Hvað viljum við ? - Ekki gera ekki neitt

Staða raforkumála á Íslandi er í miklu lamasessi og þarf að grípa til aðgerða til að laga þá stöðu strax! 
Miðað við nýútkomna skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum þá er fyrirsjáanlegur skortur á raforku á Íslandi. Í Skagafirði er staðan ekki góð hvorki í sambandi við afhendingaröryggi eða varðandi aðgang að orku til atvinnuuppbyggingar og þeirra orkuskipta sem eru fram undan í íslensku samfélagi. Þó hefur náðst að bæta afhendingaröryggi á Sauðárkróki með jarðstreng milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, en það er fjarri því að vera nóg því allur fjörðurinn er undir þegar kemur að raforkuöryggi og þarf að grípa til aðgerða til að laga þá stöðu án tafar, við munum öll veturinn 2019-2020.

Til að Skagafjörður geti haldið áfram að vaxa og dafna og sinnt áframhaldandi uppbyggingu öflugs og fjölbreytts atvinnulífs, byggt upp græna iðngarða og tekið þátt í orkuskiptum, þurfum við orku og hún er ekki til.

Í Skagafirði eru miklir möguleikar til orkuframleiðslu, vindorka, sjávarföll, sólarorka og vatnsorka, þessa kosti þarf alla að kanna til hlítar. Rammaáætlun er það tæki sem samkomulag náðist um að nota til að meta orkuöflunarkosti, en vinna við mat kosta á þeim vettvangi hefur legið niðri um tíma. Mikilvægt er að klára þá vinnu sem hafin var við rannsóknir á Skatastaðavirkjun og geta tekið upplýsta ákvörðun í framhaldinu. Því þarf verkefnastjórn rammaáætlunar að ljúka við það mat sem henni ber samkvæmt lögum og á meðan svo er ekki þá sé Skatastaðavirkjun í biðflokki. Verkefnisstjórn rammaáætlunar er skipuð fjórum faghópum og skiluðu einungis faghópar 1 og 2 fullnægjandi niðurstöðum. Niðurstöður faghóps 3 nýttust að mati verkefnisstjórnar ekki við endanlega röðun og flokkun virkjunarhugmynda og því ákvað verkefnisstjórn að meta viðfangsefni faghópsins, samfélagsleg áhrif virkjunarhugmynda, með öðrum hætti. Faghópur 4 skilaði þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjunarkosta sem til umfjöllunar væru í þessum þriðja áfanga rammaáætlunar verndar- og orkunýtingar.

Að framansögðu er ljóst að ekki liggja fyrir upplýsingar um alla þá þætti sem ber að meta samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 og hafa til hliðsjónar við mat á því hvort orkunýtingarkostir falli í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Samkvæmt 5. gr. laganna skal þá setja umrædda kosti í biðflokk en í „biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga. Það er mjög brýnt að bíða ekki með að meta mögulega orkukosti í Skagafirði heldur setja kraft í vinnuna, ekki stendur á vilja til að nota græna orkukosti í okkar samfélagi, því verður að tryggja að orka sé til staðar til að mæta þeirri þörf.

Það er ekki í boði að gera ekki neitt fyrir Skagafjörð.

Gísli Sigurðsson
skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir