Styrktarhlaup Einstakra barna þann 1. maí á Króknum
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
25.04.2025
kl. 08.33
Það er að skapast sú fallega hefð að halda styrktarhlaup þann 1. maí á Sauðárkróki fyrir Einstök börn. Allt skipulag í kringum hlaupið er í höndum hlaupahópsins 550 Rammvilltar en fyrst hlaupið var haldið árið 2023. Þetta er því í þriðja skiptið sem þær stöllur setja þennan viðburð á og hefur þátttaka farið fram úr björtustu vonum. Rúmlega 200 manns hlupu, gengu eða hjóluðu sér til gamans í fyrra og vonast skipuleggjendur að svipuð þátttaka verði þetta árið. Nú þarf bara að grafa upp hlaupaskóna og koma sér í hlaupagírinn fyrir 1. maí.
Upphitun hefst við Sundlaug Sauðárkróks upp úr kl. 13:30 og hefst sjálft hlaupið kl. 14:00. Tvær leiðir verða í boði, 3 og 5 km, sem hægt er að stytta eða lengja að vild - hlaupandi, gangandi eða hjólandi. Aðalmálið er bara að mæta, hafa gaman og njóta útiverunnar saman! Í boði verða hreyfibingóspjöld fyrir börnin, drykkur við endamark og frítt í sund fyrir þátttakendur að hlaupi loknu - opið til kl. 17.
Þátttakendur eru hvattir til að mæta í litríkum og/eða glitrandi fötum í anda Einstakra barna. Takmarkað magn verður af bolum frá Einstökum börnum til sölu á staðnum fyrir áhugasama, en við bendum á vefverslun Einstakra barna á heimasíðu félagsins fyrir þau sem vilja tryggja sér boli eða annan varning fyrir hlaupið.
Frjáls framlög verða á staðnum til styrktar Einstökum börnum, auk þess sem hægt er að millifæra á 0161-15-631208, kt. 120889-3389.
Hlaupum, löbbum eða hjólum saman
Öll velkomin!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.