Kári Viðarsson handhafi Landstólpans 2025

Kári sagði í þakkarræðu sinni að verðlaunin tilheyrðu samfélaginu öllu. Mynd: Hjalti Árnason
Kári sagði í þakkarræðu sinni að verðlaunin tilheyrðu samfélaginu öllu. Mynd: Hjalti Árnason

Kári Viðarsson, Frystiklefanum á Rifi, er handhafi Landstólpans 2025. Landstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar, var afhentur í fjórtánda sinn á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Breiðdalsvík 8. maí sl. en Landstólpinn er veittur árlega einstaklingum, fyrirtækjum og hópum sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum.

Landstólpanum er ætlað að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fram fer í landsbyggðunum og um leið að vekja athygli á starfi Byggðastofnunar. Við val á Landstólpa ár hvert er leitast eftir því að viðkomandi hafi gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni, aukið virkni íbúa eða jafnvel fengið þá til beinnar þátttöku í tilteknu verkefni og aukið samstöðu og jákvæðni íbúa.

Í ár bárust 35 tilnefningar vegna samtals 25 aðila/verkefna víðsvegar að af landinu. Ljóst er að mörg í þeim hópi sem hlutu tilnefningu hefðu sómt sér vel sem Landstólpinn 2025.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Kára Viðarssyni, Frystiklefanum á Rifi, Landstólpann árið 2025.

Kári er stofnandi og eigandi Frystiklefans á Rifi. Hann nam leiklist við Rose Bruford College í London og útskrifaðist þaðan árið 2009. Hann hefur unnið sem sjálfstætt starfandi leikari, höfundur og framleiðandi við fjölda leiksýninga í Frystiklefanum og í samstarfi við önnur leikhús og leikhópa. Auk þess hefur hann staðið fyrir ýmsum öðrum viðburðum á Hellissandi og Rifi í gegnum Frystiklefann. Þar má t.d. nefna Tónlistarhátíðina „TeneRif“ og götulistahátíðina „Hellissandur Street Art Festival“ þar sem hús um allan Hellissand hafa verið skreytt listaverkum.

Fá menningarverkefni á landsbyggðinni hafa haft eins mikil samfélagsleg áhrif og Frystiklefinn á Rifi. Kári Viðarsson hefur með stofnun menningarmiðstöðvarinnar sýnt fram á hvað listir og faglegt menningarstarf geta haft öflug áhrif á byggðaþróun í landsbyggðunum. Áhrifin hafa verið svo jákvæð að í daglegu tali er rætt um „Frystiklefaáhrifin“ og gjarnan ber nafn Kára og Frystiklefans á góma þegar rætt er um menningarstarf í landsbyggðunum. Færa má rök fyrir því að menningarlíf, mannlíf og atvinnulíf hafi orðið fjölbreyttara á Vesturlandi með tilkomu starfsemi Frystiklefans og laðað að fjölda gesta og nýbúa.

Það er Byggðastofnun mikill heiður að veita Kára Viðarssyni samfélagsviðurkenninguna í ár og óskum við Kára innilega til hamingju með Landstólpann. Um leið vonumst við til að viðurkenningin verði öðrum hvatning um að láta drauma sína rætast og finna ástríðu sinni farveg nákvæmlega á þeim stað sem þeir kjósa helst, hvar á landinu sem er.

Framtíðarsýn Byggðastofnunar Blómleg byggð um land allt“, á því hér einkar vel við.

Viðurkenningargripurinn í ár er trélistaverk, lágmynd úr tré, eftir myndlistarkonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur en hún veitir Alþýðuhúsinu á Siglufirði forstöðu og er þar listrænn stjórnandi. Aðalheiður er hvað þekktust fyrir viðarskúlptúra sína, bæði stóra sem smáa en margir þekkja stóra skúlptúra hennar þar sem hún býr til manneskjur úr spýtum. Hún hefur einnig mikið fengist við málverk, lágmyndir og framið gjörninga. Þess má geta að Alþýðuhúsið á Siglufirði hlaut Eyrarrósina árið 2023 en það er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig hlýtur Landstólpinn 1.000.000 krónur í verðlaun.

Landstólpann hafa hlotið einstaklingar, fyrirtæki og hópar sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum. Markmið með Landstólpanum er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og er viðurkenningin því hugsuð sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun.

Fleiri fréttir