Hlustum á Konfúsíus - Áskorandinn Magnús Björnsson frá Hólabaki

Konfúsíus, sá mikli heimspekingur Kínverja, var eitt sinn spurður um það hvað stjórnvöldum bæri að gera eftir að friði og velmegun hefur verið komið á í kjölfar ófriðar- eða óróatíma. Hann svaraði að bragði að mennta ætti þjóðina.

Við erum í vanda stödd þessa dagana og því er spáð að erfiðleikarnir séu rétt að byrja. Hugsanlega erum við að sjá fram á svipaða kreppu og setti samfélagið á hliðina fyrir um rúmlega tíu árum síðan. Þótt það kunni að hljóma undarlega á þessari stundu, þegar við erum að ganga inn í storminn, að velta fyrir sér hvað við gerum eftir að þetta gjörningaveður er afstaðið.

Ég vil að við tökum Konfúsíus á orðinu og stöndum loksins við stóru orðin um að stórefla menntun, rannsóknir og nýsköpun í landinu. Við tölum gjarnan um slíka framtíðarsýn á tyllidögum en þrýtur gjarnan þolinmæðin til að fylgja því eftir og áður en við vitum af erum við komin á kaf í eitthvað annað sem gefur betur af sér þá stundina. Niðurstaðan er því sú að við stöndum nágrannalöndum okkar töluvert að baki á þessu sviði. Hvernig væri að láta núna verða af því að standa við stóru orðin.

Ein áhugaverð hlið á því að efla rannsóknir og nýsköpun er byggðasjónarmið. Við þurfum ekki annað en líta til nærumhverfisins á Norðvesturlandi til að sjá glæsileg fyrirtæki sem eru að vinna frábært starf í rannsóknum og nýsköpun. Það er nefnilega ekkert sem segir að nýsköpun sé bundin við Vatnsmýrina í Reykjavík heldur þvert á móti eru gríðarleg tækifæri fólgin í því að auka verðmætasköpun einmitt þar sem þegar er verið að vinna verðmæti. Glæsileg sprotafyrirtæki á Skagaströnd, Sauðárkróki og Siglufirði, svo nokkur góð dæmi séu tekin, eru sönnun þess. Og það er ekki bara í sjávarútvegi sem tækifæri til nýsköpunar liggja. 

Landbúnaður og ferðaþjónusta búa yfir miklum tækifærum á þessu sviði ef við bara gefum þeim gaum, tíma og fjármagn. Ég veit að hugsanlega höfum við ekki þá þolinmæði sem þarf í verkið, það verður víst seint talin okkar sterkasta hlið, en það væri sannarlega kaldhæðni örlaganna ef þessi blessaði vírus yrði þess valdandi að við sem þjóð myndum þroskast og temja okkur meiri langtímahugsun.

Magnús skorar á bróður sinn, Ingvar Björnsson, bónda á hólabaki, að taka við pennanum.

Áður birst í 13. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir