Nokkur orð um menninguna… - Áskorendapistill Greta Clough Hvammstanga

Kannski skipta listir og menning hvergi meira máli en í dreifðari byggðarlögum, þar sem tækifæri til ástundunar atvinnulista takmarkast að nokkru sökum fámennis. Rannsóknir hafa sýnt að getan til að skilja og ræða menningu hefur bein áhrif á lífsgæði, samfélagslega samheldni, heilsu og lífsgæði, svo fátt eitt sé tínt til.

Með því að upplifa menningu fjarlægjum við okkur úr hversdagsamstrinu, förum út fyrir þægindarammann og breytum um sjónarhorn. Með því að njóta lista, hverra nafni sem þær nefnast, öðlumst við dýpri skilning á mannkyninu í heild, og þeim hópum þess sem við búum meðal. Og af þessum ástæðum getur menningin líka hjálpað okkur að yfirstíga landamæri. Markmið listupplifunar og -þátttöku er alls ekki að búa til fleiri listamenn, heldur að búa til skarpari huga; víkka sjóndeildarhring okkar. Við gerum sjálfum okkur og samfélaginu sem við búum í mikinn grikk ef við leitum þessi tækifæri ekki uppi og sköpum umhverfi þar sem listir og menning dafna.

Það hefur margsýnt sig að listir og menning eru einn mikilvægasti þátturinn í jákvæðri byggðaþróun. Listamenn eru nokkurskonar undanfarar í endurlífgun samfélaga, skapa aðlaðandi og spennandi umhverfi sem svo lokkar til sín hefðbundnari fyrirtæki og frumkvöðla. Í þessu samhengi er mikilvægt að muna að þrátt fyrir að samfélagsleg samheldnisáhrif listaþátttöku í áhugasviði séu óumdeild og frábær, þá eru það atvinnulistirnar sem eru drifkraftur endurnýjunar samfélaga. Það er því mikilvægt að okkar landshluti viðurkenni þessa staðreynd, marki sér og fylgi framsýnni lista- og menningarstefnu sem laðar hingað listamenn, og tryggi búsetu þeirra til framtíðar í landshlutanum.

Einn af stærstu takmarkandi þáttum dæmigerðrar listastarfsemi er erfitt aðgengi að vinnurými á viðráðanlegu verði. Landsbyggðin ætti að vera í aðstöðu til að leysa þetta vandamál. Það er mín trú, af öllum ofangreindum ástæðum og fleiri til, að listin sé framtíð landsbyggðarinnar, og landsbyggðin sé framtíð listarinnar.

Ég skora á Jessicu Aquino, ferðamáladoktor og æskulýðsfrömuð, að taka við pennanum.

Áður birst í 9. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir