„Beethoven og Bach eru smám saman að ná tökum á mér“ / HAUKUR ÁSGEIRS

Haukur Ásgeirs. AÐSEND MYND
Haukur Ásgeirs. AÐSEND MYND

Tón-lystarmaðurinn að þessu sinni er Haukur Ásgeirsson (1953), skráður deildarstjóri hitaveitna hjá RARIK á Norðurlandi, en Haukur hefur búið á Blönduósi til langs tíma. „ Ég er fæddur á Ólafsfirði, ættaður úr Fljótunum og Ólafsfirði. Ég tel mig vera Skagfirðing en hef búið á Ólafsfirði, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjavík, Blönduósi, Odense og bý núna á Blönduósi. Konan mín er frá Reykjavík.

Haukur spilar á gítar, bassagítar, trommur, minna á hljómborð og loks á trompet með lúðrasveitinni. 

Spurður út í helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann: „Ég byrjaði snemma að spila í hljómsveitum. Þær hétu ýmsum nöfnum: Steríó, Spaðar, Ósmenn, Svarta María, Lagsmenn, Demó og einhverjar fleiri. Ég lærði í tónskóla Sigursveins D Kristinssonar hjá Sigursveini og Gunnari Jónssyni.  Ég kenndi á gítar og flautu í tónlistarskólanum á Blönduósi en þá var maður varla matvinnungur svo að ég hætti því fljótt og fór að vinna fyrir  mér. Hef dundað við að semja lög sem flest gleymast jafnóðum en nokkur á ég þó og hef sent í dægurlagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks sem var ætíð skemmtileg. Helsta tónlistarafrek mitt var örugglega að leika á gítar með hljómsveitinni Ósmönnum [frá Blönduósi] á sínum tíma, 2-3svar í viku allt árið. Það var mikil vinna í nokkur ár.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Sultans of Swing með Dire Straits.

Uppáhalds tónlistartímabil? Árabilið 1965-1975, það er lang lang lang besta tímabilið. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Beethoven og Bach eru  smám saman að ná tökum á mér, ég er trúlega að þroskast eitthvað í seinni tíð.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Dægurlagatónlist en stundum þó á tónlist Schuberts, Mozarts og á fleiri gamalla karla.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég veit að það voru örugglega bítlarnir en hver af þeim, man ekki.

Hvaða græjur varstu þá með? Radionette og heimasmíðað  hátalarakit frá Danmörku.

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Born to be Wild með Steppenwolf, það var eins og vera á mótorhjóli á 200 km hraða.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Rapp.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Keep on Running með Spencer Davies Group eða Sultans of Swing með Dire Straits.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Leona Lewis með Run.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég tæki gamla vin minn hann Skarphéðinn Einarsson með mér til Bretlands að hlusta á Led Zeppelín eins og forðum í höllinni 1971. Sennilega færi ég með hann á einhvern karlakórinn í leiðinni.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Rock.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Jimmy Page... já, og líklega Gary Moore.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Lifun með Trúbrot, hún var alveg sérstök á sínum tíma.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? 

David Gilmour og Pink Foyd / Wish You Were Here
Leona Lewis / Run
Gary Moore / Still Got The Blues

Æi, það má ekki spyrja svona...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir