Mjór er mikils vísir
Menntaskólinn á Ísafirði varð til vegna framsýni einstaklinga sem höfðu þá sannfæringu að menntunn væri undirstaða byggðar. Hann hóf starfsemi árið 1970 og eru því liðin tæp 40 ár, sem auðvitað er dropi í hafið í sögu lands og þjóðar.
Háskólasetrið á Ísafirði er einnig ung stofnun, sem hefur þó virðist mér áorkað miklu á þessu stutta skeiði, eða um það bil 4 árum. Við erum öll þakklát fyrir þau tækifæri sem það hefur fært hingað til Ísafjarðar. Á tímum kreppu og atvinnuleysis hefur vaxið þörf fyrir menntunn og símenntunn. Krafa Vestfirðinga hefur verið að þeirri þörf verði mætt hér á heimaslóð í æ ríkari mæli.
Í því tilliti er eðlilegt að nýta innviði samfélagsins hér vestra og þróa sambýli öflugs verklegs náms og sérhæfðs háskólanáms. Hér er atvinnulíf um margt sérstætt. Nægir að nefna fyrirtæki eins og 3X, Póls (sem rann inn í Marel) og svo auðvitað öflugan sjávarútveg. Náttúra Vestfjarðar er víðfræg og ekki síður sérstæð. Þar skulum við nefna strandlengjuna, nálægð við gjöful fiskimið og víðáttumiklar óbyggðir. Síðustu misserin hefur verið vinsælt að tala um samþáttun, hvar eigum við að nýta tækifæri til samþáttunnar ef ekki hér?
Íslendingar eru eftirbátar nágranna og vinaþjóða okkar eins og Norðurlandanna og Bretlands, hvað varðar hlutfall háskólamenntaðra af vinnubæru fólki. Gera má ráð fyrir að á Íslandi séu um 20% vinubærra með háskólapróf. Sambærileg tala er áætluð um 30% á Norðurlöndunum. Það er ekki nóg með það, heldur hafa þessi samkeppnislönd okkar sett sér mun hærri markmið fyrir þetta hlutfall.
Hvað er til ráða? Vissulega er það svo, að ekki verði bókvitið ætíð í askana látið, en engu að síður vitum við að hærra menntunnarstig þjóðarinnar kallar á aukna velsæld. Saga nágrannalanda okkar til lengri tíma litið staðfestir þetta og við megum ekki leggja árar í bát þótt við glímum nú við tímabundna niðursveiflu og erfiðleika. Við eigum að halda ótrauð áfram að byggja upp á þeim sviðum sem við vitum að munu skila þjóð okkar fram veginn og færa börnum okkar aukin tækifæri. Við eigum að efla staðbundið háskólanám í skilgreindum kjarnabyggðum landsins og því er rétt að stefna að sérhæfðum og samkeppnishæfum Háskóla Ísafjarðar. Við eigum einmitt nú að taka það skref og þeir fjármunir sem varið verður til þessa munu skila sér margfaldir til baka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.