Ljós um land allt

Þann 30. mars 2013 birtist grein í Morgunblaðinu eftir þingmenn Framsóknar sem bar nafnið „Ljós í fjós“ og var upphafið af því verkefni sem við þekkjum sem „Ísland ljóstengt“. Það verkefni er eitt stærsta byggðarverkefni sem ráðist hefur verið í á síðustu árum og felst í því að ljósleiðaravæða hinar dreifðu byggðir landsins.

Verkefnið snerist um að ríkið og sveitarfélög ynnu saman við að koma ljósleiðaratengingu í dreifbýlið þar sem markaðsforsendur væru ekki fyrir hendi og ljóst væri að öðrum kosti kæmi ljósleiðari ekki á þau svæði sem um ræðir. Verkefnið hefur vakið mikla kátínu meðal þeirra sem notið hafa góðs af því, enda er það öllum ljóst að tilkoma ljósleiðaratengingar bætir búsetuskilyrði í dreifbýli til muna.

Mikilvægi viðunandi fjarskipta
Nú líður að lokum verkefnisins, og þá er mikilvægt að ekki verði numið staðar heldur haldið áfram á þeirri vegferð sem mörkuð var. Ráðast verður í ljósleiðaravæðingu þeirra þéttbýliskjarna þar sem markaðsforsendur fyrir lagningu ljósleiðara eru ekki fyrir hendi og ljóst að ekki verði tengt nema með aðkomu ríkis og sveitarfélaga.

Það er mikilvægt að íbúar landsins alls njóti sambærilegrar fjarskiptaþjónustu og ótækt er að þéttbýliskjarnar á landsbyggðinni séu ótengdir ljósleiðara. Það dregur verulega úr möguleikum og tækifærum íbúa og fyrirtækja á svæðinu til sóknar. Um þetta hljótum við öll að vera sammála.

Þrífösun rafmagns
Jafnframt þessu er nauðsynlegt að ljúka við þrífösun rafmagns um land allt. Það er mikil byggðarskekkja í því að nú árið 2021 sé því enn ekki lokið. Það á að vera eitt af forgangsverkefnum næstu ríkistjórnar að leggja fram tímasetta áætlun um slíkt verkefni þvert yfir landið.

Nauðsynlegt er að jafna aðstöðumun dreifbýlis og þéttbýlis. Við þurfum að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Við þurfum að jafna leikinn. Jöfnun búsetuskilyrða er eitt baráttumála okkar í Framsókn og þar veitum við engan afslátt.

Stefán Vagn er oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Lilja Rannveig situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir