Hvað veldur? Hver heldur?

Ég var eins og flestir orðlaus þegar fregnir bárust af uppsögn Hólmfríðar Sveinsdóttur hjá Iceprotein og Protis. Ekki varð ég minna undrandi þegar ég las í Feyki skýringar hins nýráðna framkvæmdastjóra Fisk Seafood á brottrekstrinum. Þegar fráfarandi framkvæmdastjóri, skrifaði svargrein við þeirri fyrri, vöknuðu enn fleiri spurningar.

Núverandi framkvæmdastjóri, sem ber hið viðeigandi nafn Friðbjörn, segir um brottrekstur Hólmfríðar: ,,vissulega hefði ég kosið að atburðarásin í þessu tilfelli hefði verið önnur en raun varð á. Það þykir mér leitt.....“  Fyrr í greininni segir hann: ,,er ég að sjálfsögðu ekki einn að verki“.

Þá vitum við það, en það sem við vitum ekki, er hvers vegna var Hólmfríði sagt upp og hver tók þá ákvörðun? Fyrirsláttur núverandi framkvæmdastjóra um ,,taprekstur undanfarinna ára mælist í hundruðum milljóna króna“ á augljóslega ekki við rök að styðjast og stappar nærri atvinnurógi. Að minnsta kosti er hræsni að láta sem Hólmfríður beri ein ábyrgð á rekstri félaganna, burtséð frá öðru. Hvað gekk mönnum þá til?

            Öllum geta orðið á mistök og hér hafa augljóslega verið gerð mjög alvarleg mistök. Hólmfríði er vikið úr starfi, ákaflega ósmekklega að því staðið og ekki annað að sjá en það hafi verið gert fyrir upplognar sakir. Væru nú ekki menn af meiri, að stíga fram, biðjast opinberlega afsökunar og bjóða Hólmfríði bætur fyrir hennar tjón, í von um að hægt væri að fá hana til starfa á ný.           

Kári Gunnarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir