Heita vatnið hækkar í verði í Austur-Húnavatnssýslu
Húnahornið segir frá því að um síðustu mánaðamót hækkaði Rarik gjaldskrá sína fyrir sölu á heitu vatni. Fyrir meðalheimili á Blönduósi og Skagaströnd nemur hækkunin 6,8%. Á vef Rarik kemur fram að markmið hækkunarinnar sé að fylgja almennri verðlagsþróun og tryggja eðlilega endurheimt fjárfestinga, ásamt því að stuðla að jafnræði viðskiptavina eftir því sem unnt sé.
Verð hækkar líka á Siglufirði og í Dalabyggð en á Höfn í Hornafirði helst það óbreytt. Í Dalabyggð hækkar verð um 6,8% líkt og í Austur-Húnavatnssýslu og á Siglufirði hækkar verð um 4%. Á vef Rarik kemur fram að ástæða þess að hækkanir á Blönduósi, Skagaströnd og í Dalabyggð eru meiri en á Siglufirði eru miklar fjárfestingar í hitaveitukerfinu á Blönduósi og Skagaströnd á síðustu árum auk þess sem mikil fjárfesting sé framundan í Dalabyggð.
Þar segir einnig að unnið sé að því að fastagjald hitaveitu verði sambærilegt milli svæða, þannig að það endurspegli betur fastan kostnað við rekstur hitaveitna. Breytingar verði teknar í skrefum fyrir Siglufjörð, þar sem fastagjald þar hafi verið umtalsvert lægra en annars staðar. Jafnframt sé gert ráð fyrir að sama gjaldskrá gildi á Höfn, Blönduósi, Skagaströnd og í Dalabyggð, sem einnig verði jafnað í skrefum.
