Leyfir illa upplýstum vinnufélögum bara að pústa :: Liðið mitt Alex Már Sigurbjörnsson Liverpool

Alex Már Sigurbjörnsson, veitukall hjá Skagafjarðarveitum, er fæddur og uppalinn á Króknum en flutti sig fram í Varmahlíð og býr þar í dag með fyrirliða meistaraflokksliðs Tindastóls. Ekki fer miklum sögum af afrekum Alex á völlum fótboltans á síðu KSÍ annað en að hann hafi skipt úr Tindastól í Drangey og fengið leikheimild um miðjan júlí 2017. Alex er þekktari fyrir fimi sína á bassagítarinn þar sem hann er m.a. meðlimur Hljómsveitar kvöldsins. Hann vill þakka Halldóru frænku sinni fyrir þessa áskorun og dembir sér í spurningarnar.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Ég er búinn að halda með Liverpool frá því að ég man eftir mér. Líklega hefur rauði liturinn heillað mig þegar ég mátti kaupa fyrsta gallann.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Þeir munu líklega eiga ágætis tímabil í ár. Sé þá fyrir mér í topp fjórum. Enn er líklega fullsnemmt að fara koma með einhverjar titilóskir þar sem það hefur nú komið í bakið á manni stundum.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Já, mjög svo. Vel þjálfað og mannað lið sem spilar skemmtilegan sóknarbolta. Mættu samt kannski bæta við einum framherja.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Það vill nú þannig til að ég vinn á þannig vinnustað að meirihlutinn heldur með Júnæted. Þar að leiðandi er það eiginlega óumflýjanlegt að lenda stundum í rifrildi við þá, en maður veit svo sem að þeir vita ekki betur og leyfir þeim því oft bara að pústa.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Væri auðvelt að segja Gerrard, en ég hef alltaf haldið mikið upp á danska varnartröllið Daniel Agger. Einnig var ég líka alltaf mjög hrifinn af Bendtner, leikmanni Arsenal. Svoleiðis slúttarar sjást ekki oft í dag.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Hef ekki enn gerst svo frægur að fara á leik með þeim og skammast mín þokkalega fyrir það. Það er samt búið að vera á stefnuskránni síðustu ár, vantar bara kjarkinn.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Á nokkrar treyjur og trefla og þess háttar dót.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Náði nú bróður mínum með mér í samfélagið, þó að foreldrarnir séu Arsenal fólk. Einnig á ég einn frænda sem heldur með Arsenal sem er farinn að suða um inngöngu í klúbbinn.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Aldrei dottið það í hug.

Uppáhalds málsháttur? -Illt er að kljást við kollóttan.

Einhver góð saga úr boltanum? -Maður lenti nú örugglega oft í einhverju skemmtilegu í boltanum, en annars stendur alltaf upp úr hjá manni þegar við í 3. flokk karla fórum út til Danmerkur að keppa á móti þar og enduðu í 2. sæti. Þar vorum við alltaf að snáðast og lentum í ýmsum uppákomum.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Maður hefur nú ekkert mikið verið að hrekkja en það kemur svona annað slagið fyrir að maður er plataður í eitthvað, misgóðir hrekkir að sjálfsögðu og kannski ekki allt prentvænt.

Spurning frá Halldóru Andrésdóttur: -Ef þú gætir farið aftur í tímann og farið á hvaða leik sem er í ensku, hvaða leik myndir þú velja og af hverju? Yrði líklega að velja Liverpool-AC milan 2005, það var einn stórgóður leikur.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Arnór Guðjónsson

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Kann Tommi Tuchel ekki að nota Lukaku eða er þetta sprungin blaðra ?

Áður birst þi 42. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir