Hringrás sögunnar - Ágúst Ingi Ágústsson skrifar

Ágúst Ingi Ágústsson.
Ágúst Ingi Ágústsson.

Í aðdraganda komandi keppnistímabils í Dominos deild karla í körfubolta hafa félagsskipti sterkra leikmanna milli tveggja Reykjavíkurliða verið áberandi. Misjöfn fjárhagsstaða félaganna er víst ástæða þessara félagsskipta. Umræðan verður oft óvægin þegar peningar og íþróttir eru annars vegar og stór orð látin falla.

Undanfarin misseri hefur umræðan um körfuboltann á Króknum snúist mikið hvernig sterkir leikmenn séu lokkaðir Krókinn. Fólk lætur frá sér misgáfulegar athugasemdir á samfélagsmiðlum og hefur greinarhöfundur á vefsíðunni karfan.is skrifað um Tinda$tól í annars skemmtilegum pistlum sínum. Þessi umfjöllun er ekki ný af nálinni og ekki úr vegi að líta 30 ár aftur í tímann og skoða umfjöllun um öflugt lið Tindastóls keppnistímabilið 1990-91.

Fyrir leiktímabilið 1990-91 gerðist körfuknattleiksdeild Tindastóls stórhuga. Til liðsins voru fegnir tveir Tékkóslóvakar, Ivan Jonas og Milan Rosanik en sá síðarnefndi þjálfaði liðið. En stóru fréttirnar það haustið var koma Péturs Guðmundssonar á Krókinn eftir að hafa spilað í NBA deildinni. Í liðinu, líkt og undanfarin tvo tímabil, var svo Valur Ingimundarson einn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar. Tindastólsliðið hóf keppni í úrvalsdeildinni af krafti og sat á toppnum um jólin þar sem liðið hafði unnið ellefu leiki og aðeins tapað tveimur. Gott gengi Tindastóls virtist fara fyrir brjóstið á mörgum og sú umræða varð hávær í fjölmiðlum að Sauðkrækingar hefðu keypt þennan góða árangur fyrri hluta vetrar.

Ivan Jonas, Milan Rosanik og Pétur Guðmundsson. Mynd: Íþróttablað DV mánudaginn 8. október 1990.

Ivan Jonas, Milan Rosanik og Pétur Guðmundsson. Mynd: Íþróttablað DV mánudaginn 8. október 1990.

Áður en Twitter og Facebook urðu miðlar fyrir misgáfulegar skoðanir fólks gat almenningur látið gamminn geysa í blöðunum. Nokkrar áhugaverðar greinar voru skrifaðar um Tindastól og gott gengi liðsins og verður hér vísað í tvær þeirra. Þá fyrri skrifaði Sigrún Jónsdóttir í Dagblaðið Vísir í október 1990 og segir að Tindastólsliðið væri búið að „kaupa sér titillinn“.  Hún tekur fram að fjórir af bestu leikmönnum liðsins séu aðkeyptir atvinnumenn og Tindastóll hafi með þessu tekið upp atvinnumennsku í körfubolta að miklu leyti. Sigrún segir þennan metnað Króksara í körfuboltanum bitna á andstæðingunum sem ekki geta lengur keppt við Stólana á jafnréttisgrundvelli. Tekur svo Sigrún djúpt í árina í lok greinar sinnar þegar hún lýsir því yfir að ef Tindastóll verði Íslandsmeistarar í lok leiktíðar verði fagnað með blendnum tilfinningum á Króknum með vísun í að titillinn yrði næstum illa fenginn með þessari atvinnumennsku.

Síðari greinin birtist í Morgunblaðinu í lok nóvember 1990 þar sem Tómas Tómasson skrifar í Velvakanda og gagnrýnir blaðið fyrir að gera Tindastól og KR hærra undir höfði í umfjöllun sinni. Heldur Tómas því fram að liðin hafi „úr meiri peningum að moða en hinar skotturnar í deildinni...“   Því til stuðnings fullyrðir hann að Pétri Guðmundssyni séu borgaðar 150 þúsund krónur á meterinn auk þess að liðið sé með tvo útlendinga, en tekur ekki fram að annar þeirra sé þjálfari. Tómas segir ennfremur að gaman væri að sjá Tindastólsliðið ef það myndi eingöngu tefla fram heimamönnum. Virtust fjölmiðlar mjög áhugasamir um hvernig körfuknattleiksdeild Tindastóls væri rekin og hvaðan peningarnir kæmu. Í Íþróttablaði Morgunblaðsins var sagt í gamni haustið 1990 að körfuknattleiksdeild Tindastóls væri rekin á tveimur tékkum og einum víxli!
Ekki verður hér mat lagt á rekstur körfuknattleiksdeildar Tindastóls né annarra deilda þá eða nú en hringrás sögunnar er skemmtileg.

Heimildir:
Sigrún Jónsdóttir. ,,Búið að kaupa meistaratitilinn”. Dagblaðið Vísir, 12. október 1990.
Tómas Tómasson. ,,KR-Tindastólsdeildin”. Morgunblaðið, 29. nóvember 1990.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir