Ef það er ekki gaman, þá er leiðinlegt:: Áskorandapenninn Júlíus Róbertsson, Hrútafirði

Júlíus Róbertsson. AÐSEND MYND
Júlíus Róbertsson. AÐSEND MYND

Rassmass, minn uppáhalds frændi, skoraði á mig að skrifa pistil og ber ég honum litlar þakkir fyrir. Þó yljaði það mér um minn beina haus að heyra hversu beinn honum þykir hann vera. Tel ég að hann hafi beinkast mikið eftir því sem höfuðhárunum fækkaði, aldurinn hækkaði og bumban stækkaði. Ég er ekki sammála því að hans perulaga haus sé ekki beinn. Þetta er allt spurning um hvernig maður lítur á hausana.

Ég veit svosem ekkert hvað ég á að skrifa um og mitt “go to” trix er þá oft á tíðum að bulla eitthvað og reyna að vera fyndinn, en ég nenni því ekki. Ég veit ég er fyndinn.

Oft gleymi ég því í dagsins amstri að vera þakklátur, t.d. að vera þakklátur fyrir að hafa yfirhöfuð daglegt amstur til að bauka við, þakklátur fyrir að hafa þak yfir höfuðið, þakklátur fyrir að eiga fjölskyldu og athvarf norðan heiða sem ég hverf gjarnan til þegar mér finnst Reykjavík vera ömurleg. Þakklátur fyrir að geta borgað reikninga. Þakklátur fyrir að vera sæmilega heilsuhraustur. Þakklátur fyrir kærustuna mína, faratæki að Toyota Corolla gerð og 6 pör af kúrekastígvélum. Vegna þess að 5 pör er einfaldlega ekki nóg.

Það þarf oft ekki að leita langt til að finna eitthvað til að vera þakklátur fyrir, þessa sumardaga er sólskin að morgni og sólskin að kveldi.

Þetta voru svona einhverjar hugrenningar. Þegar ég byrjaði að skrifa var ég ekkert voðalega þakklátur fyrir að Rassmass frændi skyldi benda á mig sem áskorendapenna en ég hef tekið hann í sátt.

Ég skora hér með á Þorstein Snæ Róbertsson, bróðir minn, að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 29. tbl Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir