Hrólfsstaðaundrin - Úr Byggðasögu Skagafjarðar

Hrólfsstaðir 19. ágúst 2005. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar IV bindi.
Hrólfsstaðir 19. ágúst 2005. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar IV bindi.

Í Byggðasögu Skagafjarðar eru margir sögumolar sem fylgja samantekt um hverja jörð og margir afar skemmtilegir. Flestir eru gamlir en einn molinn er mjög forvitnilegur og gerist í nútímanum á bænum Hrólfsstöðum í Blönduhlíð þegar verið var að byggja nýja húsið. Ýmislegt átti sér stað á byggingatímanum sem erfitt er að útskýra en hægt er að lesa um það hér fyrir neðan.

Sævar Þór Geirsson keypti Hrólfsstaði sumarið 2002. Strax eftir það hófu þau Hafdís Björnsdóttir, kona hans, undirbúning að byggingu á allstóru húsi á svokölluðum Bæjarhól út og upp frá gamla íbúðarhúsinu. Síðsumars og fram á haustið var verið að reisa húsið og innrétta. Á byggingartímanum gerðust þráfaldlega óskiljanlegir atburðir, einkanlega truflanir á rafmagni og bilanir í rafmagnstækjum. Áður en húsið reis var flutt timbur og byggingarefni heim á hólinn, staflað sunnan við þar sem húsið síðan reis og vel frá því gengið. Það fauk í einum rokhvellinum og Sævar orðaði það svo: ,,Það var eins og einhver krumla hefði tekið timbrið og sáldraõ því niður eftir túninu, alveg niður á veg og dreifin var í munstri eins og hryggur úr fiski.“

Rafmagn var í gamla íbúðarhúsinu. Sævar segir frá: „Meðan við vorum að byggja tókum við rafmagnið neðan úr gamla bæ og þaðan var það leitt í rafmagnskapli upp á byggingarsvæðið. Á þeim tíma voru sífellt að gerast hér óútskýranlegir hlutir en fyrst og fremst í sambandi við rafmagnið. Og það eru fjölmörg vitni. Ég væri ekki að segja frá þessu annars. Iðulega sló rafmagnið út án þess að væri nokkurt sérstakt álag. Menn voru hér t.d. að reisa og stóðu svo allt í einu í svartamyrkri. Ljósin dóu bara. Það var eins og einhver hefði kippt úr sambandi. Eftir að húsið var risið var ég hér oft með stráka í vinnu inni í húsinu og stundum hrundu rafmagnsverkfærin, einkanlega í höndunum á mér. Svo kannski ef strákarnir tóku við þeim var allt í lagi.

Svo var það nú bíllinn. Við áttum nýjan og stóran Landcruiser með tveimur 120 ampera geymum og kösturum framan á. Það kom fyrir þegar við snerum hingað heim á afleggjarann að framljósin slógu út. Þegar við ætluðum svo að fara heim eftir helgarvinnuna var bíllinn algerlega rafmagnslaus. Þetta skeði nokkrum sinnum. Það var svolítið pínlegt að þurfa að ganga upp að Vöglum og biðja um start með nýja geyma í nýjum bíl.

Þegar rafmagnið fór af urðum við að fara niður í gamla bæ til að reyna að koma því á aftur. Það var kannski alhvít jörð og alveg útilokað að nokkur hefði getað komist að rafmagninu án þess að skilja eftir sig spor. Stundum gekk bara ekki að ná straumnum á aftur. Það var alveg sama hvað við gerðum. Einu sinni hringdi ég í Ágúst rafvirkja á Skörðugili og hann kom

seint um kvöld eftir kóræfingu. Þegar hann var lagður af stað til okkar kom rafmagnið allt í einu inn af sjálfu sér. Ágúst sá um að leggja rafmagnið í húsið og hann fór ekki varhluta af þessu. Hann var hér stundum einn að vinna og missti út rafmagnið og einhvern tímann þegar hann ætlaði að fara í burtu var bíllinn rafmagnslaus.

Þetta var margt alveg stórfurðulegt. Stundum voru að hverfa hlutir trekk í trekk út úr höndunum á manni og koma síðan í ljós. Þetta var orðið svo alvarlegt að ég var á tímabili farinn að hugsa um að hætta hér en maður þraukaði samt og byggingin var drifin áfram. Við byrjuðum sumarið 2002 og húsið var komið undir þak fyrir veturinn. Eftir að smíðum lauk hér í húsinu hætti þetta allt saman og hefur ekki borið á neinu undarlegu. Eftir 2004 hefur ekki einu sinni farið framljósapera í bílnum.

Mér var sagt að hóllinn hér fyrir utan og neðan hússins sé álagahóll sem stranglega er bannað að hreyfa við og honum var ekkert raskað. En það er spurning hvort álagabletturinn hefur verið á hólnum sem húsið stendur á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir