Einn dagur af Sæluviku :: Kristrún Örnólfsdóttir minnist Skagafjarðar – 3. hluti

Kristrún Örnólfsdóttir sjötug. Myndir aðsendar.
Kristrún Örnólfsdóttir sjötug. Myndir aðsendar.

Kristrún Þórlaug Örnólfsdóttir f. 29.03 1902 d. 16.08 1978 skrifaði eftirfarandi frásögn í „Sóley“, handskrifað blað kvenfélagsins í Súgandafirði: Ég var 2 vetur til heimilis á Sjávarborg í Skagafirði og þar heyrði ég mikið talað um „Sæluviku Skagfirðinga“, sem haldin er í tengslum við sýslunefndarfund. Er þá oft mannmargt á Sauðárkróki og alltaf hægt að velja um skemmtanir, sem eru seinni part dagsins. Það er til dæmis karlakórssöngur, sjónleikur, umræðufundir og alltaf dans á eftir.

Frá Sjávarborg er hálftíma gangur út að Sauðárkróki, en á vetrum þegar vötnin eru öll ísi lögð, er oftast farið beinni leið og þá stundum á sleða með hesti fyrir, og þá er hægt að fara það á 10 – 15 mínútum. Þá er Sjávarborg í þjóðbraut, því flestir koma þá yfir vötnin framan úr firðinum og var þá oft gestkvæmt þar. Eina nótt voru 13 næturgestir og var 3-4 í hverju rúmi og flatsængum. Ein af gestunum var Ólína Jónasdóttir skáldkona, höfundur að bókinni „Ég vitja þín æska“. Þá lærði ég þessa vísu eftir hana:

Ég í steini bundin bý
bási meina þröngum
geisla hreina á þó í
andans leynigöngum.

Ég ætla að segja ykkur frá einum degi sem ég skemmti mér á Sæluvikunni. Ég fór oftar úteftir en þessi dagur er mér minnistæðastur. Það var venjulega skifst á að fara svo allir gætu skemmt sér. Eitt kvöld var ég ein heima með 2 stelpur 4 og 5 ára. Það kvöld varð ég ein að mjólka 7 kýr, og þá var ég orðin þreytt.

Þennan tiltekna dag ætlaði Bændakórinn að syngja kl 3 í kirkjunni. Það var yndislegt að hlusta á þann söng og tók margur til þess hvað þeir voru samæfðir. Ég vissi deili á flestum kórfélögunum, en til gamans nefni ég nokkur nöfn og bæjarheiti. Jón Árnason á Víðivöllum, Haraldur á Völlum, Benedikt á Fjalli, Þorvaldur í Brennigerði, Þorbjörn Björnson á Heiði, Kristján Hansen á Sauðárkróki. Söngstjóri þeirra var Pétur Sigurðsson er samdi lagið við ljóðið „Ætti ég hörpu hljómaþíða“ og fleiri lög.

Það var mér ógleymanleg stund að hlusta á þá, því söngur er mín uppáhalds skemmtun og mér finnst hún sönn þessi vísa:

Söngur þú sigrar allt,
sofandi dautt og kalt,
lífgar vermir og vekur.
Ó, hvað ég elska þig,
ó hvað þú gleður mig
sorgir úr sálinni hrekur.

Kristrún tvítug að aldri.

Umræðufundir voru hafðir í barnaskólanum og byrjuðu kl 5. Framsöguræðu flutti Páll Zófóníusson, sem hann nefndi „Foreldrar og börn“, og var það aðallega um hross og talaði mikið um hverju foreldrinu afkvæmin líktust meira, bæði að lit, vexti og skapgerð og áleit hann að yfirleitt líktust þau meira föðurnum. Um þetta urðu miklar umræður og tóku margir til máls, en mestan hlátur vakti er séra Arnór Ámason í Hvammi í Laxárdal talaði. Hann var undir áhrifum víns og sneri útúr hjá Páli, en báðir höfðu sérkennilegan málróm sem gárungar notuðu til eftirhermu.

Klukkan 8 var leikinn sjónleikurinn „Tengdamamma“ og þótti mér ólíkt meira gaman að sjá það leikið þar, heldur en hér heima mörgum árum seinna, bæði hvað varðar búninga og vinnubrögð. Mér fannst eðlilegra að sjá vinnumanninn taka halasnældu undan sperru til að spinna á þegar hann kom frá gegningum, en hér fór hann að skafa á sér nöglurnar.
Síðan var dansað fram á nótt, ég dansaði lítið því ég þekkti fáa. Heim var komið klukkan 3 um nóttina og hafði ég skemmt mér ágætlega.
/Kristrún Þ. Örnólfsdóttir

ES: Skráð eftir handriti móður minnar, með hennar stíl og stafsetningu. KHB

---

Áður birst í 16. tbl Feykis 2022

Feykir fékk sendar þrjár sögur frá Kristjáni Helga Björnssyni á Hvammstanga sem móðir hans ritaði niður frá veru sinni á Sjávarborg. Fyrsta sagan birtist í 9. tbl. Feykis 2022 og önnur í 13. tbl. Feykir þakkar sendinguna og hvetur aðra til að senda blaðinu efni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir