Íþróttakeppnir sagan rakin áfram ásamt nokkrum orðum um mótsbrag fyrri tíðar og merkan brautryðjanda - Kristinn Hugason skrifar

Friðþjófur Þorkelsson stjórnar Leirugleði hestamanna í Mosfellsbæ, „látið vaða á súðum og notið þess að að ærslast og vera til“, sjá bls. 176 í Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH 2004, höfundar: Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson o.fl. Ljm. úr safni SÍH, Sig.Sigm.
Friðþjófur Þorkelsson stjórnar Leirugleði hestamanna í Mosfellsbæ, „látið vaða á súðum og notið þess að að ærslast og vera til“, sjá bls. 176 í Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH 2004, höfundar: Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson o.fl. Ljm. úr safni SÍH, Sig.Sigm.

Kæru lesendur ég óska ykkur öllum góðs og gæfuríks árs, árið 2020 er nú horfið veg allrar veraldar og þótt alls ekki sé hægt að segja að allt sem því tengist þurfi endilega að hafa verið slæmt er heildarorðspor þess með eindæmum. Horfum þó vonglöð fram um veg á nýbyrjuðu ári og verður nú samantekt um sögu hestaíþrótta á Íslandi hér framhaldið en fyrst skal vikið ögn að mótsbrag fyrri ára.

Í síðustu grein var landsmótsins á Vindheimamelum getið en það var fyrsta landsmótið sem þar fór fram og hið þriðja sem haldið var á Norðurlandi; áður voru haldin mót á Þveráreyrum í Eyjafirði ´54 og á Hólum ´66. Næsta landsmót fór svo fram árið 1978 að Skógarhólum í Þingvallasveit. Þetta var fimmta og jafnframt síðasta mótið sem haldið var á Þingvöllum sjálfum eða þá að Skógarhólum í Þingvallasveit. Mikill ljómi lék eðlilega um mótshald á eða í næsta nágrenni við hinn forna helgistað þjóðarinnar, Þingvelli, en rétt eins og að hann stóð ekki undir hugmyndum rómantíkera nítjándu aldar sem þingstaður landsins varð mönnum sífellt ljósara að hann stæðist ekki heldur kröfur sem landsmótsstaður hestamanna.

Mótið á Vindheimamelum 1974 heppnaðist prýðilega; væsti hvorki um menn né hesta, a.m.k. miðað við þess tíma kröfur, á Þingvöllum hins vegar gekk á ýmsu 1978 og enn var fólki í fersku minni öll þau veðurfarslegu ósköp með meiru sem á gengu 1970 á þeim stað. Á mótinu 1978 var töluvert bras með hagamál og vörslu sýningahrossa: Tjaldstæðamál voru svo á pari við fyrri mót, þannig ægði saman þeim sem vildu njóta næturhvíldar og hinum sem una vildu við stöðugan gleðskap og stunda jafnvel útreiðar á tjaldsvæðinu. Þannig er til saga af manni sem reið um tjald á Þingvöllum og þegar tjaldbúinn skreið út, en það var kona, þekkti hún manninn því hann hafði og riðið tjald hennar um á næsta móti á staðnum þar á undan. Salernismálin voru síðan í algerum ólestri; fyrst og fremst var um kamra að ræða og þeir jafnvel svo útleiknir að menn stóðu (húktu) á setunum púandi vindla til að lifa skákina af, þá er þeir tefldu við páfann.

Þessi mál sem eru frumforsenda alls mótahalds var hins vegar komið í gott horf m.v. það er þá var krafist á Vindheimamelum. Snemma var þar farið að deila tjaldsvæðunum upp í svokölluð fjölskyldutjaldsvæði, þar sem ríkari kröfur voru um hófsamlegt framferði og næturró, og almenn. Komið upp haganlegum vatnssalernum, auk byggingar stóðhestahúss og stórauknu og bættu framboði af beitarhólfum. Sama þróun varð svo á Gaddstaðaflötum við Hellu en þar var næst haldið landsmót á Suðurlandi (1986) en í millitíðinni var haldið landsmót 1982 á Vindheimamelum. Hvað beitarhólfamálin varðaði og vörslu sýningahrossa hafði það svo og sín áhrif að jafnt og þétt dró úr að menn kæmu ríðandi til móts og eins hitt að þátttakendur fóru að koma hrossum sínum fyrir annars staðar en á mótsvæðunum sjálfum.

Hestakerrurnar orsökuðu ótrúlega framfarabyltingu í öllum þessum málum en þær komu til sögunnar á áttunda áratugnum. Að síðustu en alls ekki síst eru það svo vallarmálin sjálf, þau voru alls ekki í góðu lagi í Skógarhólum né á Þingvöllum og í fyrri greinum hefur stundum verið að vandkvæðum í þeim málum vikið, sjá t.d. grein í 33. tbl. Feykis 2019 en hana er að finna á heimasíðu Sögusetursins, www.sogusetur.is, undir slánni Fræðsla / Greinar forstöðumanns í Feyki. Ein megin ástæðan fyrir uppbyggingu mótsvæða á svæðum eins og t.d. Vindheima-, Melgerðis- eða Kaldármelum eða þá á Gaddstaðaflötum voru einmitt aðstæðurnar frá náttúrunnar hendi að leggja velli auðveldlega. Það er náttúrulega breytt í dag með stóraukinni véltækni og þar með bolmagni til að byggja upp velli frá grunni.

Þrátt fyrir þau vandkvæði sem hér hafa verið nefnd var mótið 1978 á margar hátt gagnmerkt, hátíðleiki landsmótanna var þá enn við lýði í hugum hestunnenda og fólk lagði mikið á sig til að sækja þau. Á þessu móti voru svo hestaíþróttir í fyrsta sinn á dagskrá landsmóts! Var þar um að ræða keppni í gæðingaskeiði annars vegar og tölti hins vegar. Stjórnandi beggja keppnanna var Friðþjófur Þorkelsson í Fáki.

Friðþjófur Þorkelsson
Friðþjófur Þorkelsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1932 og lést þar 20. febrúar 2008. Hann ólst upp á einu smábýlanna sem stóðu í Krossamýri á Ártúnshöfða en lengst af bjó hann í Mosfellsbæ. Hann nam trésmíði og starfaði við hana alla tíð en hestamennska; hestaíþróttir, ræktunarstarf, einkum þó fræðileg nálgun þess og hestaljósmyndun átti hug hans allan og starfaði hann ötullega að því öllu saman.

Friðþjófur tók gæðingadómarapróf árið 1973 en þá var fyrsta formlega námskeiðið haldið skv. nýrri útfærslu keppninnar (spjaldadómar), hann kom í framhaldinu að kennslu á námskeiðum fyrir nýja gæðingadómara, framkvæmd prófa og var yfirdómari á stórmótum. Hann stóð fyrir stofnun unglingadeildar Fáks og varð fyrsti formaður íþróttadeildar Fáks (1976) en það var fyrsta hestaíþróttadeildin sem stofnuð var og í framhaldinu fyrsti formaður Íþróttaráðs LH. (1977). Hann var mjög virkur á því sviði og tók þátt í að skapa keppnisgreinina gæðingaskeið.

Friðþjófur var virkur í starfi alþjóðasamtaka landssambanda Íslandshestafélaga (FEIF) um árabil og var heiðraður af samtökunum. Hann var einnig í nánu sambandi við landssamtök sumra aðildarlandanna, sérstaklega Danmörku, þar sinnti hann mikið kynbótadómum en hann var áhugasamur um þann þáttinn, ekki síst þekkingarfræðilega nálgun á sviðinu og hélt námskeið um þetta hugðarefni sitt. Skrifaði hann grein um sköpulag kynbótahrossa ásamt með Þorvaldi Árnasyni sem birtist í Hestinum okkar, 2. tbl., 23. árg. 1982: 68-75. Einnig birti hann grein um samband skeiðs og lendarbyggingar hrossa í Hestinum okkar, 1. tbl., 20. árg. 1979: 4-8. Friðþjófur sat í ritnefnd Hestsins okkar um árabil.

Friðþjófur var einn af forgöngumönnum hestaljósmyndunar hér á landi og nálgaðist það viðfangsefni með mjög markvissum hætti, s.s. með að mynda skipulega liti og litaafbrigði íslenska hestsins og hafði jafnframt ríkan vilja til að miðla öðrum af þekkingu sinni, samanber bókakaflann „Hestamyndir – Leiðbeiningar um töku hestamynda“, bls. 42-61 í ritinu Hesturinn minn – Handbók hestamanna, útg. LH 1979. Myndir eftir Friðþjóf hafa víða birst í blöðum og bókum, s.s. Íslenski hesturinn - litir og erfðir, höf.: Stefán Aðalsteinsson, útg. Ormstunga 2001 og í hans eigin bók Litir íslenska hestsins, útg. Edda 2006, kom út á ensku, þýsku og dönsku auk íslensku. Myndir hans voru og birtar á plakötum sem t.d. FEIF gaf út. Hann færði Sögusetri íslenska hestsins ljósmyndasafn sitt að gjöf með formlegum hætti þann 4. janúar 2008.
Eiginkona Friðþjófs var Louise Anna Schilt, þau voru barnlaus.

Niðurlagsorð
Í næstu grein verður enn haldið áfram þar sem frá er horfið í þessari heillandi sögu.

Kristinn Hugason

Áður birst í 1. tbl. Feykis 2021

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir