Heilsueflandi samfélag :: Áskorendapenninn - Liljana Milenkoska Hvammstanga

Í nútímasamfélögum lifir fólk lengur á meðan hlutfall fæðinga minnkar. Það felur í sér alls konar áskoranir fyrir stjórnvöld, heilbrigðisþjónustuna og samfélagið. Að viðhalda og bæta heilsu og færni fólks á öllum æviskeiðum hefur fjölþætt gildi fyrir ríki, sveitarfélög, einstaklinga og aðra hagsmunaaðila. Til þess að viðhalda heilsu íbúa verða stjórnvöld og samfélög að velja hagkvæmar leiðir, eins og markvisst lýðheilsustarf, sem byggir á bestu þekkingu á hverjum tíma. Lýðheilsa felur í sér markvissar aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að bæta heilsu, líðan og lífsgæði þjóða og þjóðfélagshópa (WHO, 1998).

Í byrjun maí 2022 undirritaði sveitarfélagið Húnaþing vestra samning um innleiðingu Heilsueflandi samfélags. Samkvæmt samningnum, mun sveitarfélagið innleiða öll markmið verkefnisins og mun einsetja sér að vinna markvisst lýðheilsustarf í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis. Heilsueflandi samfélag hefur heilsu og líðan allra íbúa í fyrirrúmi og öll svið innan samfélagsins eru með stefnumótun og aðgerðir með það að leiðarljósi. Heilbrigðisáhrifaþættir eru aðalatriðin sem unnið er með í heilsueflandi samfélagi, með það að markmiði að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi allra íbúa, og gera þeim kleift að geta auðveldlega valið hollustu s.s. að stunda hreyfingu, hollt mataræði, rækta geðheilsu sína og einnig minnka áhættuhegðun eins og vímuefnanotkun. Ef vel er unnið mun verkefnið Heilsueflandi samfélag bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu búa, vellíðan þeirra mun batna og jöfnuður, öryggi og lífsgæði í samfélaginu munu aukast.

Líta má á heilsuna sem tilvist eða fjarveru sjúkdóms og læknisfræðilega mælda áhættuþætti hjá einstaklingi. Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku (WHO, 1948). Andleg og líkamleg heilsa eru líklega tvær tegundir heilsu sem oftast er rætt um. Félagsleg og fjárhagsleg heilsa stuðlar einnig að almennri heilsu, þar sem rannsóknir tengja það við lægra streitustig og bæta andlega og líkamlega vellíðan. Fólk með betri fjárhagslega heilsu getur til dæmis haft minni áhyggjur af fjármálum og hefur aðstöðu til að kaupa ferskan mat reglulega. Þeir sem eru með góða félagslega heilsu geta fundið fyrir ró og tilgangi sem stuðlar að góðri andlegri heilsu. Lífsstílstengdir sjúkdómar, eins og sykursýki og offita eru að aukast. Þjóðin

er að eldast, æviskeiðið lengist og oft er fólk með fleiri en einn sjúkdóm á efri árum. Besta leiðin til að viðhalda heilsu er að varðveita hana með heilbrigðum lífsstíl frekar en að bíða þar til veikindi verða til að takast á við heilsufarsvandamál. Heilbrigður lífsstíll veitir leið til að lifa fullu lífi með merkingu og tilgangi. En það er ekki bara sveitarfélagið sem ber ábyrgð á að efla heilsuna hjá íbúum, heldur er það hlutverk hvers og eins.

Til þess að einstaklingar geti breytt lífstíll þarf oft stuðning og leiðbeiningu heilbrigðisstarfsfólks. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu hefur brugðist við þessari stefnu og gegnir stóru hlutverki við innleiðingu á heilsueflandi móttökum í heilsugæslu á landsvísu. Ég sem heilsugæsluhjúkrunarfræðingur hef fengið tækifæri að þróa sykursýkismóttöku á heilsugæslunni á Hvammstanga, sem verður vonandi í framtíðinni hluti af þverfaglegri heilsueflandi móttöku. Í þessari sykursýkismóttöku eru kallaðir inn einstaklingar í samfélaginu sem eru greindir með sykursýki af týpu 2 og þeim veitt fræðsla, stuðningur og hvatning um heilbrigðari lífsstíl.

Vinnan í sykursýkismóttökunni er í stöðugri þróun hjá okkur, þó að covid 19 faraldurinn setti hana á bið strax við byrjun, þá vona ég að uppbygging á heilsueflandi móttöku innan heilsugæslunnar muni halda áfram á næstunni. Heilsueflandi móttakan mun styrkja heilsugæsluna okkar til að sinna heilsueflingu og forvörnum fyrir ákveðna hópa. Einnig mun móttakan veita einstaklingsmiðaða, heildræna, þverfaglega og framvirka þjónustu, með það að markmiði að bæta heilsu og auka lífsgæði íbúa og þannig seinka þörf hópsins fyrir annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Það eru spennandi tímar framundan í samfélaginu okkar, og ég hlakka til að fylgjast með breytingum og taka þátt í framþróun heilsugæslu í héraði.

Ég skora á Leó Örn Þorleifsson, sviðsstjóra réttindasviðs hjá Vinnumálastofnun að taka við pennanum.

Áður birst í 29. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir