Fegurðin í ófullkomleikanum :: Áskorandapenninn Valgerður Erlingsdóttir brottfluttur Króksari

Ég er fædd á Sauðárkróki á því herrans ári 1977, telur það 44 ár og mætti þá kallast miðaldra. Ég hef búið á höfuðborgarsvæðinu meirihluta ævinnar eða í 26 ár, þar sem ég hef komið mér upp fjölskyldu og eignast góða vini. Í gegnum tíðina hef ég gert margt misgáfulegt, eins og heima á Krók og á eflaust eftir að gera út lífið, því svo lengi lærir sem lifir, eða hvað?

Með árunum varð ég meðvitaðri um samfélagslega ábyrgð mína og tókst á við lífið sem best ég kunni. En á meðan ég reyndi að móta mig inn í þessa margbrotnu sinfóníu samfélagsins, átti ég það til að gleyma að stilla mína eigin strengi, en hélt samt áfram að spila með. Þegar ég fann ekki samhljóminn, reyndi ég að ásaka meðspilara um slakt tóneyra og jafnvel fundust mér einhverjir laglausir eða taktlausir. Er ég svo uppgötvaði að meðspilarar mínir voru ekki orsökin, þá var það ég sem var vanstillt.

Ég leitaði leiða til þess að stilla mig af og uppgötvaði á þeirri vegferð að ég mætti skapa mitt eigið tónverk og lykillinn af því væri trú á eigin getu og að fanga fegurðina í ófullkomleikanum. Með tímanum upplifði ég ákveðið frelsi sem fólst í þeirri sköpun og það sem er mest spennandi við það er, að það verður í stöðugri þróun svo lengi sem ég held á tónsprotanum. Hingað til hefur tónsmíðin fengið að flæða upp og niður tónstigann ýmist í dúr eða moll, verið vanstillt og innihaldið fjöldann allan af feilnótum og gerir eflaust áfram, sem betur fer.

Von mín er sú að þegar ég legg frá mér tónsprotann hafi mér tekist að finna hlutverk fyrir alla sem hafa á sinn einstaka hátt haft áhrif á lokaútkomu verksins.

Ég ætla að senda keflið í Mosfellsdalinn og skora á mína stórskemmtilegu Bólusystur, sem hefur haft mikil áhrif á menningarlíf Skagfirðinga sem og annarra undanfarin ár, Huldu Jónasdóttur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir