Fljót í Skagafirði :: Áskorendapenninn Björn Z. Ásgrímsson - Fljótamaður og Siglfirðingur

Fljótin eru útvörður Skagfirska efnahagssvæðisins í austri. Fyrr á öldum og allt fram til ársins 1898 var þetta einn hreppur, ýmist nefndur Fljótahreppur eða Holtshreppur, og talinn með stærri hreppum landsins. Vesturmörkin voru við Stafá og austurmörkin við Sauðanes. Með konungstilskipun 1826 voru austurmörkin færð að Almenningsnöf í landi Hrauna. Sú landfræðilega afmörkun Fljóta til austurs og vesturs hefur haldist þannig síðan.

Í Landnámu er getið alls sex landnámsmanna og er Hrafna-Flóki þeirra nafntogaðastur. Það var því snemma þéttbýlt í Fljótum og bera mannfjöldaskýrslur þess glöggt vitni að svo hafi verið um aldir, allt fram undir aldamótin 1900. Fljótin voru lengi vel fjölmennasti hreppurinn í Skagafirði með um 16% af íbúum héraðsins sem verður að teljast hátt miðað við hversu sveitin er afskekkt og að telja má harðbýl á margan hátt. Hinn blandaði búskapur til sjós og lands er vafalítið helsta ástæðan fyrir hinum mikla íbúafjölda allt fram undir byrjun 20. aldar, þegar þéttbýlismyndun fór að aukast, í kjölfar mikilla framfara í sjávarútvegi.

Árið 1870 bjuggu um 750 manns í Fljótum á nærri 80 jörðum og orðið nokkuð þéttbýlt eins og gefur að skilja. Útræði stóð með miklum blóma á síðustu áratugum 19. aldar og voru hákarlaveiðarnar einna verðmætastar. Við vélvæðingu bátaflotans á fyrstu áratugum 20. aldar lognaðist útgerðin smám saman af, enda hafnleysa í Fljótum. Íbúum fækkaði jafnt og þétt í kjölfar þessara breytinga og annarra framfara í atvinnu- og lifnaðarháttum.

Fljótin eru blómleg sveit að sumri og falleg að vetri með sínar miklu fannbreiður frá fjöruborði til hæstu tinda. Sveitin er jú fræg fyrir sín miklu snjóþyngsli og afburða skíðamenn á árum áður. Snjórinn getur auðvitað valdið bændum búsifjum, en gróður kemur jafnan vel undan sköflunum að vori og bústofninn dafnar vel. Séra Sigurður Norland orti eftirfarandi vísu, eftir að hafa hlustað á Guðmund Pétursson, bónda á Hraunum, lýsa sveit sinni.

Fáir hafa Fljótin þekkt
faðmi vafin grónum.
Þar er afar yndislegt
allt á kafi í snjónum.

Nú búa um 80 manns í Fljótum. Hefðbundinn búskapur er aðeins á 8 jörðum og er sauðfjárrækt fyrirferðarmest. Ferðamennska er vaxandi atvinnugrein og Fljótin eru orðin vinsæll áfangastaður erlendra og innlendra ferðamanna, jafnt að vetri sem sumri. Ferðaþjónusta hefur byggst hratt upp síðustu árin með fjárfestingum einstaklinga og fyrirtækja. Á lögbýlunum Langhúsum og Brúnastöðum hefur verið rekin, af miklum myndarskap, afþreyingar- og gistiþjónusta fyrir ferðamenn. Einnig hafa risið fyrsta flokks hótel í sveitinni, Sóti Lodge og Deplar Farm. Það síðarnefnda er fjárfesting sem hleypur á milljörðum króna og er ætlað erlendum ferðamönnum á hæsta „tekjurófinu“.

Svo byggð megi eflast í Fljótum er nokkuð ljóst að hefðbundinn búskapur mun ekki skipa stórt hlutverk þar. Frekar munu störf tengd ferðaþjónustu, samhliða búskap, geta eflt byggðina til lengri tíma svo íbúum fjölgi á ný og nauðsynlegir innviðir sveitarinnar styrkist. Sveitarfélög og önnur stjórnvöld munu ekki skapa störfin, heldur umgjörðina og aðstæður til uppbyggingar, þar með talið bættar samgöngur og aðra nauðsynlega innviði. Frumkvæði og framtak einstaklinganna gegnir ávallt lykilhlutverki við atvinnuuppbyggingu og búsetu. Samfélagsleg þróun hefur ekki verið hagstæð dreifbýlinu um áratuga skeið og leitt til mikillar fólksfækkunar þar. Samt sem áður geta tækifæri leynst í þessari þróun fyrir sveitir landsins, samhliða bættum samgöngum, stafrænni þróun og vaxandi þörf innlendra og erlendra ferðamanna fyrir afþreyingu og útivist.

Ég skora á vin minn Björn Jóhann Björnsson að skrifa pistil.

Áður birst í 7. tbl. Feykis 2021

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir