Jarðstrengslagnir í meginflutningskerfinu á Norðurlandi

Um miðjan desember birtist í samráðsgátt stjórnvalda skýrsla, sem unnin var að beiðni ráðuneyta Atvinnuvega- og nýsköpunarmála og Umhverfis- og auðlindamála. Í þessari skýrslu er fjallað um niðurstöður greininga á takmörkunum og áhrifum notkunar jarðstrengja á hæstu spennustigum flutningskerfa raforku. Í skýrslunni er til skoðunar meginflutningskerfi landsins, frá Brennimel í vestri norður um, austur og endað í Sigöldu.

Meginflutningskerfið er sá hluti flutningskerfisins sem sinnir raforkuflutningi milli landsvæða og samanstendur af línum á hæstu spennustigunum, 132 kV og 220 kV.  Markmiðið með greiningarvinnunni er að svara spurningum sem settar eru fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þingsályktun nr. 26/148 frá 11. júní 2018 um möguleika á því að nýta jarðstrengi með hagkvæmum hætti til þess að tengja saman lykilsvæði.

Í þessari grein er sjónum fyrst og fremst beint að niðurstöðum skýrslunnar varðandi Norðurlandið, þ.e. frá Blöndu austur að Kröflu. Í stuttu máli má segja að niðurstöður skýrslunnar komi fyllilega heim og saman við þær niðurstöður sem Landsnet hefur áður birt, t.a.m. í skýrslu frá því í mars 2017. Raunar tekur skýrsluhöfundur það fram með afgerandi hætti að góður samhljómur sé á milli niðurstaðnanna. „Rennir það frekari stoðum undir áreiðanleika fyrri greininga [23, 24] og þessarar greiningar hvað varðar lengdatakmarkanir háspenntra jarðstrengja“, eins og segir orðrétt í skýrslu ráðuneytanna.

Í skýrslunni er bent á að strenglagnir þurfi að skoða í víðu samhengi. Strenglögn í einni línu hefur áhrif á mögulega strenglengd í annarri línu innan sama svæðis. Við hjá Landsneti höfum bent á að jarðstrengsmöguleikar í fyrirhugaðri Blöndulínu 3 séu ekki nema 3 – 5 km sé mögulegur „jarðstrengskvóti“ í Hólasandslínu 3 nýttur til þess að fullnægja skilyrðum í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína (þ.e. í grennd við Akureyrarflugvöll). Nýja skýrslan staðfestir þetta með afgerandi hætti.

Í raun má segja að skýrslan staðfesti það að svigrúm til jarðstrengslagna í nýrri 220 kV byggðalínu sé það takmarkað að það eigi fyrst og fremst að nýta til þess að uppfylla stefnu stjórnvalda um raflínulagnir. Meginstefnan eigi að vera sú að 220 kV meginflutningskerfið sé í lofti. Jarðstrengir nýtast mun betur á lægri spennustigum. Það hefur Landsnet bent á margsinnis og það er staðfest í skýrslu ráðuneytanna. Til að mynda segir í skýrslunni að á meðan möguleg jarðstrengslengd í Blöndulínu 3 (220 kV) sé á bilinu tæpir 4 til rúmir 5 km, sé mögulegt að leggja 19 – 32 km af Rangárvallalínu (milli Akureyrar og Varmahlíðar) eða 32 km af Blöndulínu 1 (milli Varmahlíðar og Blöndu) í jarðstreng. Báðar þessar síðartöldu línur eru á 132 kV.

Þessi skýrsla er afar mikilvægt innlegg í vinnuna við að byggja upp traust og öruggt flutningskerfi.

Magni Þór Pálsson verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir