Hver verður Maður ársins á Norðurlandi vestra 2025?

Ásta Ólöf Maður ársins 2024 ásamt ritstjóra Feykis. MYND GG
Ásta Ólöf Maður ársins 2024 ásamt ritstjóra Feykis. MYND GG

Líkt og undanfarin ár leitar Feykir til lesenda með tilnefningar um mann ársins á Norðurlandi vestra. Síðast var það Ásta Ólöf Jónsdóttir á Sauðárkróki sem var kjörin maður ársins fyrir árið 2024 en nú er komið að því að finna verðugan aðila til að taka við nafnbótinni Maður ársins á Norðurlandi vestra 2025. Feykir óskaði eftir tilnefningum og rökstuðningi og hér má sjá þau sem tilnefnd hafa verið:

 

Ásgeir Einarsson í Hlíðarkaupum þar sem hann hefur staðið  vaktina flesta daga ársins í áratugi, með sína miklu þjónustulund og leggur mikið á sig til að létta undir með fólki.

 

 

 

 

Dagur Þór Baldvinsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls fyrir metnað og faglega umgjörð í kringum meistaraflokka og barna- og unglingastarf deildarinnar undanfarin ár.

 

 

 

 

Guðrún Hanna Kristjánsdóttir, forstöðumaður skammtímadvalar, er einstök fyrirmynd í starfi sínu og samskiptum við aðra. Hún vinnur af hjartahlýju, fagmennsku og djúpri umhyggju fyrir bæði þjónustuþegum og starfsfólki. Undir hennar leiðsögn ríkir traust, öryggi og jákvæðni, sem skapar hlýlegt og uppbyggilegt umhverfi fyrir alla.

Guðrún Hanna hefur einstakt lag á að sjá styrkleika fólks og hvetja aðra til að vaxa og blómstra. Hún mætir öllum af virðingu, hlustar af einlægni og setur ávallt gott fordæmi í verki. Jákvæðni hennar og nærvera hafa djúpstæð áhrif og gera skammtímadvöl að stað þar sem bæði börn, fjölskyldur og starfsfólk finna fyrir stuðningi og umhyggju.

Með óeigingirni, elju og mannlegu innsæi leggur Guðrún Hanna sitt af mörkum til betra samfélags á hverjum degi. Fyrir þann kraft, hlýju og áhrif sem hún hefur.

Gunnar Rögnvaldsson staðarhaldari á Löngumýri. Gunnar hefur starfað í rúm 20 ár á Löngumýri og unnið mjög gott starf í þágu samfélagsins, m.a. eldri borgara, ýmissa félaga og samtaka. Lætur sér annt um einstaklinga í nær samfélaginu, og er sérstaklega bóngóður einstaklingur. Fyrir utan að huga vel að sjálfum staðnum.

 

 

 

Gunnar Sigurðsson á Ökrum í Skagafirði. Hann hefur lagt mikið fram á umliðnum áratugum til að sinna þjálfun og starfi í kringum frjálsíþróttastarf í Skagafirði.

 

 

 

 

Karl Lúðvíksson í Varmahlíð, hann hefur unnið sjálfboðaliðastarf fyrir Rauða krossinn og sinnt kennslu í skyndihjálp áratugum saman. Einnig unnið mikið fyrir íþróttahreyfinguna; frjálsar, júdó, eldri borgara o.fl. Einnig mikið með hreyfi- og þroskahömluðum.

 

 

 

Reynir Finndal Grétarsson, athafnamaður og rithöfundur. Í tilnefningu kom fram nefna hve mikið hann hefur lagt til byggðarlagsins, uppbyggingar í gamla bænum á Blönduósi og komið hugmyndum í framkvæmd. Fyrir hans tilstylli mun koma áður en langt um líður lágvöruverslun á Blönduós, sem er góð staðsetning fyrir Norðurland vestra, orkustöð,bílaþvottastöð, Lyfjaver og fleiri fyrirtæki, sem munu auka þjónustu á svæðinu og skapa samkeppni sem vonandi skilar sér til íbúanna.

