Landsbyggðarleikarnir :: Áskorendapenni - Valgerður Ágústsdóttir frá Geitaskarði

Lífið er ríkt af alls konar tilviljunum og hendingum. Ég er ánægð með þá niðurstöðu að hafa fæðst á Íslandi. Og tilheyra þessari sérkennilegu, stoltu, duglegu og úrræðagóðu þjóð, sem er þó líklega óvenju þrætugjörn, ef horft er til hlutfallslegs fjölda mála sem enda fyrir dómstólum hér á landi í samanburði við nágrannalönd okkar.

Eftir því sem árunum hefur fjölgað hef ég verið æ ánægðari og þakklátari fyrir að hafa alist upp á landsbyggðinni. Ef Íslendingar eru skrítnir þá vitum við að landsbyggðarfólk er enn skrítnara. Íslensk kvikmyndagerð, þáttagerð og fjölmiðlar hafa í gegnum tíðina verið óþreytandi við að rissa upp þumbaralegri ímynd af landsbyggðarfólki. Yfirleitt eru þetta hálfgerðir lúðar,almennt hirðulausir um  útlit sitt, vel í holdum og greind undir meðallagi. Gott ef Crocs skór og flíspeysa koma ekki líka við sögu. Svolítið eins og  skrítni frændinn eða frænkan sem flestum er þokkalega við en skammast sín í aðra röndina dálítið fyrir.

Ekki það að ímyndin af höfuðborgarbúanum er ekki alltaf beysin heldur. Útúrstressaður, fastur í umferð og almennt uppfullur af alls konar óhamingju, en hugsar þó um heilsuna, klæðir sig smekklega og býr yfir betri greind og ályktunarhæfni þó munnvíkin vísi niður. Lúkkar betur á skjánum, en líklega ekki eins skemmtilegur í partýi. Kalt mat.

En sé staðalímyndin af landsbyggðarlýðnum hálf broguð þá er það lítið á við þá mynd sem landinn hefur af bændum. Skrítnara fólk er hreinlega ekki að finna. Og engin furða sé haft í huga að íslensk dagskrárgerð í sjónvarpi undanfarna áratugi hefur helst kynnt til sögunnar sérlundaða einbúa á afskekktum stöðum. Helst svo forna í háttum að þeir gætu gengið inn í Íslendingasögurnar án þess að vekja sérstaka athygli leikenda þar. Vissulega áhugaverðar persónur en tæplega raunsönn lýsing á íslenskum bændum nútímans. Sem geta þó vissulega verið skrítnir.

En samt, þrátt fyrir að vera skrítinn Íslendingur sem er ekki bara uppalin á landsbyggðinni heldur líka í sveit, á Geitaskarði í Langadal, þá er ég þakklát. Ekki bara vegna þess að skrítið fólk er almennt áhugaverðara. Einnig vegna þess að það hefur gefið mér meiri innsýn í hvað það þýðir að búa á Íslandi. Ekki bara á suðvesturhorninu þar sem allt aðgengi að allri verslun og þjónustu er auðvelt og veður verða oftast ekki eins válynd. Líklega áttar höfuðborgarbúinn sem hefur lítil tengsl við landsbyggðina sig ekki á forréttindum sínum þegar kemur að þessum þáttum. Jafnvel mætti tala um ákveðna firringu og skilningsleysi. Hamfaraveðrið norðan heiða í desember, afleiðingar þess og umræða sýndi okkur það.

Mögulega mætti auka skilning sumra höfuðborgarbúa á aðstæðum landsbyggðarinnar með því að bjóða upp á raunveruleikaþátt í anda Survivor. Hver heldur lengst út að búa við þær aðstæður þar sem krydd frá Fjarskanistan fæst ekki, rafmagnsleysi og ófærð tíðir fylgifiskar vetrarveðra og aðgengi að 3. stigs og jafnvel 2. stigs heilbrigðisþjónustu felst í að fljúga eða keyra um langan veg, oft við erfið skilyrði. Heiti þáttanna gæti verið Landsbyggðarleikarnir.

En hvað um það, á þessum árstíma er einboðið að enda skrifin á að óska öllum til sjávar og sveita, höfuðborgar og landsbyggðar gleðilegs Þorra. Megi árið verða okkur öllum gifturíkt.
Ég bið Sigurbjörgu Hvönn Kristjánsdóttur, gamla vinkonu og bekkjarsystir úr Húnavallaskóla að taka næst við kefli áskorandans.

Áður birst í 3. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir