Lífið er golf - Áskorandinn Sigurður Jóhann Hallbjörnsson (Siggi Jói), brottfluttur Króksari

Þar sem ég er fæddur á því herrans ári 1969 mun ég fagna 50 ára afmæli seinna á árinu. Á þessum tímamótum telst ég víst vera miðaldra af jafnöldrum, gamalmenni í augum barnanna og fjörgamall í augum barnabarns.

En hvað er miðaldra karlmaður að dunda sér við í frítíma sínum? Jú, eins og svo margir jafnaldrar mínir þá stunda ég golf (oft meira af vilja en mætti). Mörgum finnst ég vera full ungur til að stunda þessa „gamalmenna” íþrótt, en það verður að segjast að ég sé mest eftir því að hafa ekki byrjað að iðka þessa dásamlegu íþrótt mikið fyrr.

En hvernig eyðir þessi miðaldra karlmaður frítíma sínum um helgar. Það má segja að helgin byrji á miðvikudegi þegar karlinn byrjar að undirbúa íþróttaiðkun helgarinnar. Þá er byrjað að kíkja á uppáhalds heimasíðurnar eins og vedur.is, yr.no, belgingur.is og blika.is til að athuga hvar mestu líkurnar eru á þurru veðri og hægum vindi og ekki væri verra ef hitabylgja (10+C) væri á viðkomandi svæði. Eftir að hafa spottað út líkleg leiksvæði er hinn heilagi gral vefsíða heimsóttur, þ.e.a.s. golf.is, til að athuga hvort ekki örugglega sé laust pláss á væntanlegu leiksvæði og jú, heppnin var með mér í þetta skiptið og ég kemst út að leika um helgina.

Fimmtudagur og föstudagur fara í að kíkja reglulega á veðurspásíðurnar góðu og vonast til að veðurspáin breytist ekki og jafnvel kíkt í golfbúð eða tvær til að athuga hvort að einhver ný hjálpartæki séu komin á markaðinn sem gætu bjargað helginni.

Loks rennur laugardagurinn upp bjartur og fagur, miðaldra karlmaðurinn rís úr rekkju í þriðja skiptið (maður er víst ekki með sterka samkvæmisblöðru lengur), egg og beikon á pönnuna, hjartalyfin, magalyfin og verkjalyfin tekin til og eftir morgunmatinn er farið að klæða sig í golffötin sem gætu saman staðið af köflóttum buxum, þröngri innanundirpeysu, pólóbol í skærum lit (sem passar ekki við litinn á buxunum) og peysu/vesti með tíglamynstri sem passar engan veginn við buxurnar og pólóbolinn. Punkturinn yfir i-ið er svo annaðhvort sixpensari sem er snúið öfugt eða derhúfa sem einhverju golfmerkja-logoi.

Síðan er golfsettinu skellt í skottið og brunað á golfvöllinn. Þegar á völlinn er komið og búið að ganga frá helstu formsatriðum (greiða vallargjöld, kaupa nesti og fara á klósettið einu sinni enn) er skundað á fyrsta teig ásamt spilafélögunum. Næstu klukkustundir fara í að rembast við að slá litla hvíta kúlu í þar til gerðar holur á vellinum. Eftir að hafa horft á golf í sjónvarpi virðist þetta vera leikur einn. En miðaldra karlmaðurinn er ekki atvinnumaður í golfi og er árangurinn eftir því. Hækkaður blóðþrýstingur, hjartsláttartruflanir, skapsveiflur, hlátur, grátur, einstaka YEEEESSSSS, en með reglulegu millibili heyrist „Ég ER HÆTTUR Í GOLFI, HVER VILL EIGA GOLFSETTIÐ MITT” eru einkennandi tilfinningar fyrir miðaldra karlmanninn. Og eftir að hafa skrifað undir skorkort með þriggja stafa tölu, sem er álíka há og blóðþrýstingurinn, þá dirfist einn meðspilarinn að spyrja: „Eigum við að spila aftur á morgun?“ Með blóðhlaupin augu og svitaperlur á enni lítur miðaldra karlmaðurinn á meðspilarann með undrunarsvip og segir: „JÁ, AUÐVITAÐ!“

 

Ég skora á Brynjar Rafn Birgisson að koma með næsta pistil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir