Góða og gáfaða fólkið - Áskorendapenninn Helga Rún Jóhannsdóttir Bessastöðum

Það er til fullt af fólki í heiminum, og enginn eins. En nánast allir eiga eitthvað eitt sameiginlegt, þó ekki endilega það sama. Það var mörgum sem fannst „Game of thrones“ skemmtilegt, aðrir sem finnst gólf skemmtilegt og einhverjir eru með blá augu. En það er til hópur af fólki (og örugglega nokkrir) sem kallar sig ekki hóp því þau auglýsa sig ekki og hafa ekkert sameiginlegt áhugamál.

Ég vil kalla þau góða og gáfaða fólkið, það er fólkið sem tekur hlutina skrefinu lengra en kurteisa fólkið og segir engum frá því hvað það gerir, hvorki á samfélagsmiðlum eða í daglegu tali, eða allavega ekki oft og það er ekki ástæðan fyrir því að verkið var framkvæmt. Þau leggja bílnum vel og rétt í stæði, bíða stillt og þolinmóð í röðum, taka utan af rúmum þar sem þau gista svo húsráðandi þurfi ekki að gera það, segja viðmælanda frá því þegar það er með rjóma eða súkkulaði í munnvikinu, taka langa króka á leið sína til þess að keyra fullt fólk heim af böllum, spyrja um ofnæmi hjá fólki sem ætlar að koma í mat, gefur stefnuljós þegar má taka fram úr, tína upp rusl á förnum vegi henda því þar sem við á. Þessi listi er ótæmandi sem og svo margir aðrir upptalningalistar og mér mun aldrei detta í hug öll þau atriði sem eiga við.

Það þarf bara að framkvæma einn af þessum hlutum eða öðrum í líkingu þeirra til þess að komast inn í þennan hóp. Ekki að það sé til neinn formlegur hópur svo ég viti og ef svo væri veit ég ekki alveg hvernig árshátíð hjá þeim hópi gæti verið, en líklega skemmtileg og allir kæmust heilir heim.

Heimurinn er fullur af svona fólki, það sést út um allt og finnst í öllum löndum. En það sést enginn munur á því og þessum sem henda rusli út í náttúruna eða leggja illa, sem mættu klárlega bæta sig. 
Mig langaði bara aðeins að skrifa um þau og þakka þeim fyrir að vera til. Veröldin er betri staður með ykkur.

Ég skora á vin minn Jón Frey Gíslason til að skrifa næsta pistil. Vonandi dettur þér eitthvað sniðugt í hug.

Áður birst í 32. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir