Munaðarlausar tillögur
Margir íbúar Skagafjarðar bundu vonir við að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar yrði hagfelldari en ríkisstjórnin sem sat áður og skar rækilega niður á Norðurlandi vestra. Vonir vöknuðu m.a um að hægt yrði að leggja endanlega til hliðar ýmsar vanhugsaðar áætlanir um sameiningu stofnana á Norðurlandi vestra sem miðuðu fyrst og fremst að því að fækka störfum á svæðinu.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var stofnuð sérstök landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra til að efla atvinnulíf og starfsmaður nefndarinnar var enginn annar en Ásmundur Einar Daðason aðstoðarforsætisráðherra. Fréttir herma að nefndin hafi lagt fram 25 tillögur. Veigamestu tillögurnar fólu í sér flutning höfuðstöðva RARIK ásamt því að rekstur skipa Landhelgisgæslunnar flyttist norður í land, auk þess að efla opinbera starfsemi á svæðinu. Samtals var áætlað að opinberum störfum myndi fjölga um 130 á Norðurlandi vestra.
Í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga gáfu fulltrúar núverandi meirihluta í Skagafirði það skýrt í skyn að helsta leiðin til þess að tryggja flutning opinberra starfa í Skagafjörð væri að sjá til þess að það væri pólitískur samhljómur í sveitarstjórninni og ríkisstjórn Íslands.
Í grein sem aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur skrifaði í Feyki í maí 2014 ásamt Stefáni Vagni Stefánssyni var það undirstrikað og gefin fyrirheit um fjölgun starfa hjá Íbúðarlánasjóði á Sauðárkróki.
Tillögurnar um fjölda stofnana og hundruð opinberra starfa sem væru á leiðinni í Skagafjörð slævði mjög baráttu
sveitarstjórnarfulltrúa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gegn vanhugsuðum áætlunum um sameiningu sýslumannsembætta og því að leggja niður sjálfstæði heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Fyrrgreindar sameiningar runnu því hávaðalítið í gegn án mikilla andmæla í kjölfar sveitastjórnarkosninga
Eflaust stóðu fulltrúar meirihlutans í þeirri trú fyrir nokkrum misserum síðan, að bráðum kæmi betri tíð með efldum Íbúðalánasjóði og nýjum höfuðstöðvum RARIK á Króknum. Reyndin hefur því miður verið allt önnur. Störfum hefur fækkað hjá Íbúalánasjóði og RARIK á Króknum og ekkert bólar á nýju störfunum 130.
Og ekki bætir úr skák að verkefnið virðist algerlega munaðarlaust hjá þingmönnum kjördæmisins. Ekkert hefur frést af því að starfsmaður landshlutanefndar, Ásmundur Einar Daðason, hafi beitt sér fyrir því að niðurstöður landshlutanefndarinnar næðu fram að ganga, hvað þá 1. þingmaður Norðvesturkjördæmisins, Gunnar Bragi Sveinsson, enda hefur hann verið mjög upptekinn við að sinna mikilvægum málum í Úkraínu og Brussel.
Mikilvægt er að sveitarstjórnarfulltrúar og Skagfirðingar íhugi þá stöðu sem upp er komin og slái ekki af í baráttu fyrir þeim störfum sem eru til staðar og tryggi sömuleiðis rétt íbúa til að nýta nálæg fiskimið. Staðan nú er sú að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við það markmið sitt að fjölga störfum heldur hefur þeim fækkað og auk þess tók ráðherra Framsóknarflokksins upp á því að skera niður byggðakvótann í Skagafirði.Það lýsir ákveðinni meðvirkni þegar formaður byggðaráðs Skagafjarðar lýsti nýlega yfir ánægju með stöðu tillagna landshlutanefndarinnar, á þeim forsendum að útlit væri fyrir að nokkur verkefni væru að verða að veruleika! Staðreyndin er sú að í flestum tilfellum er um að ræða endurfjármögnun á ágætum verkefnum sem eru þegar til staðar í Húnavatnssýslum.
Ef litið er til annarra áætlana og fjárframlaga til Norðurlands vestra hvort sem það er til málefna fatlaðra, menningarmála eða vegaáætlunar, þá er ljóst að ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur dregið gríðarlega úr fjárframlögum á svæðið.
Sú fækkun íbúa sem hefur orðið á svæðinu frá því ríkisstjórnin tók við völdum er því ekki nein tilviljun heldur bein afleiðing af stjórnarstefnunni.
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur og varasveitarstjórnarfulltrúi K-listans í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.