Látum tækifærin ekki fara framhjá okkur

Þann 8. september sl. birti Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar grein á feykir.is þar sem farið var yfir stöðu mála er varðar framkvæmdir við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki, húsnæði sem nú hýsir glæsilega sýningu 1238.

Með eða á móti?
Ljóst hefur verið frá síðustu kosningum að fulltrúar VG hafa verið á móti aðkomu sveitarfélagsins að þessu verkefni. Raunar skiptu fulltrúar VG um skoðun í málinu viku eftir samþykkt samnings á milli Sýndarveruleika og Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem byggðarráð samþykkti á fundi sínum 2. mars 2018, án nokkurra athugasemda frá fulltrúa framboðsins í byggðarráði. „En það má skipta um skoðun“ sagði Álfhildur um málið og það var svo sannarlega gert. Með því er reyndar líka verið að staðfesta fyrri afstöðu VG.

Auðvitað er það þannig að við þurfum ekki öll að vera sammála í öllum málum. Við eigum að halda skoðunum okkar á lofti, leggja fram rök og síðan er tekin ákvörðun - ákvörðun sem meirihluti er fyrir.

Varðveitum götumyndina
Það er ágætt að rifja upp að á sínum tíma lá fyrir heimild til að rífa húsin við Aðalgötu 21 að hluta til og ljóst að Kaupfélag Skagfirðinga, sem var eigandi húsanna, hafði ekki áform um að gera þau upp, og voru þau orðin beinlínis hættuleg þeim sem gengu um götuna. Því var tekin ákvörðun um að fara í makaskipti og hefjast handa við að laga húsnæðið með það að markmiði að vernda götumyndina og endurgera húsin í upprunalegri mynd. Um það var fullkomin samstaða í byggðarráði og til marks um þá samstöðu voru viðgerðir á húsnæðinu boðnar út í tvígang, fyrst lokað útboð og síðar opið útboð. Engin tilboð bárust og því var ákveðið að ganga til samninga við Performa um verkið. Engar athugasemdir voru heldur gerðar við þá ákvörðun.

Byggðasafnið er ekki á götunni
Til stóð að sýningar Byggðasafnsins myndu fara þar inn en ljóst var frá upphafi að það þyrfti eitthvað meira með. Sýningin um smiðjurnar sem var uppi í Minjahúsinu um 60fm en Aðalgata 21 er um 1100fm.

Álfhildur Leifsdóttir hefur haldið því fram að Byggðasafnið sé á götunni. Þessu er búið að halda fram frá síðustu kosningum og að enginn áhugi sé fyrir framtíð Byggðasafnsins innan raða meirihluta sveitarstjórnar. Þetta er rangt.

Byggðasafnið er ekki bara sýning heldur safn sem hefur m.a. það markmið að safna, varðveita, rannsaka, miðla og fræða. Stór hluti varðveittra muna safnsins hefur verið varðveittur í gamla Minjahúsinu. Byggðasafnið er einnig með starfsemi í Glaumbæ þar sem tugþúsundir koma á hverju ári og njóta þess sem fyrir augun ber. Kvartað hafði verið yfir því að húsnæði Byggðasafnsins í Minjahúsinu á Sauðárkróki stæðist ekki kröfur og nauðsynlegt væri að fara í endurbætur eða finna nýtt húsnæði. Búið er að fjárfesta í tímabundnu varðveisluhúsnæði fyrir Byggðasafn Skagfirðinga og munu flutningar hefjast mjög fljótlega. Stóra myndin er svo sú að ef áform ganga eftir munu framkvæmdir við nýtt menningarhús á Sauðárkróki hefjast á næsta ári en þar er gert ráð fyrir skrifstofum og varanlegu varðveislurými fyrir Byggðasafn Skagfirðinga. Verður það eitt fullkomnasta varðveislurými landsins. Eftir stendur að sýningin um smiðjurnar sem var í Minjahúsinu er óuppsett. Alltaf hefur verið stefnt að því að setja þá sýningu aftur upp og verður það gert. Byggðasafn Skagfirðinga er því ekki á götunni. Það er að mínu viti lítilsvirðing við margverðlaunað safn að tala þannig um það.

Auknar framkvæmdir
Ljóst er að framkvæmdir við Aðalgötu 21 hafa farið fram úr kostnaðaráætlun sem er aldrei gott. Hinsvegar ber að benda á að stór hluti aukins kostnaðar er tilkominn vegna viðbótarverka, verka sem ekki voru inn í áætlun en ákveðið var að fara í á seinni stigum. Má þar nefna sprinklerkerfi, lagfæringar á gólfi á efri hæð Gránu, vindfang norðan við húsið, auk þess sem Grána var viðhaldsfrekari en ráð var gert fyrir í áætlunum. Einnig var farið í meiri framkvæmdir á efri hæð Gránu og í kjallara. Stór hluti fjárfestingarinnar rennur til verktaka í Skagafirði sem skilar sér aftur inn í hagkerfið hér heima.

Við vitum að erfitt getur verið að áætla kostnað í uppgerð gamalla bygginga en engu að síður er mikilvægt að þær áætlanir sem lagðar eru fram séu sem næst raunkostnaði þegar upp er staðið. Það er verkefni allra sem eru í framkvæmdum.

Fyrir síðustu kosningar sögðu fulltrúar VG að kostnaður við verkefnið yrði 770 milljónir króna á ári út samningstímann. Miðað við það má áætla að heildarkostnaður sveitarfélagsins verði yfir 23 milljarðar á 30 ára tímabili. Það sér það hver maður að slíkar tölur eiga sér enga stoð í raunveruleikanum enda öllum ljóst að slíkt myndi sliga sveitarsjóð strax á fyrsta ári. Það er ótrúlegt að kjörnir fulltrúar beri slíkan skáldskap á borð fyrir kjósendur. Við vonum að kjörnir fulltrúar viti betur því annars efumst við um hæfni þeirra til að reka sveitarfélag. Við skorum á íbúa að skoða ársreikninga sveitarfélagsins með þeim gleraugum að finna 770 milljóna króna árlegan kostnað vegna verkefnisins því ljóst er að slík upphæð myndi verða mjög áberandi og ætti ekki að fara framhjá neinum.

Ný fjárfesting – nýir möguleikar – ný störf
Það er ekki síður mikilvægt að fá nýtt fjármagn inn á svæðið og ný fyrirtæki til að festa rætur. Mikið hefur verið talað um að fá nýja fjárfestingu inn á svæðið og hafa öll framboð í sveitarstjórn verið sammála um mikilvægi þess. Það er þekkt að sveitarfélög hafa aðstoðað við slíkt í byrjun, aðstoði fyrirtæki við að koma sér fyrir. Má nefna í þessu samhengi sjóböðin á Húsavík, Landnámssetrið í Borganesi og Steinullarverksmiðjuna hér á Sauðárkróki. Við eigum að bjóða nýja fjárfesta velkomna og verkefni sem geta eflt samfélagið hér í Skagafirði. Hafa ber í huga að 12 manns eru nú þegar á launaskrá hjá Sýndarveruleika ehf., svo sem lesa mátti nýlega um í héraðsfréttablaðinu Feyki. Er um að ræða ný störf sem voru ekki til áður.

Nýsköpun í ferðaþjónustu af þessum toga hefur skipt sköpum í því að hingað til Skagafjarðar hefur fjöldi skemmtiferðaskipa boðað komu sína á næstu árum. Einnig er þessi viðbót við afþreyingarflóru í ferðaþjónustu mikilvæg til að fá ferðamenn til að dvelja lengur í Skagafirði.

Það eru einnig miklir möguleikar bundnir í þeirri tækni sem forsvarsmenn 1238 hafa komið með í Skagafjörð. Hægt er að nýta aðstöðu í sýndarveruleika í aðra leiki og eins í fræðslu og miðlun fyrir skóla í leik og kennslu. Það hljóta að liggja tækifæri í því að a.m.k. skólar hér í Skagafirði nýti þá tækni sem 1238 hefur upp á að bjóða fyrir nemendur sína og viljum við skora á skólastjórnendur að skoða þann möguleika með opnum huga.

Horfum fram á veginn
Eftir standa hús sem mikil prýði er af og götumynd sem er gjörólík því sem fyrir var. Aðalgata 21 hýsir nú nýja og glæsilega sýningu 1238 Baráttan um Ísland sem ber fagurt vitni öllum þeim sem að verkefninu koma. Sýningu sem á án efa eftir að verða segull fyrir Skagafjörð og Sauðárkrók þegar kemur að því að fjölga ferðamönnum á svæðinu.

Hverju vildum við ná fram með verkefninu?

•           Lagfæringu á Aðalgötu 21 og bættri götumynd
•           Fá nýja þekkingu inn á svæðið – efla nýsköpun
•           Fjölga störfum í sveitarfélaginu og auka fjölbreytni þeirra
•           Efla ferðaþjónustu í Skagafirði – laða að fleiri ferðamenn
•           Koma Skagafirði betur á kortið hjá þeim fjölmörgu ferðamönnum sem heimsækja landið á hverju ári – mynda nýjan segul
•           Vera í fararbroddi þegar kemur að sögutengdri ferðamennsku

Fyrirspurn Álfhildar Leifsdóttur var í mörgum liðum og við vonum að svör hafi komið við flestu sem hún var að spyrja um. Okkur langar að fá einfalt svar frá Álfhildi við einni spurningu sem er þessi: „Ef sveitarstjórnarfulltrúi VG væri í meirihluta, myndi hún leggja til riftun á þeim samningi sem til staðar er við Sýndarveruleika ehf.?“ Þá ber að hafa í huga að forsenda þess að umrædd sýning var sett upp á Sauðárkróki er sá samningur sem sveitarfélagið gerði við Sýndarveruleika ehf. og að án aðkomu sveitarfélagsins hefði aldrei orðið af verkefninu. Svar við þessari spurningu er mikilvægt að vita fyrir sveitarstjórnarfólk, íbúa og rekstraraðila sýningarinnar 1238 Baráttan um Ísland.

Við erum sannfærðir um að þessi sýning á eftir að stuðla að fjölgun ferðamanna í Skagafirði og styðja við þau fjölmörgu fyrirtæki sem þar eru. Við eigum að fagna nýsköpun og nýjum tækifærum og standa saman í því verkefni að efla Skagafjörð, fjölga störfum og bæta búsetuskilyrði íbúa. Við eigum að hafa hugrekki til að þora að taka ákvarðanir og grípa ný tækifæri sem við teljum að komi samfélaginu til góða, annars fljúga þau einfaldlega framhjá okkur.

Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson, oddvitar meirihluta sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir