Hugleiðingar í upphafi árs - Áskorandi Elísabet Kjartansdóttir, brottfluttur Króksari

Ég tek glöð við áskorendapennanum frá Bríet frænku og velti fyrir mér einu og öðru í upphafi árs eins og við gjarnan gerum á slíkum tímamótum. „Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka…“ segir í ljóðinu góða sem við flest öll þekkjum. Nú höfum við kvatt 2018 og bjóðum nýtt ár hjartanlega velkomið með allar þær vonir og væntingar sem áramótunum fylgja.

Við lok hvers árs er gott að líta yfir farin veg og staldra aðeins við. Ég er þó ekki vön að setja mér áramótaheit…fyrir utan það að halda áfram að „lifa og njóta“ með öllu mínu góða fólki sem ég hef í mínum ranni. Þrátt fyrir að setja mér ekki eiginlegt áramótaheiti þá hugsa ég engu að síður um eitt og annað sem betur mætti fara, hvað mig langar að gera á nýju ári o.s.frv. Þar sem ég er mikil fjölskyldumanneskja og margra barna móðir þá snúast þessir hluti oftar en ekki um fjölskylduna mína, ferðalög sem gaman væri að fara í, söfn sem ég vil heimsækja með börnunum, bækur sem ég ætla að lesa, uppskriftir sem gaman væri að prufa að elda, náttúruperlur hérlendis sem við verðum að sjá, að ógleymdum prjónaskapnum og annarri handavinnu sem er mitt aðal áhugamál.

Um áramót finnst mér mikilvægt að staldra aðeins við og íhuga árið sem var að líða, að minnast bæði sigra og sorga, markmiðana sem ekki voru efnd, velta feilsporunum fyrir sér og fagna öllu því sem vel var gert. Velta fyrir sér ástæðum þess að við opnuðum okkur fyrir miklum ævintýrum eða lokuðum dyrunum á önnur vegna hræðslu og ótta af einhverju tagi. Allra mikilvægast finnst mér þó að horfa fram á veginn, klisjan „lífið er núna“ er nefnilega enginn klisja heldur heilagur sannleikur. Það sem gerðist í gær er liðið og morgundagurinn ókominn, dagurinn í dag er í raun það eina sem skiptir máli og við vitum ekkert hversu mörg ævispor okkar verða.

Áramótin eru tími tækifæra, við fáum annað tækifæri. Tækifæri til þess að gera betur, gera meira, elska heitar, fyrirgefa, vera vinsamlegri, horfa fram á við, leggja að baki, sýna gæsku og hætta að velta fyrir sér þessu blessaða „hvað ef“ sem okkur er svo tamt að gera. Reynum frekar að taka því sem að höndum ber með æðruleysi, fögnum því sem verða vill með bros á vör. Í lífinu er svo margt sem við höfum enga stjórn á og þess vegna mikilvægt að muna eftir því sem við þó getum ráðið og stýrt, t.d. framkomu okkar við aðra, fyrirgefningunni, sýna kærleika, nýta tækifærin, vera jákvæð og gera ætíð sitt besta alveg sama hvað.

Á nýju ári ætla ég því að hafa eina aflið sem einhverju skiptir í lífinu að leiðarljósi, þ.e. ástina og kærleikann en eins og Steinunn Ólína sagði svo réttilega í upphafi árs þá lifum við til þess að elska og vera elskuð, allt annað er bara drasl. Ég mun því halda áfram að „lifa og njóta“.   .…já og vera sjúklega mjó og eiga ógeðslega mikið af peningum…enn ekki hvað!!

Ég ætla að skora á gamla vinkonu mína, Ragnheiði Hlín Símonardóttur frá Ketu í Hegranesi að taka við pennanum af mér.

Áður birst í 2. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir