Haustþing leikskóla á Norðurlandi vestra og Strandabyggðar 2021

Í ár var haldið haustþing leikskóla á Norðurlandi vestra og Strandabyggðar. Sveitarfélögin skiptast á að halda þingið og sjá skólastjórnendur í sveitarfélögunum um skipulagningu. Í ár sá Húnaþing vestra um skipulagningu og var haustþingið haldið á Hótel Laugarbakka í september.

Haustþingið sóttu um 120 starfsmenn úr leikskólunum, þátttaka var góð og lögð var áhersla á að vera með hagnýta fræðslu sem hægt væri að nota í daglegu starfi. Þrír fyrirlestrar voru yfir daginn, Aðalfyrirlesarinn var Hlín Magnúsdóttir.

Hlín var með fræðslu um málörvun í leikskólastarfinu og fjölbreyttar leiðir til að styðja við málþroska barna. Hún vinnur sem deildarstjóri við sérkennslu í samreknum leik- og grunnskóla, einnig heldur hún úti vefsíðunni https://fjolbreyttkennsla.is/ þar sem hægt er að sækja sér ýmist efni til notkunar við kennslu leik- og grunnskólabarna.

Eftir hádegi voru tveir fyrirlestrar, sá fyrri var frá Barnaheill þar sem Guðrún Helga Bjarnadóttir hélt fræðsluerindi um forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum. Seinni fyrirlesturinn flutti Saga Stephensen, verkefnastýra fjölmenningar, fagskrifstofu leikskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Fyrirlesturinn bar heitið, Fjölmenning og fjöltyngi í leikskóla, þar sem lögð var áhersla á vinnu með börnum með annað móðurmál en íslensku.
Í lok fyrirlestra gafst tækifæri til samtals um efni dagsins og starf skólaársins.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar
Guðný Kristín Guðnadóttir, aðstoðarleikskólastjóri
Guðrún Lára Magnúsdóttir, leikskólastjóri

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir