Langar að gefa 11 ára sjálfum sér fimmu / HAUKUR SINDRI

Haukur Sindri Karlsson er ungur og upprennandi tónlistarmaður sem vakið hefur verðskuldaða athygli m.a. fyrir aðkomu sína að tónlistarvinnu í uppsetningum leikverka við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann hefur verið að gefa út eigin tónlist sem hægt er að finna á Spotify, undir Haukur Karls, og fyrir skömmu gaf hann út, í samvinnu við félaga sína á Króknum Atla Dag Stefánsson og Ásgeir Braga Ægisson, nýtt lag, Let you down. Haukur Sindri stundar nú nám í Danmörku sem væntanlega leiðir til BA-prófs og heitir á ensku „Music Production“. Feykir leitaði til Hauks Sindra og fékk hann til að svara nokkrum laufléttum Tón-lystar spurningum.

Nafn og heimili: Haukur Sindri Karlsson - Dalslandsgade, Kaupmannahöfn

Árgangur: 1999

Hvar ólstu upp? Fyrri partinn á Sauðárkróki, en sá seinni í Eyjafjarðarsveit.

Hljóðfæri: Gítar, trommur, hljómborð, bassi, ukulele, munnharpa.

Helstu tónlistarafrek: Enn sem komið er að komast inn í RMC tónlistarháskólann. 

Uppáhalds tónlistartímabil? Dagurinn í dag. Finnst alltaf gaman að heyra í hvaða átt tónlistin er að fara. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég er mikið að setja á kósí sólseturs-playlistann minn þessa daganna og slaka á úti í garðskála þar sem að veðrið er geggjað um þessar mundir. Á þeim lista eru t.d: J. Cole, Frank Ocean, Post Malone, Blood Orange, Billie Eilish og Drake. 

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Alls konar klassískt rokk, þökk sé pabba mínum. En Pink Floyd stendur mikið upp úr. Það æði gekk svo langt að einn daginn tók ég með mér útprentaða mynd af Nick Mason (trommuleikara) í leikskólann, og eru þeir ein uppáhalds hljómsveitin mín ennþá í dag. 

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Lagið Who Says með John Mayer. 

Hvaða græjur varstu þá með? Þá var ég með Sony Ericson farsíma og eyddi allri minni 500kr inneign í að niðurhala laginu á meðan ég var í útlöndum – foreldrarnir voru ekki kátir, en ég bara varð að eignast þetta lag. Langar að gefa 11 ára sjálfum mér fimmu fyrir að hafa gert það, því að þetta lag hefur haft mikil áhrif á mig. 

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Sturtu-playlistinn minn inniheldur tónlistarmenn eins og Drake, Kanye, Khalid, Clean Bandit og Avicii. Mögnuð leið til að peppa sig fyrir daginn!  Bítlarnir eða Bob Dylan? Bítlarnir! Ekki spurning. Besta hljómsveit allra tíma. 

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Draumur um Nínu 

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég er því miður yfirleitt beðinn um að víkja frá hljómflutningstækjunum þegar ég ætla mér að spila tónlist í partýum af því ég spila ekki Séra Bjössa eða eitthvað svoleiðis. En ef þetta er mitt partý, og það þarf að vera „dúndur“ þá myndi ég spila vel valin lög með Drake og Travis Scott til að koma öllum í gang. Sennilega Sicko Mode fyrst alla vega. 

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra?  Ég set hiklaust á playlistann minn „Góðan Dag“ sem samanstendur af þægilegum lögum með vel völdum tónlistarmönnum eins og Bítlunum, Fleetwood Mac, Lana Del Rey, John Mayer, Billie Eilish o.fl. 

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér?  Ef ég mætti ráða alveg, þá myndi ég skella mér á John Mayer með Atla Degi Stefánssyni í London. 

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Paul McCartney, alveg óteljandi sinnum. 

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég get bara alls ekki gert upp á milli Abbey Road með Bítlunum og Born & Raised með John Mayer. 

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Engin ákveðin röð:  From Time - Drake If I Ever Get Around To Living - John Mayer Brooklyn Baby - Lana Del Rey Dreams - Fleetwood Mac The Long And Winding Road - The Beatles Theme from „A Summer Place ” - Percy Faith and his Orchestra.

Áður birst í 17. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir