Kurteisi kostar ekkert | Leiðari 18. tölublaðs Feykis

Flokkspólitísk dagblöð voru lenskan framan af síðustu öld. Stjórnmálaflokkarnir voru lengi vel fjórir og hver og einn hafði sína málpípu þar sem réttu skoðanirnar voru predikaðar – í raun bergmálshellir þeirra tíma. Framsóknarmenn lásu Tímann, kratar Alþýðublaðið, kommar Þjóðviljann og íhaldið Moggann.

Sennilega þykir flestum lítil eftirsjá í flokkspólítískum blöðum og því margir sem urðu ánægðir þegar þau lögðu upp laupana hvert af öðru. Öll nema auðvitað Mogginn. Í staðinn komu frjálsir og óháðir miðlar á borð við Dagblaðið, Vísi, Helgarpóstinn, Eintak og síðar Fréttablaðið sem hafa nú öll lagt upp laupana. Nema Mogginn. Það má hins vegar kannski segja að nú skipti fjölmiðlar þúsundum hér á landi, þar sem skautun og þröngsýni viðgengst á stundum, með tilkomu samfélagsmiðlanna.

Raunin er sú að flestir landsmenn eiga eigin fjölmiðil. Það er nánast undantekning ef einhver er ekki á Facebook, Insta, SnapChat eða TikTok. Margir hafa sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar, láta þær í ljós á sínum vegg og skilja eftir skilaboð á veggjum annarra. Oft má lesa athyglisverð spjöll en stundum helgispjöll. Það eru nefnilega margir sem eru með vitlausar skoðanir sem veggeigendur kæra sig ekki um. Umburðarlyndi gagnvart vitlausum skoðunum er oft lítið og fólk stundum beðið – ekki endilega kurteisislega – að halda sig fjarri því skoðanir þeirra eru ekki veggfóðrara að skapi.

Það kemur jafnvel fyrir að fólk sem telur sig umburðarlynt – gott fólk með heilbrigðar skoðanir (!) – nenni ekki öðru fólki og þeirra skítlegu skoðunum. Það má til dæmis nefna að það sé erfitt þessa dagana að segjast ætla að horfa á Eurovision eða gefa til kynna að Kata Jakobs fái þitt atkvæði í forsetakosningunum. Maður gæti nefnilega fengið það óþvegið í netheimum. Umræðan um forsetaframbjóðendur síðustu vikur hefur oft verið fyrir neðan allar hellur og sérstaklega sú árátta samfélagsmiðlara og virkra í athugasemdum að tala illa um þá frambjóðendur sem þeir hyggjast ekki kjósa.

Þó ekki standi til að predika skerðingu málfrelsis hér þá er það auðvitað svo að það er ekki sama hvað við setjum frá okkur á samfélagsmiðlum, í skilaboðum eða bara í lífinu. Það hefur sjaldan sakað að draga andann djúpt, telja upp að tíu og lesa skilaboðin yfir áður en þau eru send út í netheima – já, og lagfæra þau fyrst ef farið er yfir strikið.

Umburðarlyndi hlýtur að vera dyggð og Gummi Ben segir að kurteisi kosti ekkert. Við getum auðvitað öll gert betur – vöndum okkur í lífinu.

Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir