Háskólinn, Já eða Nei? - Áskorandinn Árný Dögg Kristjánsdóttir Austur-Húnavatnssýslu

Hvenær er rétti tíminn til þess að hefja háskólanám?
Seinustu vikur hefur háskólinn verið mjög ofarlega í huga mér, og hvort það hafi verið góð hugmynd að hefja háskólanámið á þeim tíma sem að ég gerði. Var ég tilbúin í það að takast á við þá vinnu og það álag sem fylgir háskólanum? Til að byrja með var ég það og hafði fullan metnað og fulla einbeitingu til þess að vinna í þessu.

Það þarf ekki mikið til þess að þetta breytist og smá áföll í lífinu geta haft stór áhrif á getu og vilja til þess að læra, sama hversu mikill áhugi er fyrir því sem maður er að læra. Um leið og viljinn er farinn er ekki auðvelt að koma sér aftur af stað. Ein til tvær vikur aftur úr og þá getur allt námið verið farið í vaskinn. Þó eru sumir sem geta náð að koma sér aftur á réttan stað og ná að halda sér þar. En í mínu tilfelli var það ekki svo auðvelt. Viljinn var farinn. Metnaðurinn var orðin enginn.

Þegar það er tilfellið fer maður oft að velta spurningunni fyrir sér; „Byrjaði ég áður en ég var tilbúin að takast á við þetta?" Ég ákvað að reyna að halda áfram og náði að klára fyrstu tvær annirnar. En við það að klára kom námsleiðinn enn á ný hjá mér, sem ég hafði verið að berjast við í framhaldsskóla. Og þar sem háskólinn er byrjaður aftur hoppar námsleiðinn strax upp og enn á ný koma spurningarnar upp. Fyrir mig er best að finna eitthvað til þess að hreinsa hugann og reyna að takast á við námið, einn dag í einu.

Best er að muna að þetta er hlutur sem þú valdir sjálf! Þetta er hlutur sem þú hefur áhuga á! Þó upp komi sú staða að viljinn sé ekki það sterkur að þú getir tekist á við fullan skóla, taktu þá bara færri áfanga. Það er eingin skömm í því að taka lengri tíma í námið. Þetta mun allt hafast á endanum!

Ég skora á Ólöfu Rún til að vera næsti penni.

Áður birst í 39. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir