Minningar um áramót - Áskorandi Gunnar S. Sigurðsson Blönduósi

Það er góðra manna siður að staldra aðeins við um áramótin og rifja upp hvað liðið ár hefur borið í skauti sínu. Ekki ætla ég að kafa í þá atburði. Það er svo rækilega gert í fjölmiðlum dag hvern. Engu að síður óska ég öllum löndum mínum farsældar á komandi ári og votta þeim samúð sem eiga um sárt að binda.

Nýliðin áramót voru með öðru móti núna þar sem tæplega 230 ára hefð var rofin að beiðni yfirvalda til að forðast of mikla nánd þar sem fólk kæmi saman og farið fram á að ekki yrði efnt til áramótabrenna. Flugeldasýningar voru samt á vegum björgunarsveita og einstaklinga enda var mikið magn af flugeldum landanum handbært til að senda út í himinblámann og það óspart notað.

Í bókinni „Dagar Íslands“ í samantekt Jónasar Ragnarssonar er þess getið að fyrsta áramótabrenna sem sögur fara af hafi verið haldin 31. des. 1791 og fyrsta blysförin og álfabrennan 31. des. 1871.

Samkvæmt þessu er hefðin gömul, að halda áramóta – og álfa – brennur. Hvort tveggja var til skemmtunar og sums staðar talað um að „brenna út árið“. Álfabrennur voru meiri skrautsýningar en áramótabrennur. Þangað komu álfa – kóngar og – drottningar með sína hirð og stjórnuðu þar söng og dansi. Að áramótabrennum komu líka gestir úr annarri veröld, mest kannski púkar og forynjur. Svo var líka sums staðar slegið upp brennum á þrettándanum. Þangað komu gjarnan álfahjón með sína hirð.

Síðan hafa þessar skemmtanir tekið breytingum. Álfabrennur hafa á fáeinum stöðum haldið sínum vinsældum og verið haldnar fram á þennan dag. Áramótabrennur hafa mjög víða tíðkast og þá gjarna verið notaðar til förgunar á brennanlegum úrgangi, sem ekki var lengur notaður við upphitunar húsa eftir að olía og síðar rafmagn og jarðvarmi kom þar til sögunnar. Þegar ég og mínir jafnaldrar og leikfélagar vorum að alast upp á Hvammstanga á árunum um og eftir miðja seinustu öld var mikið tilstand frá því í byrjun desember og til áramóta, við að safna saman efni í áramótabrennu og var brennuvörgum þá ekki allt heilagt og þeir að sumra áliti óþarflega tiltektarsamir. Þessi söfnun fór að mestu fram eftir skólatíma á daginn, enda birtutími þá heppilegastur. Það breyttist svo talsvert 1956 þegar ný raflína frá Laxárvatnsvirkjun var lögð til Hvammstanga og götulýsing og rafmagnsnotkun aukin til muna.

Við töldum að sumt af því drasli sem fólk safnaði saman einskis virði og best komið í brennu á gamalárskvöld. Ekki voru nú allir sammála þessu, þó man ég ekki eftir miklum eftirmálum eða klögumálum utan einu sinni. Þá vorum við sakaðir um stuld á staur, sem átti að vera síðasta spýtan sem til var úr „Norrænunni“ skipi sem strandaði innar í firðinum, við Vallarnes 1908. Sá sem taldi sig réttan eiganda að nefndum staur var kaupmaður á Hvammstanga okkur ákaflega velviljaður, í flestum tilvikum, en að eigin sögn andvígur því að svo merkilegum staur væri stolið og hann dæmdur til að brennast. Það má svo sem vel vera að staurinn hafi upphaflega komið úr Norrænunni en hann var þó í millitíðinni búinn að vera í fjöldamörg ár mæniás í hænsnakofa sem tilheyrði Árnesi, húsinu sem við áttum heima í en er núna Lækjargata 3. Kofann var búið að rífa svo pabbi gaf okkur staurinn. Það kom því í hans hlut að koma kaupmanninum í skilning um að staurnum hefði ekki verið stolið frá honum.

Ég skora á Guðmund Hauk Sigurðsson að taka við Áskorendapennanum.

Áður birst í 2. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir