Fæðingarhjálp fyrri tíma - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Lausnarsteinn (BSk 1993:1) sem fannst í fjörunni á Sauðárkróki. Árni Árnason frá Kálfárdal fann steininn og gaf til safnsins.
Lausnarsteinn (BSk 1993:1) sem fannst í fjörunni á Sauðárkróki. Árni Árnason frá Kálfárdal fann steininn og gaf til safnsins.

Meðgöngu og fæðingu hefur alltaf fylgt nokkur óvissa og áhætta. Íslendingar búa við einhverja bestu fæðingarhjálp sem völ er á í heiminum í dag en í gegnum aldirnar og árþúsundin þurftu konur að reiða sig á ýmiskonar aðstoð við að fæða börnin inn í þennan heim. Aðstoð gat verið þessa heims eða annars, byggð á raunheimsathugunum, s.s. grasalækningum, eða bænum til æðri máttarvalda. Á meðan hvorki voru læknar né ljósmæður til taks þurfti fólk að bjarga sér sjálft eða reiða sig á kunnáttufólk í næsta nágrenni. Ýmis alþýðuráð þóttu duga við fæðingarhjálp og skal hér stuttlega greint frá nokkrum þeirra.

Stundum var hægt að reiða sig á plönturíkið. Plöntur eins og burnirót og tungljurt átti að leggja við hold konu, en tungljurt þurfti að taka óðara í burtu eftir að barn var fætt, svo ekki „losnaði fleira“ en nauðsynlega þurfti. Sumir steinar þóttu búa yfir heilunarmætti og hægt var að brenna brennistein eða agat fyrir vitum verðandi móður. Sum efni þóttu betri til inntöku og þá var ráð að gefa konu spón af tíkarmjólk, eða blöndu af víni og baldursbrá, pungarfa eða skóf af agat steini. Agat mátti líka leggja í vatn í þrjá daga og drekka. Þá var hægt að nýta sér lausnir úr dýraríkinu, s.s. leggja undir konu eða á kvið hennar arnar- eða rjúpkerafjöður, arnaregg eða gæsafjaðrir undir höfuð og fætur. Mörgum heimildum ber þó saman um að af þeim lausnum sem nefndar eru í sambandi við fæðingarhjálp hafi lausnarsteinninn þótt áreiðanlegastur.[1]

Jón Árnason, þjóðsagnasafnari hafði þetta um lausnarsteininn að segja:
„Steinn þessi er til ýmsra hluta nytsamlegur, en einkum er það talinn beztur kostur hans að hann leysi konu sem á gólfi liggur vel og fljótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort að leggja hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, aðrir segja volgt franskvín að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í. Stein þennan skal geyma í hveiti ef hann á ekki að missa náttúru sína, og vefja hann í óbornu hvítu lérefti eða líknabelg.“[2] Aðrir sögðu að steininn skyldi leggja við kvið konu, binda hann við vinstra læri eða leggja hann undir vinstri hönd hennar. [3]

Þess má geta að lausnarsteinn er alls ekki steinn, heldur hnota eða kjarni sem berst til landsins með hafstraumum og rekur á land hér sem víðar. Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir að þegar slíka steina reki á fjörur, finnist þeir yfirleitt tveir saman og þá skal ekki taka með berum höndum, heldur vefja bláu silki eða óbrúkuðu lérefti, láta böggulinn í öskju eða kistil og vitja ekki í 5 mánuði. Steinar þessir eru sagðir fæða af sér lítinn stein, sem hefur sömu dyggðir.[4]

(MKR 2323). Talið var að lausnarsteinar greiddu fyrir lausn fæðandi kvenna við barnsburð, þ.e. auðvelduðu fæðingu. Leggja átti lausnarstein við kvið konu, undir vinstri hönd eða binda við vinstra læri og átti þá fæðingin að ganga vel fyrir sig. Yfirsetukonum þótti mikill fengur að eignast slíkan stein.(MKR 2323). Talið var að lausnarsteinar greiddu fyrir lausn fæðandi kvenna við barnsburð, þ.e. auðvelduðu fæðingu. Leggja átti lausnarstein við kvið konu, undir vinstri hönd eða binda við vinstra læri og átti þá fæðingin að ganga vel fyrir sig. Yfirsetukonum þótti mikill fengur að eignast slíkan stein.

Lausnarsteinar fundust ekki á hverju strái þó þá gat rekið á fjörur af og til. Samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar gat fólk þurft aðstoð arnarins til að eignast slíkan grip. Þá þurfti að komast í arnarhreiður á Vítusmessunótt (15. júní) og múlbinda ófleyga arnarungana. Þegar assan (kvenfugl arnarins) finnur þá í því ástandi leitar hún leiða til að leysa þá, m.a. með því að draga í hreiðrið ýmsa náttúrusteina sem hún hyggur að geti létt af ungunum. Lausnarsteinninn er síðasti steinninn sem assan kemur með og leysir hann yfirleitt múlinn. En þá þarf snör handtök við að grípa steininn, því annars sekkur assa honum niður í djúpið þar sem enginn nær til hans.[5]

Áhugavert er að rekja sögu lausnarsteina aftur til fortíðar. Jón Steffensen fjallar um efnið í ritröðinni Íslensk þjóðmenning. Í heiðni var Freyja kölluð frjósemisgyðja og henni var eignað Brísingamen, sem Loki stal og Heimdallur sótti aftur. Jón nefnir að það sem nefnt er hið fagra hafnýra og men Brísinga í Eddunum sé eitt og hið sama. Hann rekur þar samsvörun milli fyrirbæranna og tengir við það sem Færeyingar kalla Vettenyre. Vette kemur af norræna orðinu vættir. Nýra vísar til lögunar steinsins, sem er nýrna- eða hjartalaga. Í kvæðinu Húsdrápu eftir Úlf Uggason, sem ort var á síðari hluta 10. aldar, er hugtakið hafnýra einnig nefnt í þessu samhengi (þ.e. í sambandi við fæðingarhjálp).

Við getum leikið okkur að þeirri hugmynd að lausnarsteinninn eigi sér þannig samsvörun í heiðnum sagnaheimi af Brísingameni Freyju og sé því ævagamalt fyrirbæri. Lausnarsteinninn deilir ennfremur eiginleikum sínum með öðrum steini, arnarsteini (aetites) en forngrískir læknar töldu slíka steina greiða fyrir fæðingu barna. Báðir steinarnir eiga það sameiginlegt að í þeim hringlar þegar þeir eru hristir, en samkvæmt forngrískum hugmyndum þótti það merki þess að steinninn væri þungaður öðrum steini.[6]

Heimildir:
1  Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 330-331.
2  Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. (1954). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Bls. 648.
3  Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan
Opna, Reykjavík. Bls. 331.
4  Sama heimild.
5  Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. (1954). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Bls. 647-648.
6  Jón Steffensen. Alþýðulækningar. Úr ritröðinni Íslensk Þjóðmenning (VII bindi). Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson. (1990). Bls. 136-139.

/ Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir