Nokkur orð um verðtryggð húsnæðislán
Hingað og ekki lengra, nú er komið að þolmörkum. Hvar er skjaldborgin sem átti að standa vörð um heimilin? Verðtryggð húsnæðislán hafa stökkbreyst á undanförnum árum. Greiðslubyrði heimilanna eykst stöðugt og lítið er gert til að leiðrétta þessi mál. Það er komið nóg og tími kominn til þess að gera breytingar á stöðu þessa hóps sem tók verðtryggð lán.
Upphafið
Í ársbyrjun 2007 ákváðum við, fjögurra manna fjölskyldan, að stækka við okkur. Bjuggum þá í eldra húsi hér á Skaganum og langaði í nýrra hús sem þarfnaðist minna viðhalds en gamla húsið. Við fórum á stúfana og skoðuðum ýmsar eignir sem voru til sölu en svo ákváðum við að byggja okkur heimili. Sáum að það var hagkvæmasti kosturinn, við gætum unnið sjálf í húsinu um kvöld og helgar og auk þess bauðst okkur að flytja inn á ættingja okkar til að spara leigu. Þetta gerðum við og það tók okkur rétt tæpt ár að koma okkur inn í húsið. Ekki misskilja mig, þarna horfðum við í hverja einustu krónu. Versluðum innréttingar og tæki í ódýrari kantinum.
Við tókum verðtryggð lán upp á 28 milljónir þegar við höfðum lokið við húsið. Þá var það metið á 38 milljónir og við nokkuð sátt með stöðuna. Hugsuðum með okkur að við gætum selt húsið ef við myndum lenda í vandræðum.
Breytt staða
Á haustmánuðum 2008 breyttist staða ansi margra. Íslenska fjármálakerfið hrundi og það hefur enginn sloppið við að verða var við þau ósköp, því miður.
Maðurinn minn missti vinnuna um jólin 2008. Sem betur fer fékk hann vinnu á fyrstu mánuðum ársins 2009 en launin voru langt frá því að vera þau sömu og hann var með áður. Það munaði um 240 þúsund útborguðum á mánuði og setti það stórt strik í reikninginn.
Við sáum í hvað stefndi og fórum í bankann. Þar tók yndislegt fólk á móti okkur sem vildi allt fyrir okkur gera. Við gerðum samning við bankann sem var þess eðlis að við lögðum öll okkar laun inn á reikning sem bankinn hafði umsjón yfir. Bankinn skammtaði okkur svo pening í hverri viku sem framfærslu. Þetta kerfi hentaði vel, við fengum að halda heimilinu okkar og vorum sátt við það. Viss um að það væri verið að hugsa einhverja almenna aðgerð til hjálpar heimilum í þessari stöðu.
Ferlið tók langan tíma, lánin voru fryst og á endanum var okkur boðið upp á 110 % leiðina. Á þessum tíma hafði húsnæðisverðið hrunið og lánin rokið upp.
Staðan núna
Enn búum við í húsinu okkar. 110 % leiðin hefur lítið hjálpað okkur því húsnæðislánið er að nálgast þær hæðir sem það var í, áður en við fengum hjálpina.
Maðurinn minn hefur unnið erlendis í tvö ár og þarf að vinna þar áfram því þar bjóðast betri laun. Án þeirra kjara værum við ekki lengur í húsinu. Greiðslubyrðin hefur stóraukist þrátt fyrir að við séum ekki að bæta við okkur neinum nýjum útgjaldaliðum. Þvert á móti höldum við í hverja krónu og skoðum í hvað peningarnir fara.
Það spyrja sig líklega einhverjir við lestur þessarar greinar af hverju við búum enn í húsinu. Ég get sagt ykkur það. Við eigum ekki neitt í húsinu og við erum föst. Ef við förum þá þurfum við að borga með okkur og við höfum ekki efni á því. Eins og svo margir aðrir sem eru í sömu sporum og við.
Breytingar
Ég spyr fyrir okkar hönd og fyrir hönd allra þeirra sem eru í sömu stöðu og við, hvenær á að hjálpa heimilunum? Hvenær sjáum við fram á aðgerðir sem hjálpa þessum hópi fólks, áður en stór hluti þeirra fer í þrot.
Einhver spyr líklega hvar eigi að fá peninga til þess að leiðrétta þessi lán. Mig langar því að benda á að frá hruni hefur ríkið sett 400 milljarða í fjármálakerfið og 1000 milljarða í afskriftir fyrirtækjanna. Ég spyr, hvaðan voru þessir peningar teknir?
Hingað og ekki lengra
Ég er með íbúðarlán sem ég borga 160 þúsund krónur af á mánuði. Lánið stendur í 34 milljónum og í hverjum mánuði hækkar það um u.þ.b 120 þúsund krónur. Það gera um 1440 þúsund á ári. Ég segi því hingað og ekki lengra. Ég er búin að fá nóg. Hvað með ykkur?
Núverandi stjórnmálamenn og þeir sem sækjast eftir kjöri í vor verða að einbeita sér að þessum málum. Komum heimilunum til hjálpar.
Elsa Lára Arnardóttir , 3. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.