Auk þessa hefur Reynir stormað fram á ritvöllinn og á þessu ári gefið út tvær bækur. Sjálfsæfisögu sína sem án efa mun vera góð sjálfshjálparbók fyrir suma og einnig harðsnúna glæpasögu sem hefur verið tilnefnd til verlaunanna Blóðdropans.

Það er gríðarlegur kraftur Reynis, framkvæmdagleði og hlýhugur til hans heimabyggðar.

Sigríður Jónína Helgadóttir og Snorri Snorrason hafa með einstökum hætti látið til sín taka í samfélagi Skagafjarðar. Frá því þau tóku við rekstri Miðgarðs hafa þau haft mikil og jákvæð áhrif á félagslíf í héraðinu. Þau hafa lagt sig fram um að skapa líflegt, aðgengilegt og uppbyggilegt samkomurými fyrir íbúa Skagafjarðar og hafa með því styrkt samfélagið bæði menningarlega og félagslega. Miðgarður hefur á ný orðið miðpunktur viðburðahalds og samveru, þar sem fólk á öllum aldri finnur eitthvað við sitt hæfi.

Það sem einkennir störf þeirra Sigríðar og Snorra er óbilandi dugnaður og ábyrgðartilfinning. Þau leggja hart að sér við að halda uppi starfsemi í húsinu, jafnvel á tímum þegar bókanir eru fáar, og sýna þar með mikla elju og framtíðarsýn. Í stað þess að láta aðstæður stjórna sér hafa þau sjálf skapað tækifæri, skipulagt viðburði og haldið húsinu lifandi.

Strax eftir að þau tóku við Miðgarði hófu þau umfangsmikla tiltekt og viðhald. Þau hreinsuðu húsið í grunninn og lagfærðu ýmsa hluti sem höfðu setið á hakanum í mörg ár. Þessi vinna hefur skilað sér í miklum umbótum, bæði hvað varðar ásýnd hússins og notagildi þess, og hefur gjörbreytt upplifun gesta og notenda.

Viðhorf íbúa Skagafjarðar endurspegla vel það mikilvæga starf sem þau hafa unnið. Fólk talar almennt afar vel um Miðgarð í dag og ber hann nú með stolti saman við þá stöðu sem ríkti áður en Sigríður og Snorri tóku við, þegar húsið var illa farið og lítið notað. Breytingin er augljós og er fyrst og fremst þeim að þakka!

Með óeigingjörnu framlagi sínu, dugnaði og metnaði hafa Sigríður Jónína Helgadóttir og Snorri Snorrason haft varanleg og jákvæð áhrif á samfélagið í Skagafirði.

Sigurlaug Þóra Hermannsdóttur -Silla Hermanns, eins og hún er ávallt kölluð, hefur gegnt formennsku í Hollvinasamtökunum við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi í nokkur ár. Með óbilandi þrautseigju og miklum drifkrafti hefur henni tekist að rífa samtökin upp, gera þau sýnilegri og virkja nærsamfélagið til þátttöku.

Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi hefur sannarlega notið afraksturs þessarar vinnu í formi fjölmargra gjafa. Þá lögðu hún og eiginmaður hennar, heitinn Hlynur Tryggvason sem lést á þessu ári, alla sína krafta í að standsetja aðstandendaíbúð HSN á Blönduósi. Sú íbúð hefur verið afar vel nýtt af aðstandendum sjúklinga á sjúkrahúsinu undanfarin ár og verið lofsömuð af þeim sem hana hafa notað. Í gegnum árin hefur þessi kraftmikla, ljúfa og skemmtilega kona látið mikið gott af sér leiða og samfélagið á Blönduósi og nærsveitum notið dugnaðar hennar, væntumþykju og ómetanlegra framlaga.

Má þar meðal annars nefna að hún var upphafsmaður þess að leikskóli var stofnaður á Blönduósi fyrir 50 árum. Þá gáfu þau hjónin nýverið tónlistarskólanum hljóðfæri til minningar um dótturdóttur sína, Hönnu Lísu.

Kosning fer fram á feykir.is

Fleiri fréttir