Í lok fyrstu vinnuviku í samkomubanni

Ekki hefur farið fram hjá íbúum Skagafjarðar eða landsins alls að þegar klukkan sló eina mínútu yfir miðnætti aðfaranótt sl. mánudags, þá gekk í gildi samkomubann á Íslandi sem stendur yfir næstu fjórar vikurnar, eða til 13. apríl kl. 00:01.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins sem slíkt bann er sett en markmiðið er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem fer nú um heim allan.

Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf m.a. auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.

Samkomubannið hefur haft margvísleg áhrif á dagleg störf okkar allra. Öll eigum við ættingja eða vini sem þarf að gæta sérstaklega að á tímum sem þessum. Starf allra skóla í Skagafirði hefur einnig tekið breytingum svo og annarra stofnana sveitarfélagsins, stofnana ríkisins, fyrirtækja og félagasamtaka. Síðustu dagar hafa þannig vissulega ekki verið auðveldir fyrir alla og það eru áfram sérstakir tímar framundan.

Það er hins vegar sammerkt í viðbrögðum allra íbúa og starfsmanna í Skagafirði á þessum álagstímum að nú sem aldrei fyrr hafa menn snúið bökum saman og lagt sig fram um að reyna að tryggja að samfélagið starfi sem allra best og að áfram sé hlúð sérstaklega að þeim sem á þurfa að halda.

Jákvæðnin, samheldnin og skilningurinn sem við höfum fundið fyrir hefur lagt okkur lið við breytingar á skipulagðri starfsemi sveitarfélagsins. Fyrir það vil ég þakka íbúum Skagafjarðar og einnig vil ég þakka starfsmönnum fyrir afar skjót og góð viðbrögð undanfarna daga. Þið eigið öll mikið hrós skilið.


Með baráttukveðjum.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir