Loksins ný jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar?

Nú er í umræðunni nýr vegur og jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar og hefur stór hópur fólks sent Alþingi áskorun um að koma þeim göngum fyrir á samgönguáætlun næstu ára. Það er virkilega gott og vonandi að málið fái jákvæða niðurstöðu og endi með góðum jarðgöngum og leysi þar með af veginn um Almenninga sem öllum er ljóst, a.m.k. þeim sem um hann fara reglulega, að hann er löngu kominn framyfir síðasta notkunardag. Reyndar stórhættulegur ef öllu er haldið til haga.

Í ljósi þess að baráttan stendur nú um að fá þessi jarðgöng má rifja upp að barátta fyrir nýjum jarðgöngum milli Fljóta og Siglufjarðar er ekki nýtilkomin. Þegar undirbúningur stóð sem hæst um vegabætur á utanverðum Tröllaskaga um og upp úr aldamótunum síðustu voru tvær hugmyndir í gangi. Annars vegar núverandi tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar gegnum Héðinsfjörð, almennt kölluð Héðinsfjarðarleið, hinsvegar tvenn göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar gegnum Fljót, almennt kölluð Fljótaleið. Baráttuhópur fyrir Fljótaleiðinni benti á marga kosti hennar m.a. að losna við veginn um Almenninga og koma á góðum og öruggum samgöngum milli Fljóta, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Fljótaleiðin hefði þar með opnað góðan hringveg um Tröllaskagann. Síðan aðrir hlutir, en ekki síður mikilvægir, eins og að láta náttúruperluna Héðinsfjörð vera ósnortna fyrir komandi kynslóðir. Eins var bent á að Siglfirðingar myndu losna við mikla umferð um þéttbýlið hjá sér sem hlýtur að vera kostur og bara allt í lagi að vera á enda vegarins ef örstutt er í Tröllaskagahringveginn. Reyndar getur fólk haft margar skoðanir á því t.d. þeir sem stunda verslun og ferðaþjónustu.

Vissulega hefur Héðinsfjarðarleiðin góða kosti og þá helst að mjög stutt er á milli þéttbýlanna í Ólafsfirði og Siglufirði og nokkuð styttra en samkvæmt Fljótaleiðahugmyndinni. En stærsti ókostur Héðinsfjarðarleiðarinnar er sá að enn er óleyst með bættar samgöngur milli Fljóta og Siglufjarðar sem einmitt núna er verið að berjast fyrir. Því miður hafði Fljótaleiðahugmyndin ekki nægjanlegt fylgi né stuðning innan stjórnkerfis beggja vegna Tröllaskaga á þessum árum. Ekki er ætlunin að fara nánar út í hvernig baráttan milli þessara tveggja hugmynda var á sínum tíma en nokkuð greinilegt að búið var að ákveða af ráðamönnum í upphafi að Héðinsfjarðarleiðin yrði ofan á. Og þar við sat.

Ef fólk hefði tekið höndum saman um Fljótaleiðina á sínum tíma er líklegt að Almenningsvegur hefði verið aflagður fyrir mörgum árum og sá slæmi vegarkafli löngu úr sögunni. Til margra ára hefði fólk keyrt eftir öruggum nútíma vegi og nýtísku göngum milli Fljóta og Siglufjarðar öllum vegfarendum til hagsbóta. En það er nú allt önnur saga.

 

Hjalti Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir