misst sjónar á tilhlýðilegri virðingu og trausti á amtmanns embætti því, sem nú er fært á gömlu Möðruvöllum, og eru þess vegna hingað komnir: Fyrst til að ráðleggja og því næst biðja þann mann, sem hér nú færir þetta embætti, að leggja það niður þegar í sumar með góðu, áður en verr fer. Lifi þjóðfrelsið! Lifi félagsskapur og samtök! Drepist kúgunarvaldið!“

Fimm menn voru kosnir fyrirliðar í förinni: Indriði Gíslason, Egill Gottskálksson, Bjarni Bjarnason, Sigurður Guðmundsson og Sigvaldi Jónsson. Norður fóru úr Skagafirði 40-50 menn (tölum ber ekki saman), og höfðu allir nesti og tvo, sumir þrjá, til reiðar. Í Norðurárdal var liði skipt. Sumir riðu Hörgárdalsheiði, aðrir Öxnadalsheiði. Á leiðinni til Möðruvalla slógust nokkrir Eyfirðingar í hópinn.

Á Lönguhlíðarbökkum voru menn nætursakir og héldu förinni áfram að morgni 23. maí. Heimildum ber í sumum atriðum ekki saman um, hvað gerðist á Möðruvöllum. Grímur amtmaður hafði lengi verið sjúkur, stundum dregizt á fætur til að sinna embættisverkum, en var rúmfastur og fársjúkur, er Norðurreið var farin. Amtmanni var gert viðvart,  er flokkurinn birtist fylktu liði í halarófu í heimtröðinni. Flýtti hann sér að klæðast, en varð ekki nógu fljótur til að verða við beiðni komumanna, er höfðu þá fest upp orðsendinguna og voru að ríða úr hlaði, er amtmaður birtist á þrepunum og kallaði: ,,Nei, bíðið þið við, piltar, ég ætla að tala við ykkur!“ Þeir flýttu sér burt, og enginn virti amtmann viðlits. Hálfum mánuði síðar lézt hann, hinn 7. júní.

Áður birst í 17. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir