Tíu lög og einir tónleikar

Páskadagur er í dag og landsmönnum hefur gefist kostur á að heimsækja sínar páskamessur á netinu að þessu sinni. Þeir sem sváfu yfir sig og misstu af prédikunum um upprisuna  geta sótt sína messu á YouTube og meðtekið gleðiboðskapinn. Nú ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að skella sér í tónlistarferðalag hér á Feyki. Hér gefur að líta nokkra hlekki á Jútjúbb-slóðir, skreyttar örpælingum umsjónarmanns Tón-lystarinnar á Feyki sem mögulega geta glatt nokkrar sálir. Hér ægir saman gömlu og nýju.

Með því að smella á rauðu breiðletruðu orðin opnast dýrðin á YouTube. Við hefjum ferðalagið í nútímanum:

Unglingsstúlkan Billie Eilish er heimsfræg og einn vinsælasti tónlistarmaður heims um þessar mundir. Hún á bróðir, Finneas, sem gerir með henni tónlistina heima. Það getur nefnilega verið fínt að  vera heima. Hann hefur örugglega gert þetta lag heima.

Neil Finn var einu sinni bróðir söngvarans í Split Enz sem var þá vinsælasta hljómsveitin á Nýja Sjálandi. Svo varð hann hinn bróðirinn í Split Enz. Tim Finn, sem var söngvarinn í Split Enz, varð síðan bróðir söngvarans í Crowded House sem var þá vinsælasta hljómsveitin á Nýja Sjálandi. Saman eru þeir Finn Brothers. Svona getur verið skrítið að vera bróðir. 

Andrew Ridgeley er þekktur sem hinn gaurinn í Wham! þó hann hafi eiginlega verið töffarinn í Wham! til að byrja með.  Það var hins vegar meira í Andy spunnið en sagan hefur gefið honum kredit fyrir en sagan fer ekki vel með alla. Hann gaf út eina sólóplötu og hér er fyrsti singullinn af henni, Shake, sem á sínum tíma var valið lag vikunnar í Melody Maker. Þannig að allt virtist í ljóma – þangað til stóra platan kom út og enginn nennti að hlusta. Andy er skráður sem meðhöfundur að tveimur lögum sem hann samdi með George Michael; Club Tropicana og Careless Whisper. Seinna lagið ætti að borga fyrir beikon framtíðarinnar og eitthvað rúmlega það.

Tears for Fears var dúett líkt og Wham! og þar var gæðunum sömuleiðis misskipt. Snillingurinn þar var Roland Orzabal, sem síðar vann um tíma með Emilíönu Torrini, en hinn var bassaleikarinn Curt Smith. Curtarinn settist þó niður um daginn með dóttur sinni, Divu, og saman sungu þau lagið Mad World sem er eftir Roland and Gary Jules gerði vinsælt.

Árið 1969 samdi Hollendingurinn Werner Theunissen lagið Mississippi undir áhrifum frá laginu Massachusetts sem Bee Gees gerðu frægt. Hollenska kántrý-popp-sveitin Pussycat, með Kowalczyk-systur í frontinum, gerðu Mississippi (lagið) heimsfrægt en það fór á toppinn víða og var til dæmis vinsælasta lagið í Suður-Afríku árið 1977.

Now the country song for ever lost its soul 
When the guitar player turned to rock & roll 
And everytime when summer nights are falling 
I will always be calling, dreams of yesterday

Iggy Pop og félagar hans í Stoogies hafa sennilega ekki kallað allt ömmu sína í gegnum tíðina. Árið 1973 var Elton John að reyna að semja við Iggy og félaga um að ganga til liðs við nýstofnað útgáfufyrirtæki sitt. Honum datt í hug óvenjuleg leið til að fá þá í sitt lið og dressaði sig upp í górillubúning og hljóp inn á svið hjá Iggy á miðjum tónleikum í Atalanta í Georgíu-fylki. Dagana á undan og nóttina fyrir tónleikana hafði verið mikið partýstand á Iggy og félögum, þeir voru skýjum ofar og hálf örmagna þegar górilluapi birtist á sviðinu í miðju lagi. Iggy vissi ekki hvort þetta væru ofskynjanir eða hvort alvöru górilla hefði ruðst upp á svið. Einn hljómsveitarmeðlima var við það að ráðast á górilluna þegar Elton tók „höfuðið af sér“. ~ Iggy Pop skrifaði aldrei undir samning við útgáfufyrirtæki Eltons.

Og fyrst minnst var á Elton John þá er hér hlekkur á algjörlega geggjaða tónleika með kappanum í Glasgow 1976, Þarna var röddin eins og í jarmandi unglambi og Toni næstum töff. Hann er bara einn á sviðinu og í algjöru ofurstuði. 

Colin Hay er Skoti en sennilega halda flestir að hann sé Ástrali. Enda var hann í áströlsku eitís-sveitinni Men at Work sem varð heimsfræg fyrir lag sitt Down Under (Traveling in a fried-out Kombi... Kombi er Fólksvagen Rúgbrauð).  En svo voru þeir allt í einu ekkert vinsælir lengur og útgáfufyrirtækin vildu ekki sjá þá. Colin fór þá að tónlistast upp á eigin spýtur og hefur smám saman byggt upp katalók af ágætu efni. Þar á meðal er þessi ofurfallegi ástaróður, I Just Don't Think I'll Ever Get Over You. En látið ekki blekkjast; þetta lag er víst alls ekki játning um eilífa ást til konu – heldur áfengis. Hver hefur sinn djöful að draga...

Don't want you thinking I'm unhappy
What is closer to the truth
Is that if I lived till I was a hundred and two
I just don't think I'll ever get over you

Hildur Guðna skaut gæðingnum aldna, Randy Newman, ref fyrir rass á síðustu Óskarsverðlaunahátíð. Randy er sennilega frægastur fyrir Toy Story tónlistina – hver hefur ekki fengið You've Got a Friend in Me (Ég er sko vinur þinn) á heilann? Nema hvað; Randy var um daginn beðinn um að hvetja fólk til að þvo sér um hendurnar, snerta ekki andlitið og halda sig heima. Svo hann samdi auðvitað lag, Stay Away.

Stay away from me 
Baby, keep your distance, please 
Stay away from me 
Words of love in times like these 
I'm gonna be with you 24 hours a day 
A lot of people couldn't stand that But you can 
You'll be with me 24 hours a day 
What a lucky man I am  

Beth Hart er ein besta blúsrokk-söngkona samtímans. Hún sló í gegn með laginu LA Song árið 1999 en missti fótanna í lífinu og tilverunni. Þar komu við sögu fíkniefni og geðveiki. Leiðin hefur legið upp á við eftir að hún fékk greiningu og nú gefur hún reglulega út nýja músík með textum oftar en ekki byggðum á lífi hennar. Eins og heyra má í laginu Leave a Light On.

I never did 17 and I'm all messed up inside 
I cut myself just to feel alive 
I leave the light on 
21 on the run on the run on the run from myself 
From myself and everyone 
I leave the light on, I leave the light on 

Látum þetta gott heita með því að enda á Góðri ferð innanhúss og vonandi hafa þá flestir fundið ferðalag að þeirra skapi  ;o)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir