Kvenfélag Sauðárkróks :: Áskorendapenni, Guðbjörg Bjarman, brottfluttur Króksari

Ég vil byrja á að þakka dóttur minni, Bryndísi Þóru Bjarman fyrir að skora á mig. Ég hef marga fjöruna sopið um mína ævidaga og því af nógu að taka þegar kemur að efnisvali í þennan pistil. Eftir smá yfirlegu ákvað ég að velja smá stiklu úr löngu erindi sem ég flutti á 100 ára afmæli Kvenfélags Sauðárkróks, fyrir nokkrum árum síðan…

Með þorrablótum Kvenfélags Sauðárkróks hófst mikil menningarþróun hjá félaginu, því þá uppgötvuðust miklir listamannshæfileikar hjá ótrúlegustu konum. Árið 1971 var stofnaður Þjóðdansaflokkur í tengslum við þorrablót og varð með stofnun hans mikill uppgangur hjá félaginu. Um svipað leyti stofnuðum við kvenfélagskonur listaflokkinn Rauðsokkur og þessi frægi flokkur gerði víðreist. Ég ætla að grípa hér niður í staðarblaðið okkar á þeim tíma, Stefán á Alþingi, og lesa gagnrýni eða lof um nokkrar af listakonunum.

„Rauðsokkur sýndu hér óperuna Skagfirðingurinn fljúgandi við mikinn fögnuð áhorfenda og hefur slík innlifun, tilfinning og þekking á list aldrei sést hér á Sauðárkróki. Ég má til með að minnast á frábæra túlkun hjá sumum konunum.

Þar vil ég fyrst nefna frú Fjólu Þorleifsdóttur í Dansi nautabanans. Aldrei hef ég séð aðra eins næmni og tilfinningu í dansi og þegar þessi hálfspænska senjoríta tók að lokum þrefalt kraftstökk ætlaði allt um koll að keyra í salnum. Það er merkilegt að venjuleg ljósmóðir norðan úr Dumbshafi skuli geta sýnt svona suðræna tilburði. Ég hef heyrt sagt að listakonan fari alltaf til Mallorca á sumrin í frekara dansnám, en sé alltaf mætt hér á Krók níu mánuðum eftir sæluviku, tilbúin í djobbið.

Næst er að minnast á yngismey eina, Stellu á Mel, öðru nafni Aðalheiði Ormsdóttur. Hún verður okkur alltaf minnisstæð í hlutverki Vorgyðjunnar þegar hún dansaði Dans Vorgyðjunnar. Þarna sveif hún um sviðið líkt og vorvindar glaðir og hreif alla með yndisþokka sínum, þessi smáfætta, móeygða vorgyðja.

Gilla og Rakel dönsuðu hinn rammíslenska vikivaka Logandi hegrann. Þær voru íklæddar mjög svo efnislitlum fötum og var yndisþokki þeirra svo mikill í dansinum að jafnvel blindir menn heilluðust og þótti bræðrabylta þeirra í lok vikivakans sérlega vel útfærð.

Hinn landskunni línudansari og uppeldisfræðingur, frú Helga Sigurbjörnsdóttir, dansaði línudansinn Hvarf Lagarfljótsormsins og var hún svo æðislega fífldjörf er hún tiplaði eftir 15 metra hárri línunni að það steinleið yfir jafnvel hraustustu karlmenn. Heyrt hef ég sagt að hún hafi lært þessa íþrótt er hún var ung heima í föðurgarði, austur á Héraði, þar sem hún æfði sig í línudansinum á baki Lagarfljótsormsins.

Aðalsöngkonan og prímadonnan í hópnum var frú Minna Bang og þótti túlkun hennar á texta elektrónísku ballöðu Rúnu Bjössa alveg sérstaklega hrífandi, einkum og sér í lagi vegna þess að enginn skildi orð af því sem hún söng. Ballaðan hennar Rúnu hét Ljósaperan einmana og var hún þakkaróður til rafveitunnar og allra karla sem þar vinna.

Forstjórinn í Sútun, frú Sigríður Árnadóttir, var aðalballerínan í Dansinum í Hruna og var hún íklædd gærum frá hvirfli til ilja og var það tilkomumikil sjón að sjá hana koma inn í öllum þessum reifum.

Að lokum vil ég minnast á hirðfíflið í hópnum, frú Guðbjörgu Bjarman, sem dansaði sóló í dansinum víðfræga Sátt mega þröngir sitja, en það var bara svo þröngt á sviðinu að hún komst ekki fyrir – mér fannst það lélegt.“
Þess má geta að staðarblaðið Stefán á Alþingi var að sjálfsögðu hugarfóstur kvenfélagskvenna…

Ég skora á Önnu Pálu Gísladóttur að skrifa næsta pistil, hún rúllar því upp!

Áður birst í 24. tbl.  Feykis  2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir